Sofia
Sofia

Sofia

DSCF0244.JPG

Jæja flottasta lestarstöðin so far, þrifaleg og falleg. Byrjuðum bara á að fá okkur kaffi og djús og hringdum í nokkur hostel. Við spurðum um Sofiu-hostel í Búkarest og þau réttu okkur nokkra bæklinga, það eina sem kom til greina var Hostel Mostel – NonStop Internet, en ekki hvað!. Tókum leigubíl þangað og hann rændi okkur ekki en það má alltaf gera ráð fyrir því af þessum leppalúðum sem hanga á lestarstöðum. Af einhverjum undarlegum ástæðum eru *aldrei* hraðbankar á lestarstöðum, bara gambio-wechslen búllur sem stiffa mann blindann, en maður lætur sig hafa það.
Við vorum á ferðinni eldsnemma um morguninn og fengum strax 2 rúm í herbergi með 6. Mr. og Mrs. Mostel reka þetta og voru að leggja á borð stórglæsilegan morgunmat og við fengum að slafra. Þetta var í þónokkuð hærri klassa en fyrri hostel t.d. læstir skápar fyrir alla. Okkur leyst samt ekkert á fólkið sem var þarna t.d. breskt par sem var líka í Búkarest, þau voru frekar dull, þeim fannst Rúmenía t.d. hundleiðinleg og voru að gera sig tilbún að fara frá Búlgaríu líka, því hún var líka leiðinleg, bara wankers. Öll kort voru búinn á hostelinu þ.a. við fórum bara blint í bæinn og löbbuðum í 4-5 tíma, fengum svo kort seinna um daginn og Mr. Mostel krassaði með bleikum highlight útum allt það sem var skylda að skoða, en við vorum einhvernveginn búnir að sjá það allt, kortlausir! vanir menn :) Hann herra Mostel átti undarlegt áhugamál, hann var forfallinn aðdáandi íslensku torfærunnar og sagði okkur frá því að hann horfði á hana á eurosport. Þetta er svo andskoti lítill heimur, bara rugl.

DSCF0245.JPG

DSCF0246.JPG

Dscf0248.jpg

Á leiðinni heim eftir morgungönguna rákum við augun í kínverskan stað og ákváðum að kínskt væri í kvöldmat. Mættum svo eftir síðdegisblund, staðurinn var tómur og við setjumst. Þá rekum við augun í skilti fyrir utan gluggann af lostafullu kvendi, hmm. Þjónustugellan klúðraði pöntunni algjörlega, gleymdi 2 réttum og hrísgrjónum, tók ekki matinn af borðinu þ.a. þegar við t.d. báðum um ís og kaffi, var bara einhver diskahrúga á borðinu og ekkert pláss. Svo skreppur Snorrman á klósettið þá er VIP herbergi við hliðina á WC… ok þetta er auðvitað hóruhús! það var líka einhver grunsamlega dýr kjúklingaréttur neðst á matseðlinum, jæja ágætur matur svosem og glyðrulegar gengilbeinur sem líklega þjóna kúnnum sínum á allaveganna, smám saman komu nokkrir kúnnar og þeir voru allir karlmenn, við forðuðum okkur þaðan eftir síðasta réttinn.

DSCF0251.JPG

DSCF0250.JPG

Glæsileg borg og aldrei séð eins mikið af búðum þetta er svona ströget x30 það eru bara búðir útum allt, fundum risastóran útimarkað, grænmeti og ávextir öðru meginn og falsað merkjagóss hinum meginn. Snorra vantaði peysu því uppáhaldstreyjan varð eftir í Rúmeníu, einhver stal úr þvottaherberginu. Hmm ég gleymdi líka skóm og handklæði í Rúmeníu, við vorum líklega nokkuð utan við okkur, heiladingullinn var ekki dinglandi at checkout time. Allavega þá sér Snorri þessa fínu Armani peysu, ætlar að brútta pakkið niður en básafólkið var alveg fullkomlega mállaust, bullaði bara búllara við okkur og Snorri endaði á að borga 10 evrur sem er rán. En hey! þetta gat verið alvöru Armani, rússneska mafían rændi kannski vörubíl eða eitthvað?. Það kom svo í ljós síðar að þessi blessaða peysa entist c.a. 4 daga, fór í þvott í Króatíu og minnkaði um helming :) Hún var *samt* notuð og þegar eigandinn reyndi að toga niður ermarnar sem voru komnar upp á olnboga, þá rifnaði bara ruslið og er líkleg gólftuska í dag.
Kynntumst örlítið breta á Hostel Mostel Nonstop Internet, hann var búin að vera bakbokaberi í 3 fokking ár, fór til Asíu fyrst og kenndi börnum ensku í Kína í 2-3 vikur, fékk borgað svo mikið að hann gat flakkað um í 3-4 mánuði fyrir launin, svo bara vinna aftur 2-3 vikur. Hann sagði okkur m.a. frá helli í Laos þar sem þúsundir dóu þegar bandarískum sprengjuflugvélum í Víetnamstríð var skipað að koma alltaf sprengjulausir til lendingar. Fólk hafði flúið í hellinn vegna loftárásaviðvarana og usa bombuðu þangað til hann hrundi, bara til að tæma sprengjuhólf? vei , c.a. 2000 dóu.
Snorri fékk einhvern kvebba í nebbann í Sofiu og var hálfónýtur í þessa 2 daga, við reyndum ýmislegt og fórum í Apteka til að kaupa C vítamín fyrir nebbann og B vítamín til að pöddur hættu að éta Snorra. Við slökuðum verulega á allri drykkju vegna þessa, fórum ekki einu sinni á bar! Fórum í bíó að sjá væmna H.O.R. mynd (hugljúfa og rómantíska) með Jim Carrey, skelfileg helvítis mynd, öll fyndnu atriðin voru í trailernum, og svona líka hryllilega P.C. að guð er blökkumaður, I want my money back. Bíóið var tómt því það kostar alveg 5 evrur í bíó sem er þokkalega mikill peningur hér. Okkur grunar að bíó hér séu góðir staðir til að stunda peningaþvott, alltaf tómt en fer aldrei á hausinn, hmm….
Hér eru öll skilti í cyrillic letri en kortin með latnesku letri, algjört pain og endaði yfirleitt í að telja stafina til að útiloka götur, vorum villtir í eitt skiptið og spurðum vörð hjá bandaríska sendiráðinu hvar við vorum og fengum hjálp, sendiráðið afgirti heila hliðargötu útaf *national security* vei svona eins og Laufásvegurinn væri bara lokaður með vopnuðum vörðum og einhverju hliði, andstyggilegt.

Við vorum komnir í blindgötu með að fara til Búlgaríu, því samgöngur héðan til Seríbu/Króatíu eru algjörlega lamaðar. Bara lest til Belgrade, og rúta til Zagreb, við reyndum að fara á nokkrar bílaleigur en fengum bara undarlegan svip.. og já það er eitt sem er stórfurðulegt við Búlgaríu, fólk hristir hausinn upp og niður þegar það segir nei, og gerir einhverja furðulega hringsveiflu með haus þegar það segir já! þ.a. þegar við spurðum “leigja bíl og skilja eftir í Króatíu?” “nei nei nei ertu klikkaður, ætlaru til Serbiu með bílinn minn??” Svo kinkaði fólk kolli. Ég fór í sjoppu einhverntímann til að kaupa sígó, marlboro lights? og gellan hristir hausinn upp og niður með jánkandi takti… ok flott! Svo bíð ég bara og hún gerir ekki neitt.. Ah já þýðir nei hér ! Allar sjoppur selja bara búlgarskar sígarettur, fundum samt ekki Opal :)
Borguðum fyrir 2 nætur en gistum bara eina, það er í lagi því hér var nonstop internet, hæææægvirkasta internet sem ég hef nokkuð tíman upplifað, og ég byrjaði á 2400baud og telnet á sínum tíma! við erum að tala um nokkra hófíbita á mínútu, úff. Hér er matur og drykkur hryllilega ódýr, en allt innflutt góss er á sama verði og í vesturevrópu. Mælikvarði velmegunnar er samt hraðbankatíðni og hér eru þeir á 10 metra fresti, sem er gott.

5 Comments

  1. Tak skal du ha’ það er erfiðara en andskotinn að bulla um eitthvað sem gerðist fyrir mánuði, enda ekki í eðli sínu blog, eða hvað? Á eftir legvatni kemur fylgja og sömuleiðis meira blaður, stay tuned….

  2. Jónína

    eruð þið komnir heim, eða eruð þið bara hættir að nenna að blogga ? Gaman að lesa ferðasögu ykkar þó maður þekki ykkur ekkert (var bent á ykkur af vini … þið eruð bara að verða frægir ;))

  3. Jú Jónína við erum komnir heim og komnir aftur í kolanámuna. Við eigum samt eftir að skrifa um allavega 3-4 staði í viðbót og það kemur… bara hanga á refresh næstu vikur :)

Leave a Reply