This is the end, my only friend the end
This is the end, my only friend the end

This is the end, my only friend the end

Við stóðum á innanlandsflugvellinum í Panama City og skimuðum í kringum okkur eftir vitibornu lífi.  Þetta leit út eins og biðstofan inn í forgarð helvítis. Drulluskítugar vifturnar ýlfruðu í loftinu og þeyttu þykku kæfandi skítugu loftinu ofaní salinn sem var fullur af Torrentelegum gaurum kófsveittum í sjoppulegum jakkafötum. Meira að segja flugurnar virkuðu sljóar og þreyttar.  Við siluðumst hægt gegnum biðstofuna í langri röð sem ein sveitt búsældarlega kona var að afgreiða í makindum. Þegar svo loks kom að okkur spurði þessi sveitta barbapabbamamma – hvað eruð þið þungir og horfði á okkur með tilfinningarlausu augnarráði. Við litum hvor á annan einsog tvær anórexískar stelpur í nammibarnum í Hagkaup og umluðu svo einhverju útúr okkur, líklega nær óskaþyngd okkar en sannleikanum.  Í ljós kom að þetta snérist um burðarþol “flugvélarinnar” sem átti að ferja okkur til Bocas Del Toro en hún gat ekki endilega borið fullfermi af hvítum oföldum 1staheimspésum. Þetta tókst þó allt og örstuttri flugferð seinna stóðum við í flugstöðinní í Bocas Del Toro sem lét flugstöðina í Panama líta út eins og Taj Mahal. Við höfum séð reislulegri stríðsminjar en þennan niðurbrotna skúr. 

Samkvæmt áætlun átti einhver frá hótelinu sem við höfðum pantað að pikka okkur upp á flugvellinum en eftir mikið fát stóðum við aleinir á flugbrautinni við ónýta skúrinn. Fokk maður. Við stundum af bugun og bölvuðum okkar bláeygðu lífssýn. Baldi kom hinsvegar auga á Toyota Hilux sem virtist stefna á flugvöllin og við ákváðum að reyna að flagga hann niður og sníkja far.  Þegar bíllinn skransaði inn á bílastæðið með viðeigandi reykjar og rykskýi þurftum við að píra augun til að sjá hvað hoppaði út.  Útúr reykjarmekkinum kom lágvaxinn feitlaginn maður í gömlum Barcelona fótboltabol, skælbrosandi með nokkar gulltennur glampandi og breiddi út sveittan faðminn – “Welcome my friends!!  I’m Ricky and am here to take your to your Hotel!!”  Já, stundvísi er ekki dyggð þarna á Bocas. Rikki reyndist hinsvegar hin mesta fígúra og eftir að hafa brunað með okkur túr um eyjuna skilaði hann okkur á hótelið okkar við Saigon bay, faðmaði okkur og lét okkur fá spjald því Ricky var meðal annars leigubílstjóri auk þess að vera skyldur öðrum hverjum eyjaskeggja að því virtist.  Hótelið var stórfínt, svona bungaló á stólpum úti í sjónum með prívat hengikoju og rekið af bandarískum hjónum sem höfðu kennt við háskólann í Chicago en svo gone fully hippy og sest þarna að. Við spurðum hótelstjórann hvort það væri ekki allt krökkt af mýflugum og viðbjóði svona útí vatni á kvöldin en hann hélt nú ekki. “Leðurblökurnar borða allar mýflugurnar”. Við vorum pínu kjaftstopp en létum eins og að það að vera í sverm af leðurblökum væri jafn venjulegt fyrir okkur og að bursta tennurnar með colgate.  Við fengum Rikka reddara, sem lyktaði eins og Beefeater flaska til að skuttla okkur niðri bæ eftir smá bón spásseruðum við um miðbæinn.

Bocas del Toro bókstaflega þýðist sem skolt nautsins og er mjög sætur staður. Þetta eru svona hálfgerður Selfoss sem stendur á nokkrum litlum eyjum og húsin eru litríkt máluð og gjarnan á stólpum.  Þarna er voða lítið annað en sól og chill. Því má treysta en rafmagn og interwebs er svo önnur saga. Við vorum ekki með neitt gott plan hvernig við ættum að komast af eyjunni svo við létum bara vaða í lífstílinn.  Þetta var mjög næs, hanga létt marineraður í hengikoju og hlusta á leðurblökurnar jappla á flugum, rúlla um eyjuna með Rikka reddara og borða á veitingastöðum einhverra skyldmenna hans og skella sér í sjósund eða snorkl innan um höfrunga og gullfiska.  Við misstum eiginlega allt tímaskyn og skyndilega var það orðið ljóst að við þyrftum að fara að tygja okkur upp á meginland.  Við reyndum að hrista af okkur slenið en vorum eins og að við hefðum verið hálft ár í ópíumstofu.  Þetta er ansi hættulegt sjóræningjalífstílnum.  Einhverjar paradísareyjur þar sem tónikkið er dýrara en ginið, alltaf gott veður og engar fokking flugur að bögga mann. Við fengum Rikka til að græja okkur með einhverjum bát til meginlands Panama og hann faðmaði okkur sveittu faðmlagi í kveðjuskyni meðan við rígheldum í peningaveskin í vösunum. 

Við brunuðum á einhverjum Zodiak gúmmibát með stefnu á Costa Rica og ræddum hvort að þetta ferðalag væri örugglega löglegt en það var sannanlega full ástæða til að efast þar sem það var græjað via Rikki reddari.  Þegar við komum svo í land, holdvotir, tók við okkur rúta og við ásamt um 12 öðrum vorum ferjuð að það sem kallað var border crossing. Þetta var allt mjög dularfullt og landamæri Panama og Costa Rica lágu þarna um ónýta lestarbrú sem gerði þetta allt enn skuggalegra.  Áður en maður fékk að fara yfir brúnna var samt stutt stopp þar sem farið var í einfalda röð og inni í pínu litlum skúr sat feitur panamaherforingi með ray ban gleraugu.  Sveitti herforinginn starði á Óla og gerði á honum sjónrænt greiðslumat. Óli, eftir komatósadvölina í Boca var frekar sjúskaður í skítgum bol og hermannabuxum.  “5 dollah, umlaði Ray Ban og stimplaði svo í passann.  Fyrir aftan Óla var svo kona í bol í kanadísku fánalitunum með risa myndvél framan á sér og glottandi eins og Dagur B að klippa á borða. “20 dollah umlaði sá sveitti og brosti svo glitti í tóbaksgular tennurnar”.  Það má annars koma fram að samferðamenn okkar í þessu ferðalagi voru góðborgarar úr vesturheimi upp til hópa fyrir utan tvo mega töffara sem voru frá Ísrael. Þeir svo svakalega too cool for school að þeir voru með blue steel augaráðið bara ávaxið á sig og hreyfðu sig eins og ekkert skipti mál. Hverjir fíla ekki tvo fullorðna menn frá Ísrael með unglingaveikina …. Landamæraverðir. “100 dollah fnæsti Ray ban og við tók líka eitthvað mjög harðneskulegt ferli sem tók hátt í klukkutíma. Við héngum á meðan út í rútu en ferðastjórinn reyndi að grátbiðja verðina að gefa megatöffurunum breik.  Þetta gekk loksins upp og rútan skutlaði okkur á 1sta heims lúxus hótelið okkar í San Juan í Costa Rica.

San Juan reyndist frekar erfið og leiðinleg borg en það var kannski bara líka okkar andlega ástand því tíminn okkar er liðinn og okkur langar ekkert heim.  Borgin er með morðtíðni sem sást síðast í Krímskagastríðinu og er í raun bara pínulítill miðbær og svo eitthvað svona urban sprawl. Við nýttum því tímann og bókuðum heimferð.  Þar sem við sátum og brynjuðum okkur gegn malaríuvánni fórum við að ræða hvað hnattstaða væri merkilegt fyrirbæri. Maður verður bara ekkert timbraður í miðbaug en hvað með hinn eiginlega núllpunkt – 0,0 ?    Eftir smá rannsóknarvinnu fundum við fyrirheitnalandið. Baker Island, 0,1 gráður miðbaug og -177 gráður vestur. Dásamleg lítil eyja í Kyrrahafinu með flugvelli úr seinna stríði og pálmatrjám.  Úr varð djörf áætlun um að kaupa ónýtt olíuflutningaskip í Bangladesh, koma upp loftsendi fyrir Internet á því, fylla tank af gini og annan tank af tónik. Stíma svo á Baker Island og stranda skipinu. Taka svo Robinson Krúsó alsælu á eyju sem ekki er hægt að verða þunnur á – hanga á netinu og baka sig í sólinni á Baker Island.  Við voru enn uppveðraðir af hugmyndinni þegar við svifum inn í draumalandið þar sem við spiluðum strandblak með Wilson bolta á Baker Island.

Við vöknuðum slappir við frekjulegt gólið í símanum “Drullið ykkur heim – kolefnisklessurnar ykkar !!“. Við reyndum okkar besta að týna saman draslið okkar og koma okkur út.  Í leigubílnum út á völl var undarleg þögn og við horfðum út um sinn hvorn gluggann þöglir.  Drulluskítug borgin sveif framhjá og í útvarpinu gólaði einhver spanjóli um ástina og Corazon-ið sitt. Baldi leit á Óla alvarlegur “ veistu, ég bara nenni ekki heim. Það er ógeð, afhverju ætlum við heim dúd ??? Óli kinkaði kolli “já veistu, mig langar ekki heim aftur heldur.  Augnaráð Balda varð skyndilega laust við alla þoku og varð hnífskarpt. Hann lyfti upp hnefanum og steytti hnefann að Óla – Klesstan fyrir Baker ???  Óli glotti og það var eins og í dauðum hundaaugunum kviknaði líf.