And now for something completely different
And now for something completely different

And now for something completely different

IMG_1580.jpg
Lykt myndast ekki.

Til Baku á bæn (syngist við lagið Living on a prayer með Bon Jovi)

Bakú bússinn lentur hér er,
Loftið er ógeð og visa gaurinn er svo þver,
Svo þver.
Við vonum að allt fari vel,
en við erum visa lausir menn með kvíðakast í hel,
í hel.
En landamæralöggan vill oss vel,
hann veit við brennum dollar eins og velsmurð vél,
hann stimplar oss inn og við tekur tollahél,
við sloppnir erum héééér!

Baaaakú ég kominn er,
Bakúúúúú ég aldrei aftur fer,
föllum á kné því Mummi er hér
Baaaakúúú ég aldrei aftur fer.

Þar sem við stóðum fyrir utan aðkommumannaþröskuldinn í Bakú dreif að okkur leigubílstjórum eins mý á mykju.  Við samþykktum að lokum eldhressan hormottugaur, skelltum töskunum í Sovíetkaggann og brunuðum í bæinn.  Það var ekki laust við að ákveðin skelfing gripi um sig hjá okkur Sovíettöffurunum þegar Bakú börðu á retínunni.  Þvílíkur gengdarlaus ljótleiki!  Ég meina Grafarholtið er ljótt en Bakú er svakalega miklu ljótara.  Yfir khakibrúnni hreisabreiðunni liggur hnausþykkt skítafíluský af hreinni mengun og ærandi “brunnið gúmmí” fnykur tryllir skilningarvitin. Við vissum fyrirfram að þetta væri skítugasta borg í heimi en þetta er svo fáránlega svakalegt að hlýtur að vera með vilja gert.  Ghettomyndir á borð við City of God flugu upp í hugann en jafnvel sjúskuð braselísk úthverfi eru nú bara eins og Ramblan eða Champs elyssies við hliðina á Baku.  Svona gerir maður ekki!  Við ræddum að það væri sneddí að gefa götumyndarsérfræðingin Ólaf F í þróunaraðstoð frá Íslandi, hann mætti jafnvel borga flugmiðan sjálfur.

IMG_1540.jpg

Við rotuðumst með snari þegar við vorum búnir að tékka inn.  Erfitt ferðalag.  En þegar meðvitund var náð rukum við út, með tilhlökkun sannra Sovíetvina, að berja mannlífið augum.  Baku er ekki grín.  Loftslagið er til að æra óstöðugan, 100% raki, 40 stiga hiti, ekkert ózónlag og maður svitnar svörtu – svona eins og maskari rennur stundum af mikið bónuðum partýskinkum í rigningu.  En fleira skal en gott þykir.  Í þessu skítaskýi býr vel múslímsk þjóð með rammkommaðann bakgrunn, akkúrat fyrir okkur.

Við spókuðum okkur yfir daginn og eftir stutta bónun kíktum við á mannlífið sem var furðulega hresst miðað við af þeir fara eftir Kóraninum í lífi og leik.  Við höfum lengi haldið því fram að eyðimerkurkaupmaðurinn Mummi hafi ekkert haft á móti köldum bjór og svo virðist sem Azerar hafi komist í frumtextann.  Uppstrílaðar Azeraskvísur ráfa um á torgunum slæðulausar í sínum skjólminnstu flíkum meðan að kallarnir sötra bjór.  En ekkert beikon, þá bara vítiseldar fyrir þig vinur minn.  Við börðum ógnarmengaðar strendur Kaspíahafsins augum og sáum í fjarska fyrsta olíuborpall heimsins sem einnig er þjóðarstolt Azera.  Sveittir og þreyttir ákváðum við að fá okkur bjór eftir könnunarleiðangurinn.  Það er að vísu dálítið óþægilegt að næstum allir barirnir eru niðurgrafnir en allstaðar blasa þó við evrópskir fánar og barirnir eru þéttskipaðir útlendingum, mestmegnis Skotum af ókunnum ástæðum.

IMG_1554.jpg
Ballskák í Eldlandi

Í þessum mikla olíukamri fundum við mikla vin í eyðimörkinni.  Besti bar í heimi er nefnilega í Bakú.  Rússneska ölmusterið Madonna Pub kom okkur gjörsamlega á óvart með frábærleika sínum.  Barstelpurnar spiluðu við okkur gestaþrautir og indverska teboðsleiki (Jinga) meðan þær skenktu okkur dýrindis verkamannavodka við undirleik ljúfra þungarokksdruna.  Þær Ivanka, Sabrina og Irena urðu miklir vinir okkar en það varð eiginlega allt of gaman svo Bakkus gaf okkur rautt spjald.  Við kvöddum Rússana með virtum lofuðum að koma aftur og stauluðumst inn á hótel.  Saman höfum við félagarnir heimsótt marga bari en Madonna Pub í Bakú fær stórriddarakrossinn og er klárlega langbesti bar sem við höfum stigið fæti á.

IMG_1570.jpg
Jingagripið myndað eftir sigur Íslands

Gleði gærdagsins var ekki ókeypis.  Það verður jú að vera jafnvægi á lífsgleðinni og við höfðu steypt okkur út í nokkra stuðskuldavafninga í gær.  Við skoðuðum gamla bæinn í Bakú sem er eldgamall.  Það voru menn við bænir og þessháttar fínerí.  Ljómandi gott að hlusta aðeins á Mumma.  Í gamla bænum snæddum við svo þrumu þjóðlegan Azerskan mat sem var í raun bara ofeldað kjöt en fínt því vorum frekar stressaðir með matinn.  Azerar eru kannski ágætt fólk en þeir eru ekki hreinlegir og sérstaklega má nefna að klósettaðstaða er þannig að íslenskir útigangsmenn myndu líklega frekar gera í sig en að freista gæfunnar á azerskum lúðrum, kannski þekkti höfundur Trainspotting til Bakú.

IMG_1561.jpg
“Kosningar”

Azerar eru satt að segja áhugaverður hópur.  Flestir virðast vinna við það að standa í reiðuleysi á götuhornum, fikta í símanum sínum og stundum leggja bílnum sínum aðeins betur.  Annað mjög sérstakt er landlæg pýrómanía.  Azerbaijan þýðir víst eldland og ekki er annað að sjá en að þjóðin hafi unnið rækilega fyrir nafnagiftinni.  Þeir eru heppnir að eiga svona mikla olíu en þegar þeir komast ekki í hana slá þeir á geðveikina með keðjureykingum og íkveikju á dekkjum og öðru rusli.  Ef bresku olíufyrirtækin væru ekki þarna að stela olíunni væri sennilega bara stanslaus bálköstur sem þjóðin stigi trylltan dans í kringum.

Við drápum tíman í rólegheitum og skoðuðum rússneska steypu.  Azerar eiga líka steypu, í úthverfum, en byggingarlist og brennuvargar fara illa saman.  Azerski hlutinn er því tilkomulítill jafnvel á Gaza mælikvarða.  Við kíktum aftur á Madonnu Pub og spiluðum Jinga í bróðerni með Rússavinkonum okkar sem tóku okkur eins og skyldmennum endurheimtum úr Gúlaginu.  Spil, Vodki og rússneskunám en snemma heim í hótel.

IMG_1604.jpg

Síðasti dagurinn í Bakú var tærasta geðveiki.  Síminn spangólaði klukkan 6 um morgun til að minna okkur á að nú væri tími til að færa sig um set og halda til Kiev í Úkraínu.  Stuttu síðar stóðum við fyrir framan úrillan hormottuhótelgæjann sem þrumaði í okkur snarvitlausum reikning og heimtaði hann í reiðufé eða 18% bónus ef
hann þyrfti að strauja kort.  Við prúttuðum og hörkuðum en neyddumst til að borga eina aukanótt á afslætti en í reiðufé.  Hótelgaurinn “reddaði” okkur svo leigubílstjóra til að skutla okkur út á völl.

Habib, slátrarinn frá Bakú, er horaður Arabi glákusjúkur og talar ekki orð í ensku.  Líkamsburðurinn minnir á slánalegan órangútan og verkfæri hans er Lada 1600 árgerð 1981.  Þvílíkur dómsdags urrandi síkópati!!!  40 kílómetra leiðin út á flugvöll var eins og í tölvuleiknum Carmageddon.  Við vorum við dauðans dyr í hverri beygju.  Habib virtist varla með meðvitund þar sem hann fór í chicken við rútu á 150, kveikti sér í sígó þar sem hann brunaði fyrir blindbeygju á vitlausum vegahelmingi og Ladan sleikti rassinn á ótal saklausum hraðbrautarsópurum.  Í tvígang nauðhemlaði hann til þess að geta skellt sér inn í bílalest og Ladan nötraði og veinaði þegar hún reyndi að halda í við Benzana.   Rauð ljós stoppa ekki Slátrarann frá Bakú og gangandi vegfarendur eru honum bara Lödufóður.  Fyrst reyndum við að halda kúlinu en voru fljótlega farnir að veina af skelfingu í aftursætunum.  Við ræddum að reyna að stoppa kvikindið og aflima af honum bensínfótinn.  En Habib, honum var svo sléttsama um allt svo framarlega að aldrei var bíll fyrir framan hann sem hægt var að taka framúr.  En Allah sá sér þóknanlegt að láta okkur og Slátrarann nema í hlað á flugvellinum.  Viti menn, Habib umlaði bara eitthvað á arabísku, tók í hendina á okkur og reykspólaði í burtu í leit að bráð.  Bláa Ladan hans Habib er sko hættulegri en nokkur arabísk Scud flaug.

IMG_1560.jpg

Löduflotinn við musterið

En geðbilunin endaði ekki hér.  Azerar eru álíka góðir í flugvallaskipulagi og þeir eru í náttúruvernd.  Allstaðar er röð og æstir menn rjúka á milli bása með handfylli af pappír, svona eins og í Wallstreet kauphöllinni, nema vopnaðir verðir stjórna kaosinu með harðri hendi.  Þrem vopnaleitum, tveim töskuskönnunum, ótal biðröðum og einhverskonar segulómskoðun síðar voru við að sleppa út í flugvél en þá brotnaði hurðin út í flugið.  Nú, þá þurfti að hringja niðreftir því að laga hurð er ekki hluti af hefðbundnu frumkvæði starfsmanna.  Frekar bara góla og kenna um.  En það var svo miklu meiri geðveiki þegar komið var inn í flugvélina.  Skipulag var í algjörum ólestri og hlutir eins og sætisnúmer skyldust engan veginn.  “Þú ert ekki með sama númer og ég?  Hringjum niðreftir!”.  Einhverntíman komumst við þó í loftið og við tók ákaflega sérstök flugferð.  Boðið var upp á svart-hvíta azerska söngvamynd í Bollýwood stíl frá fjórða áratugnum.  Við skírðum hana South Caspean Sea.  Maturinn var hakkað lamb og til að espa liðið ennfrekar var bara boðið upp á vodka og djús, og þá svona mjólkurglas af vodka.  Niðurstaðan af þessari æsilegu bíómynd og vodkaflóðinu var að azerskir rassar iðuðu ennfrekar og flugvélin mynnti meira á gripaflutninga en fólksflutninga.  Öll illska tekur jú enda en hjá okkur var það þó ekki alveg strax.  Hápunkti klikkunarinnar var náð í landamæraeftirlitspartýinu í boði úkraínska utanríkisráðuneytisins.  Azerarnir mynduðu æsta þvögu eins og skot en við reyndum að halda kúlinu.  Maður stendur ekki einn í röð sem Azeri heldur sniglast milli raða.  Eftir klukkutíma kom að okkur en þá kom í ljós að við höfðum ekki fyllt inn reit á innflutningsspjaldinu okkar og því var okkur synjað með látum.  Við hringdum niðreftir, lærðum að gera þetta rétt og eftir einn og hálfan klukkutíma í biðröð í viðbót skriðum við inn í Úkraínu.

Bakú ferðin hefur verið gríðarleg lífsreynsla.  Gjörsamlega frábrugðið öllu öðru sem við höfum séð.  Hálfstrípaðar slæðulausar stelpur og bjórþambandi múslimskir kallar í sótsvörtu mengunarskýi.  Já þetta var sko öðruvísi.  Við viljum þó benda á að ef Saving Iceland er einhver alvara í umhverfisvernd þá eru þeir á kolröngum stað.  Tjaldbúðir á Hellisheiði til að mótmæla mengun er auðvitað bara bull þegar maður sér verkefnið í Bakú.  Getur ekki Geysir Green eða einhver komið þessum hugsjónamussum á stað þar sem er nóg að gera við að hlekkja sig við drasl og þannig.  Bakú er sko málið fyrir þau en við ætlum að tjilla aðeins í Kiev núna.

IMG_1613.jpg

Mætti tjalda þarna!

4 Comments

  1. Ása

    já kokteilar á Spáni hljóma talsvert betur en skítugur bjór í Baku :)
    Skemmtið ykkur vel í Úkraínu, bið að heilsa Ruslönu!

  2. Jón

    Haha snilld. Held ég gæti þetta ekki hreinlega, mundi stökkva fyrir lödu Bakúslátrarans ef ég þyrfti að standa í svona stappi.

Leave a Reply