We wanna be free, free to do what we wanna do, and we want to get loaded!!
We wanna be free, free to do what we wanna do, and we want to get loaded!!

We wanna be free, free to do what we wanna do, and we want to get loaded!!

IMG_0381%20%28Resized%29.jpg
Það var ekki laust við að það færi hrollur um okkur þegar við fórum að nálgast úthverfi Las Vegas. Við höfðum verið lifandi fegnir að yfirgefa þessa óbrenndu Sódómu fyrir tveim vikum en örlögin höfðu jú vissulega búið þannig um hnútana að óhjákvæmilegt yrði að snúa hingað aftur. Þar sem við sigldum á Sævar gegnum brennheita eyðimörkina ræddum við hvað við gætum gert öðruvísi í þetta skiptið, svona til að gá hvort kannski væri einhver hlið á Las Vegas sem við ættum ókannaða. Niðurstaðan var að við myndum fara ótroðnar slóðir í hótelvali og láta helvítis spilavítin lönd og leið. Harðákveðinir í nýmótaðri stefnu okkar bókuðu við því þrjár nætur á Hooters Hótelinu og strunsuðum með fyrirlitningu rauðsokku í kynlífshjálpartækjabúð gegnum spilavíti þessa nýja leiguheimilis okkar. Ekki bara erum við betri en þetta í eðli okkar heldur einnig staðfastir í að hefja okkur yfir þetta syndafen í allri hegðun og andlegu atgerfi.
IMG_0379%20%28Resized%29.jpg
Iiiii will aaaaalwayss loooveee yyooouuuuu….
En þessi föstudagur var ekki bara dagur stefnumótunar og háleitra markmiða. Ónei, þetta var líka dagur vinslita, gráts og gnístan tanna. Þannig er mál með vexti að hann Sævar okkar er í eigu gráðugra auðmanna sem vilja hann aftur og það strax í dag. Þetta var eins og sena úr fagra Blakki, þegar skítlegi auðkýfingurinn hálf stelur góða fallega hestinum frá aumingja góða fátæka dýravininum. Og nú var komið að við myndum þurfa að framselja okkar ástkæra vin og ferðafélaga Sævar í klærnar á einhverjum ónærgætnum bílaníðingum sem myndu djöflast á cruise controlinu, níðast á sjálfskiptingunni og fóðra hann á engu nema ódýrasta 87 oktana bensíninu. Við höfðum svo sem vitað að þessi stund myndi renna upp en leið engu að síður eins og þriðjaheimsforeldrum að selja barnið sitt í skipulagt vændi. Við settumst þöglir uppí Sævar sem startaði sér treglega og smám saman mjökuðum við gegnum stappaðar umferðaæðar Sódómu í átt að Dollar bílaleigubílastæðunum. Hér yrðu leiðir að skiljast. Við kvöddum okkar silfraða ferðafélaga af innileika og snérum að lokum tregir baki við honum og gegnum burt. Grátklökkir og niðurlútir létum við lyklana af Sævari í hendurnar á skælbrosandi bílapimpinum og með sektarkennd þessar óréttláta heims á herðum okkar héldum við útí mannmergðina.
IMG_0380%20%28Resized%29.jpg
Teeeearrss in heeaaaveeeeennn…
Vegas hafði ekkert breyst í fjarveru okkar. Miskunarlaus eyðimerkursólin gerði það enn illmögulegt að dvelja langtímum saman utandyra og inni í tröllvöxnum Mammonsmustrunum var allt löðrandi í baneitraðri spilavítun. Enn streymdu miðstéttakanar um götunar í þéttri neyslufylkingu, leiftrandi af velmegun í bæði varningi og vaxtarlagi. Og við ? við liðum bara með og þrátt fyrir móralska háhestinn urðum við fljótt ráðþrota gegn hinni skelfilega útpældu höfuðborg Mammonistan. Las Vegas er nefninlega þrautskipulagt nauðhyggjuvöldunarhús þar sem frjáls vilji á engan sess. Alveg saman hvað maður reynir að taka sjálfstæðar ákvarðanir endar allt inní spilavítidómkirkjunum þar sem blikkandi ljós, hress gelgjupopptónlist og sönglandi sigursöngvar spilakassana leggjast á skilningarvitin. Aumingja miðtaugakerfið fer í hálfgerðan panikk og skynsemin þarf að há rússneskt vetrarstríð við að hamla dáleiðsluáhrifum Mammónsboðskaparins. Við sáum fljótlega að Vegas myndi hafa sigurinn á endanum svo nú væru góð ráð dýr ef við vildum ekki enda berir í tunnu að betla fyrir fari á flugvellinum. Í örvinglan okkar ráfuðum við inn á hanastélsbarinn á hótelinu okkar og ákváðum að héðan yrði ekki farið fyrr en skilningarvitin væru orðin nægjanlega dofin til að standast blikkljósabombandermangið
IMG_0388%20%28Resized%29.jpg
Óli og fararstjórinn.
Bakkus reyndist góður bandamaður og þar að auki kynntumst við innfæddum Vegasbúa í sömu erindagjörðum og við. Hann fræddi okkur um hversdagslíf innfæddra sem er nokkuð minna glanslíf en skemmtigarðurinn sjálfur myndi vilja láta af. Þetta grey þrælaði 70 tíma á viku við að afferma bíla og þess á milli leyfði hann sér af og til að kíkja á látlausari hótel borgarinnar til að fá sér í tá. Honum fannst þó synd að við værum ekki hrifnari en raun bar vitni af borginni hans og sannfærði okkur um koma með sér á einhvern voðalegan stuðstað sem kallaðist Coyote Ugly og var þekktur fyrir að stúlkur eru hvattar til að dansa á borðum. Nú, þetta var amk ekki spilavíti svo við létum slag standa og fórum með. Coyote Ugly var hinsvegar ekki jafn smart í raunveruleikanum eins og farastjóri okkar hafði af látið. Við vorum sammála um að staðurinn hafi upphaflega verið skírður Coyote en Ugly hafi meira fest við hann sakir gestanna sem þennan stað sóttu. Við höfðum þó gaman af öllu saman en meira eins og þegar maður horfði á fjölleikahússýningar RÚV á aðfangadag í gamla daga. Engu að síður var klukkan skyndilega orðinn lokunartími og við skildum við föruneyti okkar af enskum músíköntum sem við höfðum kynnst yfir borðdansshowinu og héldum heim á hótel. Farastjórinn hinsvegar kominn í gríðarlega gír og vildi að við fengjum okkur einn nightcap fyrir svefninn á Hootershótelinu okkar. Við samþykktum og lögðum svo uppí ferðalagið heim sem auðvitað var gegnum völdunarhús spilavíta með viðeigandi frústrasjón.
IMG_0389%20%28Resized%29.jpg
Coyote ….. Ugly
Ferðalagið heim á Hooters var þó engan veginn viðburðalaust. Ónei, loksins sýndi Vegas sinn innri mann. Þar sem við vorum að rölta milli New York og MGM Grand sáum mikinn aðdáendaskara sem saman og starði uppá hið risavaxna MGM. Það var nefninlega manngrey þar sem hafði verið óheppnari en aðrir þetta kvöldið. Í örvæntingu sinni yfir lánleysinu var okkar maður kominn uppá þak og gældi þar við hugmyndina um að skreyta gangstéttina fyrir neðan með sjálfum sér. Þetta vakti nokkra lukku meðal gests og gangandi og fljótlega voru komnir menn að bjóða veðlíkur á að kauði léti vaða. Farastjóranum okkar lét sér fátt um finnast enda sagðist hann hafa séð svona leiðindi margoft áður. Við nenntum þó ekki að fylgjast með úrlausn mála en þurftum þó að taka á okkur krók gegnum miðalda England og Trópískan frumskóg til að styggja ekki dramadrottninguna.
IMG_0410%20%28Resized%29.jpg
These colours don’t run…
Þegar á hótelbarinn á Hooters var komið sveif á Óla nokkur örvænting um að við myndum ekkert finna bandaríska drauminn. Yfir Coors Light ræddum við umræddan draum við aðra bargesti og fljótlega fundum við háskólamenntaðan kana sem sagðist hafa skrifa lokaritgerðina sína um þetta illskiljanlega fyrirbæri. Óli varð heltekinn og hóf að þræða úr honum garnirnar, en nokkuð árangurslaust þar sem þær voru þrælþræddar af Bakkusi þá þegar. Á meðan á þessum yfirheyrslum stóð fór Balda að leiðast og fór á röltið. Fljótlega fór andi Vegas að ná til hans og fyrri fyrirheit fóru lönd og leið. Upp kom buddan og undir klingjandi spilakassakórnum lá leiðin beint að rúllettuborðinu. En beikonskírlífið og Mummavænn léttmjöður þóknaðist Allah vel og lukka tók að leika um talnastöðvar framheilans. Það var eins og framtíðin lægi ljós fyrir og hún var björt. Baldi setti því bara veskið á svart.
Óli sat ákaflega þreytulegur meðan búsældarlegur menntakaninn rembdist við að skrifa niður ófrumleg nafnorð á borð við freedom, liberty and justice for all. Þessi maður vissi jafnmikið um bandaríska drauminn og hann vissi um heilbrigt mataræði. Baldi var horfinn og bara þessi leiðinlegi kall að röflandi eins og múminálfaútgáfan af Braveheart. Skyndilega kvað við hvellt norrænt gleðióp og stuttu síðar kom Baldi askvaðandi með fríðu föruneyti aðdáanda og bunka af seðlum uppúr öllum vösum. “ Ég fann hann! Ég fann hann!!”. Nú hvern? “ Helvíts drauminn maður”
Já við höfðum verið að leita að bandvitlaus fyrirbæri. Bandaríski draumurinn er ekkert flokkað hugtak sem menn hafa, finna eða fá. Ónei hann er vídd sem skilgreinir hversu mikið þú berð af samferðamönnum þínum og það sem gerir hann Bandarískan er að hann er smættanlegur niður í lægsta samnefnara – 1$. Því fleiri dollara sem þú átt í samanburði við aðra, sjáanlega, því meiri bandarískan draum hefur þú innbyrt og því meiri aðdáun og lotningu átt þú skilið frá þeim. Baldi hafði hratt og af stakri glæframennsku skotist upp á stjörnuhimininn og með því hvatt aðra til dáða og drauma um skjótfengna efnishyggjuhamingju. Þetta er jú það sem Vegas snýst um og við erum búnir að vera láta fara í taugarnar á okkur. Vegas er bara Bandaríski draumurinn, eða amk Dómkirkja hans. Vegas lúkkar glæsilega, allt endar í dollar og hér getur hver sem er verið krýndur til neyslukonungs gjörsamlega óháð eigin verðleika. Við vorum sem sagt búnir að keyra 3800km í leit að þessum fræga draumi en hann vara bara alltaf í vasanum hjá okkur.
300px-Un_dollar_us.jpg
Hvar er draumurinn, hvar ertu lífið sem ég þráði?, ó, ó eilífðin..
Daginn eftir vorum við í nokkru andlegu uppnámi. Þessi dagur hafði í raun engan tilgang. Draumurinn var ráðinn og það eitt eftir að snúa heim til Íslands og bera okkar bandaríska sannleik á torg. Við fórum því bara í bíó og horfðum á ástir og örlög 17. aldar sjóræningja. Þetta var eins og 3gja tíma upphafsatriði í prúðleikurunum. Við ráfuðum nokkuð markmiðslaust um borgina en enduðum á glæsilegum rússneskum veitingastað þar sem ákveðið var að halda síðustu kvöldmáltíðina. Rauða Torgið var þó ekkert alltof rússneskur en þar var þó vodka að fá sem sennilega er eins mikið af raunveruleika og hægt er að ætlast til hér í Vegas. Vodkað á Rauða Torginu reyndist þó hinn besti skáldamjöður og til var stutt og hressilegt lag um frelsishluta þessarar þjóðar hinna frjálsu og huguðu. Við fórum svo snemma í háttin enda langt ferðalag fyrir höndum.
IMG_0413%20%28Resized%29.jpg
Best líður blindum Lenín.
Lagði um það sem ekki má í USA
Það má ekki reykja inná bar,
og ekki klípa í kokteilstúlkurnar,
ekki drekka brennsa úti á miðju stræti,
aldrei neina háreisti og lææææti,
Þetta ameríska frelsi er svo skrítið,
það er alltaf að stoppa mann,
þó maður gerir ekki neitt,
það er alltaf að stoppa mann.
Það má ekki gera grín af Bush,
og ekki kaupa fleiri en fjóra sjúss,
ekki fara að hlægja þótt einhver sé of feitur,
já ameríka er skrítinn gleði-reiiiitur.
Þetta ameríska frelsi er svo skrítið,
það er alltaf að stoppa mann,
þó maður gerir ekki neitt,
það er alltaf að stoppa mann.

Við risum hressir að vanda og fórum beinustu leið út á flugvöll. Hér var ekkert óuppgert svo best bara að drífa sig í burtu. Við litum með ákveðinni fyrirlitningu útum JetBlue kýraugað í flugtaki og sammæltumst um að hingað færum við aldrei aftur ótilneyddir. Við erum bara búnir að gera Vegas, finna helvítis drauminn, vera desperatós í eyðimörkinni, faðma tré, fitna um 5kg og bara allt það sem Bandaríkin hafa uppá að bjóða um þessar mundir. Nú er bara að sigla heim í heiðan dalinn, til okkar ástkæru Eldfjallaeyju og leggja á ráðin hvar okkar mun næst vera þörf.

Leave a Reply