Beer and clothing in Las Vegas
Beer and clothing in Las Vegas

Beer and clothing in Las Vegas

IMG_0080
Það er skemmst frá því að segja að ferðalagið til Nýja heimsins gekk prýðilega. Flugleiðir skiluðu okkur eins og um var samið til New York og í flasið á íbyggnum landamæravörðum. Hér í landi hinna huguðu og frjálsu vilja jú allir búa svo það er kannski ekki skrýtið að manni sé ekki treyst til að hafa sig örugglega á brott. Eftir stutta yfirheyrslur, fingafara- og myndatöku varð úr að við mættum koma í heimsókn að skoða land og þjóð og með þennan gæðastimpil örkuðum við inní Bandaríkin.
En ferðalaginu var ekki lokið. Við höfðum samið við JetBlue að ferja okkur til Vegas og eftir nokkuð stapp og þolinmæðisáreynsluríka raðamenningu komumst við í vélina og 6 tíma flughamingja tók við. Það var auðvitað ekki annað hægt en að bera saman Flugleiðir og JetBlue. Við ræddum málin og niðurstaðan varð að JetBlue væri svo mikið æðra íslenska ígildi sínu að varla væri heiðarlegt að kalla þetta bæði flugfélög. JetBlue er nefninlega skipað eldhressu stuðstarfsliði sem reitti af sér brandarana í takt við að uppfylla allar hugsanlegar hvatir kúnnanna. Miðað við kafmeikaðar Hawain tropic drottningarnar sem skipa flugfreyjudeild Flugleiða eru eiturhressir JetBlue starfsmennirnir miklu þjónustuvænni auk þess að hafa örðu af sannfæringakrafti í starfinu. Það að ráða starfmenn sína eftir viðmiðum sem frekar ættu við ef staðið væri í skipulögðu vændi er auðvitað foráttu heimskulegt. En það sem gerði gjörsamlega upp á milli var ekki mannauðsgjaldþrot Flugleiða- ónei – JetBlue bauð nefninlega upp á 36 sjónvarpsstöðvar fyrir hvern og einn neytanda. Þetta var himneskt!. Flugleiðir höfðu boðið okkur uppá mynd um mann sem varð að hundi, vingaðist við apa og bjargaði hjónabandinuíhundshaminum en JetBlue splæsti sjónvarpsneyslupakka af svo miklu örlæti að maður þurfti að passa sig að fá bara ekki eitrun.

IMG_0066
Þetta er plast

  
Þegar komið var til Vegas kom í ljós að við voru þeir einu sem voru með einhvern farangur því innfæddir ruku bara beint í spilavítin. Við fórum okkur í engu hratt enda búnir að vera á ferðinni í 17 klukkutíma. En þegar við rúlluðum í átt að risavöxnum Mammónsmusturum Las Vegas varð ljóst að við höfðum verið gríðarlega skynsamir í hótelvali. Við fengum hreinlega gæsahúð þegar við börðum tröllvaxinn Lúxor píramítann okkar augum. Efst á mónólítanum er svo auga Ra, 350.000 vatta pera, sem lýsir upp himinni og gefur staðnum mikinn Stargate fíling. Já hér myndum við hafa bækistöð með á Vegasdvölinni stæði. Okkur brá hinsvegar illilega þegar í ljós kom að pöntunin okkar hafði einhvað klikkað. En þegar hótelstarfsmaðurinn sá glampa á gullsleigin vísakortin í höndunum á tómeygðum útlendingum (við vorum búinir að vaka í 26 tíma) breyttist pöntunin skyndilega og okkur var stungið í glæsisvítu í staðinn í boði mannvinanna hjá Lúxor. Já þetta reyndist hið mesta happ og þegar við hrintum upp hurðinni lyftst svefndrukkin bráin. Hórus svítan er nefninlega 160 fm gullslegið glæsigrafhýsi sæmandi hvaða tjútt Faró sem er. Við vorum loksins komnir á upphafsreit og með vasana troðna af grænum páfum í Xanadu kapítalismans liðum við inní draumalandið þar sem Móses reyndi að lokka okkur burt frá Gullkálfistan og útí eyðimörkina.
Eldhressir óðum við útí steikjandi eyðimerkursólina í morgun bítið. Hér er bara einn dagur til stefnu þvi mikilvægt að við græjum okkur fyrir komandi menningarferð. Við röltum því af stað til að taka pleisið svoldið út áður en gengið yrði til vísindastarfa um kvöldið.

IMG_0050
Hórusarsvítan

  
Las Vegas er nokkuð yfirþyrmandi borg. Hér skýtur saman ýmsum menningarheimum og að öllu jöfnu í sinni stereotýpískustu mynd. Þarna milli Frelsisstytta, Effell turna og ýktra steinsteypumónólíta líða svo skarar af lítt klæddum miðstéttarkönum. Við ákváðum að blandast rækilega hópunum og meðan við runnum með ferðamannahjörðinni frá hóteli til hótels ræddum við menningarlegar hliðstæður við Vegas upplevelseð. Okkur fannst Las Vegas menningin satt að segja minni okkur á Egyptaland til forna. Hér er hver viljug eyðsluklóin krýnd til Farós með gullkortinu sínu. Kringum gleðireitinn liggja svo akrar af úthverfum til að hýsa þjónustuþrælamassan sem heldur gleðinni gangandi. Var þetta ekki svona fyrirkomulag í Lúxor fyrir 5000 árum??? Kannski er geimpíramítinn okkar kaldhæðnigrín einhvers moldríks vegasmógúlsins? Á milli neyslupíramítanna liðast svo Las Vegas Búllevard eins og lífsuppsprettan Níl og niður malbiksnílina liðum við ísmennirnir í draumkenndiri neysluvímu.
Það er skemmst að segja frá að drekkhlaðnir af góssi komum við aftur í Hórussvítuna. Okkur hafði verið ráðlagt að kaupa hatta og annan nauðsynjafatnað fyrr eyðimerkurreisur. Meðan við mátuðum höfuðfötin fórum við að undirbúa kvöldið – því Vegas eru jú fyrst og fremst næturborg og ef við ætlum að finna bandaríska drauminn hér myndi það vera að næturlagi. Við skelltum því í okkur menningarsmurolíu, bónuðum okkur lítlega og fórum svo rakleitt út á lífið. Eftir rækilega menningarúttekt á Vegaslífstílnum varð einróma niðurstaða okkar að Vegas væri eiginlega svona „one trick pony“. Það er eiginlega ekkert að gera hérna annað en að gambla og allt annað sem í boði er virðist hannað til að koma þér í einhvern fjárhættuleik. Vissulega náðum við að rússibanast, láta nudda okkur á súrefnisbar og hakka í okkur humar og meirar steikur – en hérna er ekki bandaríski draumurinn. Ónei – þetta er bara allt í plati hér í Vegas. Þegar meðvitund var náð eftir menningarstörf síðustu nætur var því tekið til óspilltra málanna að græja brotför. Þegar búið var semja um bílamál við góðmennin hjá Dollar bílaleigunni, og skíra silfraðan blæjukaggann okkar Sævar, var ekkert annað en fara og það með snari. Hér við malbiksníl hafa menningarfrömuðir á borði við okkur ekkert erindi svo við „put the pedal to the metal“ og brenndum í reykskýi inní Mojave eyðimörkina. Það var þrumustormur í aðsigi og eldingarglæringarnar ýktu enn frekar dramatískar auðnir Nevada. Nú skyldi haldið í Sólskinsfylkið Calforniu og þangað liggur beinn og breiður vegur…..

 

IMG_0087
Sævar

2 Comments

  1. Snorri

    Fín lesning, vonsvikinn að þið fóruð ekkert að gambla :) en svona er ég bara. – væri gaman að sjá fleiri myndir ! :)

Leave a Reply