Paradísarheimt
Paradísarheimt

Paradísarheimt

IMG_0299.jpg
Awwwhhhhh

Eftir tékk-út kom upp áhugavert og nýstárlegt vandamál.  Það lá ekki ljóst fyrir hvað klukkan var.  Allir sem við spurðum gáfu mismundandi svör og meira að segja google stóð á gati og gaf upp tvo mismunandi tíma.  Við vorum frekar ráðþrota.  Það stóð auðvitað tímasetning á flugmiðanum okkar en að öðru leiti virtist engu skipta hvað klukkan var.  Á endanum var ákveðið að miða við úrið hans Óla útfrá tímasetningu fótboltaleikja í HM.  Hér á Bali er nóg að vera bara sólúr, það er jafnvel óverkill því sennilega skiptir mestu hvað það er bjart eða myrkur.  Já mjög tjillað fólk en létt stressandi fyrir tvo asíuunnendur á leiðinni í flug.  En jæja þetta tókst allt ljómandi vel, það má líka gjarnan koma fram fyrir flugáhugamenn að flugvöllurinn í Mataram er prýðilegur.  Frumstæður en alveg laus við allt flækjustig.  Það liðu 10 mínútur frá því sætisljósin slökknuðu þar til við stigum upp í rottuna.  Samt enginn Súvarnabúmí en ljómandi.  Við vorum frekar ánægðir með okkur. Lombok var klárlega allt annað en Bali, það var augljóst strax við lendingu, asnakerrur útum allt og gríðarlegt brall í gangi meðfram þjóðveginum.  Minnti satt að segja dálítið á Kambó, Aahhhh Kambó, sú VG lausa paradís.  Ekki leiðum að líkjast.  Það fór vellíðunarhrollur um okkur það sem við liðum um þjóðveginn í symfóníu af mótorhjólasuði, hófaskellum og bílflautum.

IMG_0419.jpg
Mangósopi í kókoshnetu

Hótelið okkar reyndist alveg geggjað.  Á stærð við Ísafjörð og með öllum hugsanlegum þægindum sem latur ferðamannarass kann að óska sér.  Þetta er svona aldingarður með litlum húsum, völundarhús af göngustígum, tennisvöllum, veitingastöðum, risa einkaströnd og risa sundlaug.  Best var samt að það eru engir gestir.  Það eina sem var að, var Óla að kenna.  Hann hafði sokkið of djúpt í Indó-mentalítetið og bókað í hótelið í ágúst.  Hann var grænn af skömm fyrir framan hótelstaffið en með alla ásjónu vel smurðrar dollah-eyðsluvélar var okkur tekið fagnandi og almanakslesblindufötlun Óla fyrirgefin með brosi svo glitti í tennurnar.  Mánuður fram og tilbaka skiptir litlu hér við miðbaug, bara eins og klukkan.  En útlendingur með dollah, úllalala!.

IMG_0366.jpg
Í aldingarðinum

Soltnir eins og svarthol fórum við í rannsóknarleiðangur í bæinn og yfir vænum núðluskammti og bjór ræddum við fyrstu kynni af þessari áhugaverðu eyju.  Það sem strax stakk okkur var það að við erum með nýjan titil hér á Lombok.  Hingað til höfum við ávallt verið ávarpaðir sem Sööh en hér erum við kallaðir Boss, eins og í Cool Hand Luke.  Óli vildi reyndar skrifa þetta á þefnæmni innfæddra sökum þess að við báðir erum lyktandi eins og Hugo Boss segir að lykti vel.  Baldi benti þá á að ef fólk ávarpaði okkur eftir lykt þá væri titillinn frekar “stinky” vegna þess mikla búkfnyks sem er af okkur þessa stundina vegna óþrifnaðar.  Allavega virðist nýja ávarpið allt í góðu og allir skælbrosandi og stanslaust í kringum okkur og við vinsælli en CSI.  Senggigi, þorpið sem við búum í er mikil náttúruparadís og virðist þjást af Field of dreams – Syndrome  “Build it, and they will come”.  Indarnir hafa vissulega græjað pleisið en svo bara kom engin.  Allt í lagi, fullt af ódýru vinnuafli svo er hér hrúga af veitingastöðum og börum en engar dollah-brennsluvélar til að keyra batteríið áfram.  Sennilega er þetta eins og Benidorm var 1969.  Þetta er þó alveg prýðilega fínt þorp og miklu heilbrigðara á geði en klikkaði nágranninn á Bali.  Við skelltum okkur í snookah og bjór á frábærlega klikkuðum stað (clubmarina.com) þar sem einhver local grúppa tortímdi hverjum slagaranum á fætur öðrum með söng sem minnti helst á breima kött í pappírstætara.  Á leiðinni heim stoppuðum við á nýja uppáhalds veitingastaðnum okkar í öllum heiminum.  Götubásinn hennar Mömmu Fatímu.  Þvílík ofurhamingja sem sá staður er.  Hann er kannski ekki mjög 2007 en Mama-Fatíma, rúmlega fimmtug Inda í slæðugalla rekur hann með röggsemi sem lætur Gordon Ramsey líta út eins og Haffa Haff í Vestfjarðarvíkingnum.  Mama-Fatíma spyr ekki hvað kúnninn vill, hún yfirheyrir.  Þar sem við sátum yfir götukjúkling stjarfir af aðdáun yfir Mömu-Fatímu ræddum við mannauðssóunina hér í Indó.  Mama-Fatíma ætti klárlega að vera aðalritari sameinuðu þjóðanna frekar en þessi lini kóreubúi.  Þá yrði bara heimsfriður.  Við kláruðum matinn okkar, sögðum takk fyrir okkur og spurðum hvort við mættum fara heim?  Mama-Fatíma kinkaði fálega kolli og við búkkuðum okkur pínu og svo heim á hótel í háttinn.

IMG_0313.jpg
Mama Fatíma

Næsti dagur var mikið chill.  Við kældum okkur aleinir við risastóru laugina okkar, kældum okkur einir í risa aldingarðinum okkar og fengum okkur smá kælandi boozt á hótelstrandbarnum okkar og horfðum á miðbaugssólarlagið saman – nó hómó.  Leti er kannski ekki dyggð en stressleysið hér á Lombok er svo yfirþyrmandi að Snoop Dogg myndi virka víraður eins og Speedy Gonzales í krakkfráhvörfum.  Þetta er sko akkúrat það sem læknirinn pantaði eftir ferðalag síðustu vikna.  Við núðluðum okkur og skelltum okkur svo í nokkuð stífa booztun.  Það má stundum þegar maður er svona svakalega kældur.  Við þræddum helminginn af börunum í bænum og kikkuðum því með eldhressum innfæddum sem þömbuðu melónusafa sem boozt vegna hinnar margumræddu þýðingarvillu í kóraninum.  Óli veðjaði meira að segja við inda um úrslit í vítaspyrnukeppni og hafði af greyinu 3-4 daga laun en samt bara hlátur og stuð.  Topp fólk.  Hápunktur kvöldsins var þegar við sungum Wind of change með Scorpions á ákaflega local kareokibar við mikla kátínu innfæddra sem klöppuðu óspart fyrir þessari túlkun okkar á sovétvinaballöðunni góðu.  Þegar kariokiebúllan lokaði ákváðum við að skella okkur í smá götumat hjá Mömmu Fatímu.  Básinn var stútfullur en Mamma Fatíma þekkti okkur frá því í gær og henti út einhverjum óþekktaranga til að koma hvítingjunum að. Við spurðum hvað væri í matinn og fengum götugrillaða dúfu.  Frábært og Baldi fór mikinn í samanburði á mömmu Fatímu og súpu-nasistanum úr Seinfeld þáttunum.  Mikið svakalegur kvennskörunugur er þetta og af hverju er hún ekki að stjórna BP núna ?  Það má alveg koma fram að dúfan var dálítið ógnvænleg komin á borðið en þeir skáru amk hausinn af. Mamma Fatíma fullvissaði okkur um að þetta væri góð innlend indadúfa en ekkert dúfudrasl eins og enskar dúfur eru samkvæmt henni.  Hún gaf okkur meira að segja skammt af sambalsósunni sinni sem er eins og að setja hundóðan sporðdreka upp í sig.  Við kvöddum mömmu Fatímu með virtum og uppskárum bros sem sennilegra sjaldgæfara en pólskipti á básnum hennar mömmu Fatímu.  Við liðum inn í draumalandið þar sem mamma Fatíma rúllaði yfir Svarthöfða í töffaraskap. Já, hún er
mikil !

Mamma Fatíma (syngist við My mama said með Lenny Kravitz)

Fatíma vill,
engar leyfar á disk,
Fatíma selur,
dúfur og fisk,
Fatíma veit,
hvað þig dreymir og þú villt,
Fatíma sér,
það sem hulið er þér,
Mamma Fatíma, Mamma Fatíma, Mamma Fatíma

ég sagði Mamma Fatíma

DSCF0389.jpg
Gone native

Næsti dagur var tekinn í enn frekara chill.  Þetta hótel er hreint stórkostlegt til chillunar.  Risastór aldingarður, eins og áður segir, og best er að það er eiginlega alveg mannlaust.  Engin gargandi börn við laugina heldur bara þögn, súpergott veður og meira að segja wifi við laugina.  Þarna bökuðum við okkur eins og jólagæsir og vökvuðum okkur eftir þörfum.  Þegar tók að kvölda fórum við á local internetbúllu og börðumst við tæknina til að segja heimasætunum frekar frá okkar ferðalögum.  Mikið erfitt og ljóst að þeir eru frekar aftarlega í UT málum hér á Lombok.  En hey, þeir kunna margt annað eins og að föndra öskubakka og skran.  Þetta var tveggja tíma frústrasjón á trabanttölvum sem voru með minna minni en símarnir okkar, sýktar eins og skólpræsisrottur og verst var að rafmagnið fór reglulega af og þá var bara sígópása meðan kveikt var á díselrafalinum.  En þessi búlla var sú eina á svæðinu sem átti prentara þó að þeir hafi sennilega kreist kolkrabba til að redda sér bleki sem var grunsamlega dökkgrænt.  Eftir þessa þolraun var stefnan tekin á Cafe Marina til að núðla okkur og horfa á leikinn. Eftir að holland hafið unnið og Óli var ör eins og ofvirkt barn í sælgætisdeildinni í Hagkaup, settist gaur hjá okkur og spurði hvort hann mætti vera memm.  Okkar maður heitir Jeff Olsen og er uppgjafa leikari frá Kanada sem flutti til Jakarta fyrir 10 árum og gerðist kennari.  Hann hafði tekið eftir barnslegri gleði Óla og ályktað að við værum Hollendingar sem ynnu hér í Lombok og langaði að kikka því með útlendingum. Við vorum mjög ánægðir með að hitta einhvern sem kynni á Jakarta en einróma samþykki virðist vera fyrir því í öllum ferðaheimildum að sú borg sé hreint helvíti.  Jeff reyndist stórfínn gaur og við sátum með honum og nokkrum spilafíkla indum yfir seinni leiknum og kjöftuðum til klukkan 5 um morguninn þegar leikurinn kláraðist loksins. Við kvöddum Jeff sem hoppaði á mótorhjól og brunaði burt en við ákváðum að fá okkur næturverð hjá mömmu Fatímu sem tók okkur opnum örmum og eldaði ayam (kjúkkling) og bebek (önd) fyrir okkur.  Klukkan var ansi margt og bara við og nokkrir leigubílstjórar á básnum svo mamma Fatíma gaf sér tíma til að spjalla aðeins við okkur.  Við hrósuðum staðnum í hástert og mamma Fatíma kinkaði kolli með velþóknun.  Við vorum kvaddir með handabandi og hefðum ekki geta orðið stoltari þótt Óli grís hefði gefið okkur poka af fálkaorðum í kaupbæti.  VIð röltum heim í aldingarðinn og það slokknaði á okkur eins og rafmagnslausri tölvu.

IMG_0289.jpg
Óli vingast við Kómódódreka

Við sváfum aðeins yfir okkur næsta dag en náðum smá hótelchilli. Við sundlaugina ákváðum við að það væri gaman að prófa að veiða hérna í Indlandshafi.  Við fórum því á stúfana í bæjarferð og eftir að díla við ótal skrítna brallara áttum við ferð daginn eftir.  Spennandi að veiða hérna á Lombok.  Allt morar í lífi á landi og sjórinn er örugglega fullur af furðuskepnum.  Þetta brall tók talsverðan tíma, eins og reyndar allt virðist gera hér, svo við vorum orðnir frekar hungraðir þegar ferðaskrifstofubrallinu lauk.  Við fórum því á flottasta veitingastað bæjarins, the square, sem er gríðarlega dos mille sjette tekk og stálhöll sæmandi hvaða bankaræfli sem er.  Þetta var klárlega besta máltíð ferðarinnar.  Við sátum sálir og sáttir eins og Dali Lama á ecstacy.  Mikið svakalega getur verið gott að borða.  Við vitum ekki alveg hvað við sátum lengi í mókinu en skyndilega var ró okkar raskað með miklu gargi út af öllum börunum á götunni. Ah, leikurinn byrjaður og strax komið mark.  Þýskaland var að spila við Argentínu. Von Blammo hafði líst yfir haldi-meði með Húnunum og Olinhio hefur haldið með Argentínu síðan hann var 10 ára.  Við vorum meira að segja búnir að veðja einum hrisgrjónahatti á milli okkar á leikinn.  Það var því ekkert annað en að taka á sig rögg og fara á Cafe Marina að glápa.  Við hringdum í Jeff sem var á leiðinni, hoppuðum upp í asnakerru og brunuðum eins og hófar leyfðu.  Þessu mátti ekki missa af.  Eftir leikinn var Óli óhuggandi. Hetjurnar hans höfðu verið teknar í bakaríið og hann hafði tapað 230 kr hrísgrjónahatti.  Óli bar sig ákaflega illa og til að auka á ámátlega ásjónu hans hóstaði hann stanslaust og saug upp í nefið.  Flugvallasígóið okkar hafði klárast í gær og innlent tóbak fór ekki vel í Óla að hans sögn.  Baldi hefur hinsvegar fullyrt að það sé ekkert að þessu tóbaki og finnst líklegra að  Óli hafi þróað ofnæmi fyrir eldfjallaeyjum en á Lombok er að finna næst stærsta eldfjall Indonesiu.  Ef rétt reynist þá er ljóst að Óli er ekki á leiðinni norður á neinn eldfjallabasaltklett í bráð.  Jeff kvaddi eftir leikinn en hann er í einhverju fasteignabralli hér á Lombok og þurfti að funda eitthvað daginn eftir.  VIð kvöddum hann og þökkuðum honum fyrir spjallið og allan Jakarta fróðleikinn.  Jeff hafði mælt með hóteli, börum og veitingastöðum sem sjálfsagt á eftir að vera ómetanlegt í þessari illarómuðu borg.  Við spiluðum snookah um stund og kíktum svo til mömmu Fatímu þótt við værum eiginlega ekkert svangir.  Það er örugglega fullt af fólki sem fer í mat til Obama án þess að vera svangt. Mamma Fatíma tók okkur eins og fjölskyldumeðlimum.  Hún hafði þó ennþá sitt valdsmannslega yfirbragð og næstum þrúgandi persónutöfra en var mjög skapmild í garð okkar útlendinganna.  Hún kynnti okkur fyrir manninum sínum og sagði að strákanir þeirra væru í eldhúsinu.  Við kvöddum hana að lokum og Óli hneigði sig meira að segja fyrir henni.  Indonesia væri sjálfsagt rísandi stórveldi ef þessi kjarnakona væri við stjórnvölinn.  Klúður hjá indunum en sennilega mikið lán fyrir Kína.   Við röltum sprengmettir heim á hótel, fengum okkur eina snúðsígó á veröndinni í aldingarðinum og svo í háttinn.

IMG_0388.jpg
Mama Fatíma og hennar krú

IMG_0348.jpg
Burung Dara ala Mama Fatíma!

Eftir morgunmat og smá sundsprett í aldingarðinum var veiðiferðin næst á dagskrá.  Við mættum í litla sveitta brallsjoppu og mállaus indi fylgdi okkur niður á strönd þar sem kaftein Apu beið okkar.  Báturinn hans Apu er af hefðbundinni Lombokgerð en Íslendingar myndu sennilega varla þora að sjósetja svona í laugardalslauginn, hvað þá úti á hávaðasjó.  En við ætlum ekki að vera að hengja okkur í eitthvað svona öryggis-iso bull svo Apu ýtti úr vör og brunaði eins og 10 hestafla yamahamótorinn leyfði út á miðin.  Á miðum kom í ljós að það var traditi
onal lombok fishing sem var í boði.  Handfæri með tveimur önglum, brjálaðir sviptistraumar og reglulegar siglingar milli veiðistaða vegna mikilla kóralrifa út um allt.  Þetta var þó hin besta skemmtun og Apu ljómaði eins og systur okkar í merkjatuskubúð í hvert skipti sem einhver setti í fisk.  Eftir fjóra tíma var komið nóg og Apu stímdi í land og setti okkur af á einkastöndinni á hótelinu okkar. Ansi kúl enterance fannst okkur. Við núðlum okkur stuttlega og tókum rólegt kvöld enda ferðlag framundan.

IMG_0399.jpg
Captain Apu

DSCF0375.jpg
Indlandshafslax

Við vöknuðum í trjákofanum okkar í aldingarðinum hressir eins og Sóley Tómasdóttir á kvennalandsleik.  Ferðadagur í dag.  Óli skellti sér í útisturtu í morgunsólinni og Baldi reykti snúðsígó á veröndinni á meðan. Ah, gott líf hér á Lombok.  Við tékkuðum út í tekklobbíinu og röltum svo um bæinn og spókuðum okkur aðeins fyrir flug.  Á röltinu keyptum við okkur hrísgrjónahatta sem jafnframt eru okkur fyrstu kaup sem ekki eru þjónustutengd.  Gott að eiga svona hrísgrjónahatt t.d. ef það er rigning.  Smá núðl, sólbað og chill og svo í flugvélina.  Það má koma fram að flugvöllurinn hér í Lombok er ljómandi í alla staði. Enginn Súvarnabhumi en topp flugvöllur engu að síður.  Við vorum eiginlega hálfspældir að skilja við þessa dásamlegu paradís og horfðum klökkir út úm flugvélagluggan á eyjaparadísina fjarlægjast.  Tveim tímum síðar tilkynnti indakafteinninn að við værum að fara að lenda í Jakarta.  Við litum aftur út um gluggan og sáum fyrir neðan okkur endalausa gráa steinsteypubreiðu. Eldar virtust loga víða og þykk gul mengunarslykja lág yfir steinsteypufrumskóginum fyrir neðan okkar. Æ, fokk.

DSCF0395.jpg
Enginn Súvarnabúmí, en ágætur samt

IMG_0422.JPG
Í staðinn fyrir öryggisbelti fylgdi þetta bænaspjald

Leave a Reply