Rokk í Rúmeníu
Rokk í Rúmeníu

Rokk í Rúmeníu

(Sungið við lag Rokk í Reykjavík)

Ó Búkarest ó Búkarest þú yndislega borg,
með sígauna betlara og risavaxin torg,
ó Búkarest og Búkarest með einræðisherrana,
með spilavíti portkonur og götuperrana,
BÚKAREST … BÚKAREST … BÚKAREST …

Re-exposure of Resize of IMG_0224.jpg

Lestarferðin frá Varna var hreint helvíti. Við fengum miða í troðfulla lest og þurftum meira að segja að yfirborga þessa ömurlegu vist. Klefinn var iðandi af pöddum og minnti helst á senu úr Indiana Jones mynd. Í svefnrofunum stóð Óli risakakkalakka að því að skríða upp skálmina á stuttbuxunum hans í leit að rökum og dimmum stað. Eftir morðið var Óli taugaveiklaður eins og Múgabe á KKK fundi í Kansas og hóf 3ja tíma hysterískt skordýraslátur í bandalagi við Þjóðverja og Pólverja sem deildu með okkur klefa.
Þegar við loksins stigum útúr lestinni í Búkarest klukkan 4 um morgun beið okkar nokkuð vandasamt verk. Hlaðnir vestrænu góssi á einni alræmdustu lestarstöð Evrópu þurftum við að komast í menningu án árekstra við mannránsleigubíla, þjófa og fjölhæfa sígauna. Við biðum því eftir að neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar yrði ræst meðan við reyndum að bægja hættum frá með okkar ískaldasta Eastwood augnaráði og vel tímasettum urrum. Geislandi af okkar íslensku gettógrimmd gugnuðu glæpamennirnir og við komumst klakklaust niðri bæ bara til að komast að því að öll hótel voru fullbókuð. Tveim tímum síðar, hálfkjökrandi með tárvot Eastwood-augun og tuttugu kíló á bakinu bitum við bara í okkar súra miðstéttarepli og drógum upp VISA kortin. Hér í Rúmeríu, líkt og annarsstaðar , er enginn múr það hár að asni klifjaður gulli komist ekki yfir hann. Við stóðum því að lokum í glæsisvítu við rúmenska ríkistorgið og útkeyrðir eftir þessa “For a Fistfull of Euros” reynslu okkar liðum við útaf.
IMG_0223.jpg

Næsti dagur var eins og grískur harmleikur. Baldi vaknaði við frekjulegt gólið í Nokia símanum sínum og á hinum endanum var Securitae Seltjarnanescu. Valdmannsleg og yfirveguðu rödd tilkynnti vélrænt að sambýlisköttur Balda hefði borið lægri hlut í hildarleik við einhvern drullusokkinn sem var að flýta sér í vinnuna á alltof stórum bíl. Baldi var óhuggandi. Óteljandi hugljúfar stundir og einlæg augnarblik flökktu fyrir augum hans en grimma staðreynd stóð að Imelda var látin, kramin til bana í blóma lífs síns. Enn eitt pungsparkið frá þessum óréttláta heimi. Eftir þöglan dag af sorg leituðum við huggunar hjá bandamönnum okkar Bakkusi og Allah.
Sitjandi íhuglir á Club Hell sótti skáldagyðjan óvænt okkur heim:
Kattartorrek (Syngist við lagið Stál og Hnífur)
Þegar ég vaknaði í sófanum,
er Dallurinn kom inn,
hárið úfið og skeggið ljótt,
lyktandi eins og kassinn minn.
Húsbóndinn horfinn skálin tóm,
í nótt mun ég deyja,
feig fór ég fimlega út um nótt,
úr loppunum að teyja.
Ef ég verð roadkill,
roadkill í nótt,
ef þeir mig af-skinna,
þú getur komið og mig sótt,
til lögreglunarinnar.
Bárugrandi er kribbið mitt,
heimur 9 lífa minna,
Baldi er fullur í Búkarest,
og róni er mér að sinna.
Breimandi bálvond á ströndinni,
sóttu hugsanir á mig,
er pabbi kominn að faðma mig,
og hættur að hugsa um sig.
Yfir götu,
yfir ég óð,
pabba til að hitta,
Cherokee jeppi á mér tróð,
mitt 9unda líf að stytta.
Stál og gúmmí varð dauði minn,
ég síðasta lífið missti,
í dauðteygnum með blóðugum klóm,
FREEDOM á húddið risti!.

imelda.jpg
Imelda 2001-2004

Af Club Hell fórum við að ráði Balda á Twice Club sem Rúmenska útgáfan af Coyote Ugly. Á leiðnni sá Óli kakkalakka og skilyrtur eins og hundur Pavlov eftir lestarferðina sá hann rautt og hóf að reyna að senda kvikindið til pödduparadísar. Þar sem Óli stóð í sínum riverdance tilþrifum tók ung sígaunastúlka að æpa og rétt um það bil sem Óli kramdi kvikindið áttuðum við okkur á að hún var að kalla á gæludýrið sitt. ” Davíð ! Daaaavíið !!!”. Hálf skömmustulegir eftir að hafa myrt heimiliskakkalakka þessarar skítugu ungu dömu, drifum við okkur í burtu fullir af samviskubiti vegna samsvörunar við missi stúlkunnar og nýafstaðins gæludýramorðs Imeldu hans Balda.
Þegar loksins komið var á hinn rómaða Twice Club var Bakkus farinn að vera verri og verri vinur og að hans tilstuðlan ráfuðum við inn í VIP herbergið á þessum tjúttaða stað.
Við vorum strax beðnir um að fara af glæpalegum, horuðum gæja, í köflóttum bol en mölduðum í móinn og þegar þjóðerni okkar varð kunngjört vorum skyndilega við þeygjandi samþykkir. Þetta aflokaða athvarf var nokkuð sérstakt. Opnar lítraflöskur af allskonar áfengi stóðu á öllum borðum. Herbergið var fullt af grunsamlega fáklæddum stelpum og þar sem sátum í rauðu leðursófasettinu reikaði sveittur, feitur kall sem var ber að ofan upp á svið og tók að dansa við súlu. Við vorum staddir í Rúmensku mafíupartíi ! Búttaði hálfberi súludansarinn var kóngurinn hér! Það sem ótrúlegast var var að við vorum gjörsamlega samþykktir þarna inn þar sem sveitti greifinn hafði ókeiað okkur. Okkur var sagt að fá okkur að drekka og spurðir hvort við vildum ljóshærðar, rauðhærðar, dökkhærðar eða svartar stelpur. Uppfullir af íslenskri hógværð afþökkuð við pent og bentum á að við værum með bjór. Við áttuðum okkur á því að hér þyrfti edikett svo við létum fara lítið fyrir okkur kurteislega lengi áður en við kölluðum þetta kvöld og kvöddum.
IMG_0219.jpg

Rúmenskt rokk Á barnum!

Eftir erfidrykkju Imeldu var taugakerfið í nokkrum lamasessi. Við tókum því bara daginn í að skoða afleiðingar hins gengdarlausa steypufyllerís Ceucescau.
IMG_0221.jpg
Stórt já… en 17 hæðir niður líka!!

Eftir að hafa troðið okkur út af eðal ítölskum mat á Cafe Ólé fórum við aftur að hugsa um grimm örlög Imeldu og fljótlega sátum við yfir bjór að horfa á samræmdar dýfingar kvenna sem fram fóru í Aþenu. Þar sem sú íþrótt snýst um að skvetta sem minnst voru þessar fremstu dýfingakonur mannkyns hryllilega karlmannlega vaxnar, rassinn flatur eins og dönsk náttúra og brjóstin eins og Himmelbjerget í stíl. Ræðandi mikilvægi þess að halda gagnkynhneigð okkar gagnvart þessari afskræmingu kvennlegra fegurðargilda vöktum við áhuga bandarísks kvikmyndagerðarkrús sem sagðist vera hér að skjóta “A period piece about Dracula”. Nokkrum bjórum síðar kom þó sannleikurinn í ljós. Þau voru að mynda milliatriði fyrir tölvuleikinn Blood 3 sem er væntanlegur um jólin. Aðalleikararnir Sebastian og Emanuell reyndust óþolandi prímadonnur en leikmyndargaurinn og annar aðstoðaleikstjórinn voru háðufuglar mestu og við ræddum við þá um bíómyndir og menningarmál fram á morgun.
IMG_0226.jpg
Menningarumræður…

Morguninn eftir var í boði Bakkusar. Við höfðum tekið of mikið í einu útúr Gleðibankanum og nú var það eitt til ráðs að bíta á jaxlinn og færa okkur um set. Yfir umræðu um hvert skyldi næst haldið ljómast Óli, þvert á ríkjandi hugafar og andlegt atgerfi, upp og hrópað æstur ” Til Belgrad, til Belgrad !”. Við bókuðum því lest til þessa fyrrum vígvallar Júgóslavneskrar þjóðernishyggju og það á lúxus-pöddulausu farrými í þetta skiptið.
Lifaðir en sáttir við rokkið í Rúmeníu stigum við uppí schlafwagen svítuna okkar og der Schlafwagenmeister bauð okkur góða nótt. Búkarest, öskubakki austur, Evrópu hafði vissulega reynst okkur frábær leikvangur til að spila úr sálarflækjum okkar tengdum ósfífnum kattarmorðum. Máttarfarnir en sáttir og með sjálfið í lagi skyldi nú haldið til Belgrad og sjá hvort þessi mannauðsruslahaugur Evrópu ber nafn með rentu.
Resize of IMG_0227.jpg
Þú leggur ekki inn í gleðibankann tómann plús!

2 Comments

  1. Snorrk

    Samhryggist með Imeldu, biðst afsökunar á að hafa haldið að dallurinn væri að djóka…. fallegur óður til Ímeldu.. :)
    Snilldar blogg, toppuðuð sjálfa ykkur. grunsamlega mikið ritskoðað ha hmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmm :) :)
    varð bara að segja þetta

Leave a Reply