Tucson er æði æði æði.. Tucson er saxófónn.
Tucson er æði æði æði.. Tucson er saxófónn.

Tucson er æði æði æði.. Tucson er saxófónn.

IMG_0277%20%28Resized%29.jpg
We’re on the road to nowhere.
Eftir O.C óverdós var keyrt austur í nokkru hugsunarleysi. Við vildum hámenningu en Arizona er risastór og vandrötuð. Við ráðfærðum okkur við véfréttina Google og fengum nokkuð loðin svör en túlkuðum þau sem svo að Phoenix væri næsti skynsamlegi áfangastaður. Við þeystum því þangað en þetta reyndist feilspor þegar upp var staðið.
Phoenix er gjörsamlega risastór, 3200 ferkílómertrar af endalausum úthverfum og með engan miðbæ af viti. Við bókuðum herbergi á hálf gettólegu Móteli og eyddum einu kvöldi ráfandi um í reiðuleysi leitandi að mat. Þegar maður finnur ekki mat hér í landi allsnægta þá er eitthvað verulegt að. Við fórum bara snemma í háttinn og gerðum aðra atlögu að Phoenix flykkinu daginn eftir. Það verður bara að segja að þessi borg hefur ekkert jákvætt við sig. Hún er eins og Ricky Lake. Offitusjúklingur með enga innri fegurð en samt fræg af alveg óljósum ástæðum. Eini jákvæði punkturinn þarna var þegar við á öðrum degin, aftur í leit að næringu, ráfuðum inn í Arizona Culinary Institute. Þarna í kokkaskólanum hékk franski fáninn útum allt og svo kom í ljós að lúsiðinn þjóninn okkar var á fyrsta degi í verknáminu sínu og við vorum fyrstu kúnnarnir sem hann hafði nokkurntíman þjónað. Við rifjuðum upp „like a virgin“ senuna úr Reservoir Dogs og vorum ansi ánægðir með okkur. Gaman að vera svona fyrstir. En þegar út var komið blasti grákaldur raunveruleikinn aftur við. Við vorum enn í hundleiðinlega offitusjúklinginum og þurftum burt. Við ákváðum því bara að slaufa Phoenix dvölinn og brenna til Tucson enda hlyti það bara að vera miklu betra. Við ræstum því Sævar og innan skammst vorum við á 140km/klst á interstate 10 með rauða kvöldsólina í bakið.
IMG_0290%20%28Resized%29.jpg
Mexíkóskur uppreisnarseggur.
Tucson reyndist algjör perla. Skyndilega var sem allt væri okkur í haginn og að Allah hefði persónlega lagt sín lóð á okkar vogarskálar. Við bókuðum herbergi á hinu stórglæsilega Hotel Congress sem er uppgert desperadó hótel frá 1920 og státar af ríkulegri sögu s.s. að Dillinger og félagar voru handteknir þarna. Ekki skemmdi fyrir að þetta var gríðarlegur stuðreitur. Beint fyrir neðan herbergið okkar var aðal næturklúbbur borgarinnar og 80´s kvöld í uppsiglingu. Við ákváðum að taka þátt og eftir dásamlega máltíð á hótel bistrónum skelltum víð okkur í 80´s fílinginn og fannst sem Pet Shop boy´s og Duran hefðu aldrei hljómað betur en í þessari 1920 desperado umgjörð. Við náðum líka að blanda duglega geði við innfædda sem virtust höfðingjar og hefðarkonur upp til hópa þrátt fyrir harðneskjulegan klæðaburð. Okkur var líka ákaflega vel tekið og ljóst að hér er engin útlendingafælni. Ónei hér ríkti mikil gestrisni og okkur var boðið í eitthvað kvennaknattspyrnupartí, vinguðumst við listhneigðan gyðing og sjóaður drykkjumaður upplýsti okkur allt um brynningarholur Tucson. Uppfullir af local fróðleik snérum við í kreppuþemað herbergið okkar og stuttu síðar svifum við í draumalandið þar sem Dillinger og félagar buðu okkur í bankarán.
IMG_0292%20%28Resized%29.jpg
Okkar heittelskaða kreppuvin í eyðimörkinni
Við risum eldhressir að vanda og skelltum okkur í könnunarleiðandur um borgina. Innfæddir höfðu frætt okkur duglega um borgina kvöldið áður svo leiðangurinn gekk vonum framar. Það er skemmst frá því að segja að Tucson er frábær. Þeir hafa bara gert þetta allt rétt hérna í einum afskekktasta eyðimerkursuðupotti Bandaríkjanna. Miðbærinn er tvískiptur með bari og veitingastaði huggulega sorteraða frá söfnum og þjónustustofnunum og það sem kannski er miklivægast þá virðist Tucson hafa lært af Phoenix fíaskóinu og allt er í göngufjarlægð. Við féllum gjörsamlega fyrir þessari súpertöff villta-vestursborg og sammæltumst um að þetta væri akkúrat það sem við höfum verið að leita að. Svo er líka allt annar fílingur í fólkinu hérna í þessari kúrekaútópiu en nokkurstaðar annarstaðar sem við höfum verið. Það er eins og að allir séu perluvinir og ákveðinn Tucson liðsandi er í lofinu. Þarna var bara allt rétt þrátt fyrir að bílafloti og klæðaburður innfæddra bæri ekki vott um mikla velmegun. Það er vert að nefna að dætur Tucson hafa ákaflega sérstakan klæðaburð sem samræmist helst fatasmekk portkvenna og nektardansmeyja gamla heimsins og bæði kyn eru mjög ófeimin við að skreyta kroppinn með húðflúrum. En við fíluðum þetta bara allt og fullyrðum að það sé miklu betra að vera fátækur desperadó í Tucson en múraður akstursalki í Phoenix.
IMG_0285%20%28Resized%29.jpg
Baldi dútlar við Dillinger græjurnar.
Að kvöldi tókum við bæjarrölt, nærðum okkur og fórum svo í pool. Aftur fengum við þá tilfinningu að Allah væri að handstýra okkur í hamingjuna. Okkur hefur skort ónytjungatíma til að verða verulega góðir í poolinu en þarna undir handleiðslu Allah stukku kúlur og beygðu eins og okkur þóknaðist. Undirleikur þessa óvenjulega sirkusatriðis var svo dúndrandi grungekennt þungarokk sem okkur fannst samræmast anda Tucson ákaflega vel. Það gekk okkur bara allt í haginn og með Allah við stjórnvölinn vorum við komnir fljótlega komnir með áhorfendur og farnir að stjórna djúkboxinu í nafni Græna Páfans. Við vissum þó að Bakkus myndi spilla þessum óvænta kjuðaballet fyrr eða síðar svo við hættum á toppnum og snérum aftur á Hotelið. Skyndilega heimsótti skáldagyðja okkur og úr varð vírað pönklag um reynslu síðustu daga. Við chilluðum svo bara smá með innæddum áður en við snérum aftur í kreppukompuna og þaðan beint til Draumistan.
IMG_0294%20%28Resized%29.jpg
Ballskákarbravadó.

Tucson er fín!
(Syngist við God save the Queen með Sex Pistols)

Tucson er fín,
Ekkert Fönix grín,
Líkt og Allah fílar svíííí – híín,
Við fundum ekkert rím
Tucon er fín,
Þar flæðir alltaf vín,
og ei þynnist buddan þín,
þar gleðin aldrei dvíí- hín.
Burt frá Fönix ef þú vilt eiga líf,
Burt frá Fönix ef þú ert ekki fífl,
Brennum Fönix,
Brennum Fönix,
Eins og Tyrkir brenndu Vííí – híín.

Dagurinn eftir var nokkuð þungbær. Við vildum ekkert fara frá Tucson en fleira skal en gott þykir. Við erum jú í leit að bandaríska drauminum og hann kemur ekkert til okkar frekar en fjalllið til Múhammed. Klökkir og með ónotatilfinningu í maganum slitum við því ástarsambandi okkar við Tucson í bili og héldum norður á bóginn. Við erum búnir að kanna eyðimerkur Kanaveldis af miklum þrótti en núna er stefna tekið á menningarafkima fjallafólksins á Coconino hásléttunni. Nú dugar engin ástarsorg því vísindin efla alla dáð en vonandi komumst við aftur til Tucson fyrr en síðar.
IMG_0308%20%28Resized%29.jpg
Get back, get back, get back to where you once belonged.

3 Comments

  1. Siggafræ og fjölsk

    Fjölskyldan í Frostaskjóli fylgist með frábærum fjölmenningarlegum rannsóknum ykkar félaga. Finnst að fræknir ferðalangar séu fyndnir og fræðandi og ferðir ykkar fremur framandi. Ferðist fagnandi framvegis og forðist fanta og fallbyssur! S+K+S+J

  2. Búbúlína

    Félagið alvara er augljóslega á ferðinni þarna á síðustu myndinni með Tukson að baki – hvaða minningar skildu vera að brjótast um í kollinum á ferðalöngunum þarna – Líklega söknuður eftir elskulegar móttökur þeirra Tucson búa – og vægur kvíði yfir að þurfa nú aftur að fara út í óvissuna – það tekur á í hvert sinn að nema land og aðlagast nýrri menningu….Góða ferð!

Leave a Reply