The thrillah from Manila
The thrillah from Manila

The thrillah from Manila

DSCF0169.JPG

Flugvöllurinn í Hong var minna æði en af er látið.  Við höfðum keypt flug með filipínska lággjaldaflugfélaginu Cebu Pacific og þar var allt í dálítilli steik.  Verst var þó að til að fá að fara til Filippseyja var gerð krafa um að við ættum miða burt líka.  Innritunarkonan horfði á okkur þver eins og Árni Johnsen á Þjóðhátið.  Hér mundi ekkert haggast fyrr en við borgðum einhverja dollah.  Þetta var nú meiri fávitaskapurinn.  Hverjum dettur í hug að þessi mesta útflutningsþjóð á fólki í heimi geti ekki tekið áhættuna á að tveir gaurar ílengist í dollahbrennslu sinni?  Jæja við neyddumst til að kaupa miða aftur til Hong Kong bara út á bjúrókrasíu en hann kostaði þó bara eins og 4 bjórar í Hong. Oh, pirringur ! Til að kóróna allt voru ekki nema 40 mínútur í flug og fullkomlega óljóst hvort við myndum yfir höfðu ná því.  Þetta tókst þó samt án allra hluta eða vitleysu. Með ískallt pirrings eastwood-lúkk örkuðum við um þetta flugvallaskrímsli og náðum í rassinn á vélinni.  Það var þó nokkur árangur þar sem flugvöllurinn er gjörsamlega tröllvaxinn, með 530 hlið og völundarhús merkjavöruverslanna.  Gefðu okkur þá frekar Súvarnabúmi á hverju degi.  Þessum flugvallaártöku í Hong var þó ekki alveg lokið því í ljós kom þegar vélinn var komin út á flugbraut að einhver kerlingarálka hafði gleymt sér í búðarrápi á vellinum og við tók klukkutíma bið eftir henni.  Óli varð ákaflega pirraður og stakk upp á að hún yrði krossfest næstu páska í Manila öðrum flugdólgum til varnaðar.  Kerlingin mætti svo skælbrosandi framan í samferðamenn sína eins og ekkert hefði í skorist. OH !!!

IMG_0060.JPG
Pimpmórúta

Allt gekk eins og í sögu þegar komið var til Manila. Heiðarlegur leigubílstjóri og hótelið okkar spartanskt en bara ljómandi gott.  Eftir tékk-inn var tekin smá eftirferðalagsbónun og svo út að skoða borgina.  Manila er eiginlega nokkrar borgir. Við búum í fjármálaborginni, mitt á milli bankahverfis og lítils barhverfis sem satt best að segja er dálítið sjabbí.  Kæfandi hitinn kom í veg fyrir að við gætum skoðað mikið þarna fyrsta daginn en 39 gráður og 90% raki hefði stöðvað Chuck Norris í mannfræðistörfum.  Við fengum okkur því bara pizzur og bjór og slöppuðum af í skugganum eins og mexikanarnir í Speedy Gonzales teiknimyndunum.  Um hálf átta leitið byrjaði leikur Danmerkur og Hollands í HM og jafnframt mikið monsúmskýfall.  Í gegnum þetta syndaflóð hlupum við inn á fótboltabar þrælmerktum Hollandi og stútfullum af appelsínugulklæddum Hollendingum.  Þarna voru svona 40-50 sauðdrukknar hollenskar bullur, þambandi bjór og syngjandi hollensk fótboltalög. Það voru reyndar svona 4-5 danir lika út í horni en þeir voru bara þögulir og feimnir.  Þrátt fyrir að Óli sé mjög hollur hollandi entumst við ekki nema einn hálfleik í öllum þessum hávaða og látum.  Þetta voru sennilega bankamenn úr fjármálahverfinu sem bara ekki kunnu að hegða sér innan um fólk.  Aftur verðum við fyrir bankamengun óverðskuldað.  Já fuss.  VIð fórum því bara aftur út í monsúmið og duttum þá inn á mjög fínan ítalskan bar þar sem við drukkum exótíska kokteila þar til HM leikir dagsins voru búnir og við samhliða því.  Mjög langur og strangur dagur.  VIð liðum inn í draumalandið þar sem við fengum einkakennslu í fist-of-death fræðum frá Bruce Lee til að hjálpa ykkur í baráttunni gegn bankavánni.

IMG_0062.JPG
Óli skoðar óróasegg

Við sváfum til hádegis og booztuðum okkur svo á hávirðuglegum spænskum veitingastað. Það kostar að vísu eitthvað fleiri pesósa að borða í glæsilegri umgjörð en það friðar samt einhvern veginn samviskuna gagnvart þeim hreinlætisskorti sem hér virðist vera landlægur.  Yfir matnum spáðum við í dularfullum símadraugagangi sem herjaði á okkur um nóttina en Óli vaknaði með missed call frá Tælandi og Baldi með símtöl frá Indlandi.  Við reyndum að hringja í hvorn annan en niðurstaðan reyndist verða bara fail. Já, símkerfið er klárlega eitthvað klikkað hérna líka.

DSCF0161.JPG

Í dag átti að fara í skoðunarferð í Intramuros hverfið í Manila.  Þetta er gamli spænski miðbæri frá nýlendutímanum og jafnfram það litla af gömlu grjóti sem þeir eiga en Manila var víst skotinn í tætlur næstum jafn mikið og Varsjá í seinna stríði.  Hitinn úti var ærandi 42 gráður en við létum ekki hugfallast og hoppuðum upp í rottu og brunuðum af stað inn í umferðargeðveikina sem hér ræðum ríkjum. Munurinn á hugrekki og fíflsku er stundum niðurstaðan.  Þvílíkur fávitagjörningur !!!

Ferðamenn í forgarðinum (syngist við Mercy Seat /m. Nick Cave)

Þetta hófst þegar ég steig út úr bílnum,
úti var svæsin hitabylgja,
Ég saklaus ferðarmaður að fara að skoða steypu,
Ég skal segja það aftur,
Dauðinn er ljúf lausn

Ég dró andann ótt og títt,
mengun ryk og súlfúrský,
svartur köttur á götunni,
kafnandi í drullunni,
og þessi brennandi öngstræti,
barnagrátur og hávaði,
ég féll á hné og bað guð,
gef mér boozt eða gef mér lausn,

Og svartur svitinn rennur,
og hvítt hold mitt brennur,
og ég þrái bara út þessu helvíti að komast burt,
allt mitt fé,
fyrir stundarhlé,
ég ákalla Allah og fell á kné,
Dauðinn er ljúf lausn.

Við steinlágum við heimkomuna.  Þetta var eins og upphafsatriðið i Apocalypse Now. VIð lágum í svitapolli og störðum á viftuna í lofinu. Hitabeltisrothögg á hvíta manninn. Baldi jafnaði sig þó hraðar en Óli sem fullyrti að hann væri með sólsting og gæti ekki gert neitt flóknara en að stara á viftuna og kannski gráta.  Hann sagðist hafa séð ásjónu Jesú í mengunarmistrinu þarna í þessum brennandi spænskþemuðu vítislogum og hann væri enn að melta trúarafstöðulegar afleiðingar þessa.  Balda tókst þó að tala Óla út með því að lofa honum ísköldum ananassafa en þrátt fyrir gulrótina var Óli dálítið eins og dauði gaurinn í Weekend at Bernies.  Við horfðum á Portúgal spila við Fílabeinsströndina í HM en þegar leikurinn var búinn vorum við það líka.  Helvíti hefur varla mikinn fælingarmátt hér þegar miðbærinn er svona.  Við liðum inn í draumalandið þar sem við húðskömmuðum Dante fyrir að draga úr krafti kaþólismans með sínum 7 aulalegu helvítum.

IMG_0066.JPG
Hvítt hold brennur!

Við risum eins og fönixar um hádegisbilið.  Í samvinnu við Véfréttina var skipulagt brall.  Í dag átti, þrátt fyrir ófarir gærdagsins að rannsaka meira.  Við fundum rottu og við tók hálftíma umferðaröngþveiti en síðan stóðum við í Malate hluta Manila sem átti að vera strandstuð og verslun.  Þetta reyndist geysistórt hverfi og þegar tók að skyggja brast á mikið tjútt.  Hér ræður japanska jenið ríkjum og stuðið eftir því.&nbsp
; Mikil ljósadýrð og maður heyrir oft lummulegar ástarballöður gólaðar af svo mikilli innlifun á kareoki barnum að saklausir vegfarendur fá líka að njóta.  Þarna þrífst líka einhver japanskur kareoki pervertismi þar sem glannalega klæddar flippur reyna að tosa vegfarendur í eitthvað dóna-singstar.  Þessir staðir eru ótrúlega margir en okkur ferðafélögunum þykir þó sennilegt að þetta sé ekki dæmigerð hegðun japans. Varla var singstar hannað til að vera eitthvað kynlífshjálpartæki ?  Hvað með börnin ??

IMG_0078.JPG
Súludans er bannaður heima jú, en má dvergabox?

Við náðum í rottu um miðnætti og héldum heim.  Leigubílstjórinn ákvað að stytta sér leið í gegnum fátækrahverfi og úr varð nokkuð menningarsjokk.  Þvílík bilun !  Hrúgur af fólki í bárujárnshreisum, hálfbert og hlaupandi um í bílljósunum (það var engin önnur lýsing) eins og skelfd dýr. Við vissum að við væru í 3ja heiminum en þarna vorum við komnir í þann 4ða eða jafnvel 5ta.  Þetta fór allt vel, fyrir okkur amk, en okkur fannst ekki sennilega að við hefðum enst lengi þarna í distric 6 gettóinu ef td. bílinn hefði bilað.  Aldrei höfum við séð aðra eins sturlaða fátækt og vosbúð. Við vorum pínu sjokkeraðir við heimkomuna svo smá malaríulyf á ítalska barnum okkar, La dolche Vita.  Svo í háttinn og stuttu síðar sungum við we are the world í singstar með henni Sóleyju okkar.

IMG_0075.JPG
Flippagleði

Við vöknuðum sæmilega hressir í flugið daginn eftir.  Við ætlum til Cebu sem er næst stærsta borgin hér á Filippseyjum og er sögð bæði af Google og frænda Óla mikil paradís.  Það er það sem við þurfum núna.  Paradís og afslappelse því Manila hefur verið ansi erfið.  Hitinn hér er tryllingslegur og miklu verra að vera hér utandyra en jafnvel í mengunarsuðupottinum í Baku.  Samt höfðum við örugglega gengið 40-50 km í þessu frumskógareldskýi.  Skipulag er hér í algjörum molum og maður getur skyndilega staðið í einhverju 4ða heims gettó sem oftar en ekki líta út fyrir að hafa nýlega orðið fyrir sarín árás þar sem hrúgur af meðvitundarlitlu og vannærðu fólki liggja bara út um allt. Göturnar hér eru líka alltof litar og fáar. Allstaðar er stanslaus umferðarsulta og maður verður að velja leigubíla af kostgæfni. Við klikkuðum á því einu sinni og eyddum næsta hálftímanum án loftkælingar meðan svitinn draup af okkur eins og í gufubaði.  Áreitið á götum úti er líka mjög mikið og þar sem maður situr á kaffihúsum eða börum eru börn stanslaust að betla og glæpamannslega fígúrur koma og reyna að selja manni allskonar drasl.  Okkur hefur verið boðið að kaupa á þessum þrem dögum borvél, taser byssur, viagra, risa Svampur Sveinsson dúkku, brómberjasíma, allskonar úr, skó, gítar auk hinna hefðubundnu sígó-konur-dóp. Að þessu öllu sögðu verður að koma fram að fólkið hér er alveg frábærlega vinalegt og forvitið um okkur hvítingjana. Við er alltaf þéraðir og þjóðinn virðist líka með einsdæmum brosmild og léttlunduð.  En þetta er bara allt svo erfitt hér. Þegar rignir flæða meira segja holræsin upp með tilheyrandi skítafýlu. Já, þetta er svo ömurlega illa skipulagt að meira að segja Kópavogur virkar fínn í samanburði.  Kannski fóru bara allir peningarnir í göng út á landi ?

Við ræddum Manila á leiðinni út á flugvöll. Synd að þetta toppfólk skuli búa við svona erfið skilyrði.  Við vorum með smá samviskuhnút í maganum yfir að skilja þá bara svona eftir og skella okkur sjálfir í eitthvað lúxushótel í paradís á jörð. En jæja, þetta er óréttlátur heimur.

Leave a Reply