Flugvöllurinn í Jakarta var óttarlegt Hong, risastór, flókinn og erfiður. Mesta vesenið var þó að ná í leigubíl í bæinn en kanadíski vinur okkar Jeff hafði sagt okkur að þannig reisa gæti auðveldlega tekið tvo til þrjá tíma eftir hversu sultaðir umferðaræðahnútar borgarinnar væru þá stundina. Við gengum beint til verks og eftir talsvert vesen, bið, bögg og hark sátum við í svartri bens-drossíu á fleygiferð í bæinn. Stundum er bara ekkert annað en að bíta í hið súra miðstéttaepli og fara eins og gullklyfjaði asninn yfir óyfirstíganlega múra. Ferðin tók þó ekki nema einn og hálfan tíma en útsýnið úr okkar loftkældu leðursætum var ekki par frýnilegt á leiðinni, endalaus grá steypa, fátækt, sturluð umferð og neonprýddir skýjakljúfar sem stóðu eins og silfurmónólítar uppúr drullusvaðinu. Við sátum stjarfklofa og störðum út á bilunina fyrir utan okkar skyggðu glugga. Hvað vorum við komnir út í ?
Við höfðum bókað hótel eftir ráðum Jeff og það reyndist alveg prýðilega fínt. Allt í kring var tryllt brall en hótelið var eins og lítil borg enda varla gert ráð fyrir að heilvita hvítir ferðamenn stígi þar fæti út á meðan að á dvöl þeirra í Jakarta stendur. En við, asíuvinir og trúbræður hvers brallandi inda – beint út að skoða borgina sama hvað og enga hótel-fílabeinsturna handa okkur takk !!
Dr Livingstone i presume?
Suður Jakarta reyndist erfiðari og meira krefjandi en Gobi eyðimörkin. Gangstéttirnar eru ekki hannaðar fyrir fólk heldur til að taka við rigningavatni svo þegar norrænn þurs stígur á brothættar hellurnar vega þær salt og fyrir neðan bíður kakkalakkahlaðið ræsið eftir næstu máltíð. Við stukkum eins og flóðhestaballerínurnar í Fantasíu milli gangstéttahellna og gegnum umferðarþvögurnar þar til eftir rúman klukkutíma að við fundum Japanskt skemmtihverfi með Kareokie og öðru fálmararugli sem sú þjóð virðist stunda í útlöndum. Þar tókst okkur að herja út eina samloku til að deila á mjög dularfullum bar en neyðin kennir naktri konu að dansa og það voru komnir 20 klukkutímar frá því við núðluðum okkur síðast í Indlandshafsparadísinni á Lombok. Eftir klukkutíma í viðbót af ghetto-frogger umferðarhoppi fundum við loksins vestrænan bar með snookah borði sátum þar sem fastast það sem af var kvölds. Snookah staðan í Asíubikarnum eftir kvöldið var annars 28-29 Óla í vil. Hnífjafnt en Baldi er hálfspældur yfir gæðum snookahborða hingað til en honum fer best að spila með bognum kjuða á útiborði í frumskóginum. Yfir snookah og bjór ræddum við hvernig í fjandanum Hollendingum tókst að ráða við indahjarðirnar árhundruðum saman. Hér í Jakarta eru 20 milljón indar í non-stop bralli og ekki sjáanlegt að einhver sé við stjórnvölinn og þannig hefur það víst verið hér lengi. Á Lombok voru td. 250 hollendingar sem stjórnuðu með harðri hendi rúmlega 500.000 manna kryddhagkerfi og arðrændu það af gríðarlegri hörku og óbilgirni. Hvernig má það vera að 250 manns geti kúgað hálfa milljón svona rækilega? Óli setti fram þá kenningu að indanir hafi tapað því þeir neituðu að ganga í skóm. Við höfum tekið eftir þvermóðskulegri afstöðu indanna til skófatnaðar en þeir virðast alveg neita að vera í meira skótaui en flipp floppum, sem er lágmarksígildi á skó og létt og fljótlegt að sparka þeim af sér og spranga um sem berfættur brosandi Indi. Það hefur þá væntanlega verið lítið mál fyrir Hollendingana að buffa berfætta Indana – td. með teiknibólur að vopni. Baldi benti þá á að á alþingi íslands sætu 63 yfirvaldseintök og af þeim væru 320.000 íslendingar arðrændir og óhamingjusamir þótt þeir ættu allir skó. Kenning Óla riðaði eins og spilaborg í suðurlandsskjálfta. Almenn skóeign en hlutfall kúgara og kúgenda enn lægra en á Lombok á 17. öld. Humm, klárlega kenning sem kallar á meiri sagnfræðirannsóknir með stuðningi Véfréttarinnar. Við fórum loks heim á hótel seint og síðar meir og eftir að hafa horft stuttlega á Chuck taka í lurginn á einhverjum Hongurunum liðum við inn í draumalandið þar sem við opnuðum Steinar Waage útibú á ströndinni á Lombok.
Þegar við vöknuðum var planið að taka smá sundlaugartjill, Lombok stæl. Þegar planið var komið í fulla framkvæmd og við stóðum sundklæddir og skælbrosandi í sundlaugarmóttökunni veitti Jakarta okkur enn eitt pungsparkið og lífsneistinn í augunum dofnaði enn frekar. Í Jakarta fer maður ekki í sólbað heldur mengunarmarineringu. Yfir borginni virðist hanga mengunarslepjuský svo ekki sé til sólar auk þess sem öndunarfærin heimta stanslaust hreinsun sem er best veitt með að reykja mentólsígarettur milli hóstakasta. Jæja, þá bara hádegismatur á hótelinu og plotta. Enginn staður er alvondur er það? Við leituðum ráða hjá Véfréttinni sem sagði að við ættum að fara á eitthvað torg þar sem væri lífvænlegt og jafnvel gaman. Við pöntuðum rottu og hálftíma síðar sátum við pikkfastir í umferðarsultu. Djöfulli er þetta trufluð borg. Þótt maður myndi dæla Gunnar Birgisson fullan af ofskynjunarlyfjum, snúa honum hundrað hringi á skrifstofustól og svo blasta hann með blikkljósum og abbatónlist yfir borgarskipulagsteikningunum, þá myndi jafnvel kópavogskóngurinn ekki geta skapað skipulagshelvíti á við Jakarta. Göturnar virðast oftast vera einstefnur og innfæddir virðast eiga það sameiginlega að enginn ratar neitt og sumir sem við spurðum vissu reyndar heldur ekki hvar þeir væru, jafnvel starfsfólk á veitingastöðum gat ekki með staðsett sjálft sig eða veitingastaðinn á korti. Það er reyndar áhugavert að Indarnir spyrja mann iðulega hvert maður er að fara? Í okkar tilfelli er sjaldnast skýrt afmarkað markmið með ferðum okkar enda ferðalög þess eðlis að ef maður fer leitandi bara að einhverju einu ákveðnu eru allar líkur á að maður finni það ekki en ef maður leitar bara að einhverju áhugaverðu eru alla líkur á að eitthvað uppfylli þau skilyrði. Þegar við svo tilkynntum forvitnum indum að enginn sérstakur áfangastaður eða tilgangur væri á ferðalagi okkar urðu þeir yfirleitt eitt stórt spurningamerki í framan. Jeff hafði haft orð á þessu við okkur og útskýrt fyrirbærið. Þetta er bara innbyggt í indana. Ef maður er ekki að fara eitthvað ákveðið þá er maður villtur. Kannski er þetta svona „flöt jörð” hugsun ? „Hvert ertu að fara ?” Nei bíddu þú gæti dottið fram af brúninni! Svo er þetta auðvitað eyjuþjóð og göngutúrar á eyjum dæmdir til að enda í tilgangslausri hringavitleysu ef gengið er nógu lengi. Já, það er stundum erfitt að átta sig á þessum indum en ljóst er að þetta er amk stórmál hjá þeim og lærdómurinn er sá að allir hafa alltaf eitthvað plan þó að það virki helvíti klikkað að í þessu vitfirrta 45 snúninga kaosi sem hér virðist ríkja sé pláss fyrir ætlun. Baldi er reyndar með þá kenningu að indarnir hér á Java væru hreinlega með annað stýrikerfi við hin á þessum hnetti. Kerfið höndlar brall-mode mjög vel en þegar þeir svo fara að tala við önnur stýrikerfi, td. einstaklingshyggjandi vesturlandabúa, þá koma reglulega upp „unhandled exceptions” þar sem indanum hreinlega vantar kóða til að díla við upplýsingarnar sem á honum dynja. Stóru augun og gapandi munnurinn þegar inda er tilkynnt að maður eigi sér ekki ákveðinn áfangastað eða bralltilgang eru því í raun blue screen-ið af kerfishruninu sem undir liggur.
Brall (Syngist við Hurt með Nine Inch Nails (eða Johnny Cash ef þú ert mussa))
svangt þreytt indagrey,
seldi drasl á götunni,
en allir sögðu nei,
ég banka á gluggana,
en engir líta út,
þeim er alveg sama um mig,
í Jakarta á enginn vin,
Hvert ertu að fara,
ríki hvíti kall,
hnetupoki og snakk,
myndu laga allt,
þú átt kannski drasl,
vegabréf og kort,
en þér mun verða kalt,
á norður heim-skauts-baug
Á endum komumst við á gleðitorgið mikla til þess eins að læra að gleðin fólst í þrem möllum í kringum umferðasultað hringtorg. Vopnaðir verðir stóðu við inngangana og greiðslumat var gert á hverjum þeim inda sem reyndi inngöngu í neysluparadís. Já, svona flippastæl mallar þar sem pöpullinn er metinn til jafns við moskítóflugur. Þarna virðist ríka fólkið hanga og spá í pradatöskur í marmara- og stál umgjörð, gjörsamlega 180 gráður frá hinum almenna inda sem snýst í hringi í fátækt sinni að spá í hvert hann á næst að fara. Þetta var sko ekki okkar sena en við lögðum á okkur tveggja tíma leit að Rauða torginu, indonesískum vodkabar, þar sem við sovétvinirnir eygðum von um brjóstbirtu á formi Russian Standard – móðurmjólk hins múrelskandi sovétvinar. Rauðatorgið reyndist hipp hopp leikvöllur múraðra ung-inda svo við sötruðum Standardinn þöglir meðan sálin fylltist hægt og bítandi af yfirstéttaróbeit. 240 millur inda, allir með plan hvert skal næst, og svo hundrað þúsund auð-indar sem rúlla eins og svínið Napóleon úr animal farm í vinnusvita hinna 239.900.000 vinnuþjarkanna. Rugl og ógeð ! Við rauðhjartaðir asíuvinirnir fílum ekki svona þótt allt sé auðvitað betra en VG. Á Íslandi mega t.d. Breiðhyltingar alveg vera með okkur hinum og fá að fara í kringluna og allt. Enginn maður með AK-riffil þar sem metur hvort þú eigir fyrir Louis Vuitton tösku eða ekki. Það er nú ekki margt betra á Íslandi en þetta pirraði okkur. Við (grútskítugir, skeggjaðir og í kvartbuxum sem bara fátækir hrísgrjónabændur klæðast hér í Indó) vorum að eigin mati með neyslustyrkshulinshjálm en óðum í krafti okkar hvítu gæru milli malla en blankir innfæddir störðu löngunarauga á levis-pepsí gleðina inni í tröllvöxnum Mammonsmunstrunum en yrðu sjálfsagt bara sendir til sameinuðu þjóðanna ef þeir myndu reyna inngöngu í neysluparadísina. Bah, héðan burt og það með hraði. Okkur hafði áskotnast kort af borginni og ákváðum að láta frekar vaða á klasa af veitingastöðum á Jalal Kemang götu. Þvílík mistök. Þremur klukkutímum síðar sátum við dauð-uppgefnir eftir eyðimerkurgöngu um mjög þriðja heims öngstræti. Enginn virtist rata neitt hér í Jakarta og við stanslaust villtir öðrum indum til samlætis. Djöfull er þetta hryllilegt pleis. Meira að segja leigubílstjórinn sem keyrði okkur á Jalal Kemang hafði ekki hugmynd um hvert hann var að fara, bara brosti og brunaði útí bláinn upp á von og óvon rammvilltur eins og við. Við borðuðum að lokum dömplinga á kínverskum veitingastað en enginn af staffinu hafði hugmynd um hvar veitingastaðurinn væri á kortinu. Það er eitt að vita hvert maður er að fara og allt annað og flóknara að komast þangað hér í Jakarta. Það er þó frekar mikilvægt að maður haldi kúlinu í samskiptum við indana og reiðist þeim ekki um of þegar þeir blue screen-a í þjónustu eða öðru samskiptum. Jeff hafði útskýrt fyrir okkur að indar eru með nokkuð brenglaða sýn á vesturlandabúa og mikilvægt að hegða sér í takt við hana. Það er nebblilega þannig að almennt vita indar ekkert annað um vesturlönd en þeir sjá í sjónvarpinu. Hér er ekkert vitrænt skólakerfi til að leiðrétta staðreyndarvillur og ímyndarskekkju Hollívúdd svo indarnir kokgleypa bara því sem sjónvarpið segir þeim. Þeir telja því að vestrænar konur séu framúrstefnulega lauslátar og því flauta tannlaus indagrey á eftir hvítu mussustelpunum úti á götu í von um að hvíta druslan sé með mökunarhegðun á við pakkið í Greys anatomy. Hvítir karlmenn eru svo ofbeldishneigðir og varasamir og því er það svo að ef hvítur maður fer að öskra á inda þá fríkar indagreyið út af hræðslu enda býst hann við að verða Bronson-aður í kjölfarið. Sumir lesenda okkar kunna að deila eitthvað í þessa fullyrðingu en það má vera alveg ljóst að indarnir eru með verulega skekkta mynd af vesturheimi, í raun bara í tak við íslenskar skinkustelpur sem halda að þær geti eytt ævinni þambandi kokteila „sex in the city style” í New York án þess að reiða af hendi ærlegt handtak. Já, kleppur er víða. Þrír tímar af eyðimerkugöngu í Jakarta eru örugglega jafngildi 40 daga í Palistínskri eyðimörk með djöflafreistingum og öllu. Við vorum ráðþrota og aðframkomnir svo við sættum okkur bara við tæknilegt rothögg Jakarta á okkur og gáfumst hreinlega upp og það gerist nú ekki oft. Upp í ráðvillta rottu en að lokum
Mussan er hér líka, kleppur er víða
Næsti dagur var dagur uppgjafarinnar. Við borðuðum á hótelinu sem jafnframt er algjör ripp-off búlla og prísar sig eftir aðstæðum, sennilega eins og booztbás myndi gera í eyðimörkinni. Við borguðum líter af blóði fyrir smá internettíma til að bóka far héðan og græja önnur ferðamál. Skælbrosandi hótel-indar tóku við bunkum af seðlum en hvað myndi maður borga Djöflinum fyrir útgöngumiða? Við ákváðum að í dag yrðu lágstemmd markmið einkennandi. Við stúderuðum kortið okkar um stund á hótelbarnum og ákváðum á endanum að kíkja á löggusafn sem átti að vera í næsta nágrenni við okkur. Loksins gekk eitthvað upp. Geðveikt !! Blautir af svita og með smá umferðartrauma en það tókst . Jai Hó ! Safnið reyndist líka vera æði. Indar eiga ekki mussur og það er verðugt verkefni og þjóðfélagslega þarft að stúdera hvernig sú lukka er tilkomin. Löggan hér er gjörsamlega salt jarðar ef þú ert ekki hasssjúgandi mussudjöfull. Lítil inda-lögguína lóðsaði okkur um safnið eins og einkennisklæddur engill. Og þeir kunna svona að díla við mussuna hér í Indó. Poki á hausinn, járn á útlimina og ef mussan er stillt þá enginn 9mm hausverkur heldur bara smá water boarding og uppeldi. Við íhuguðum stuttlega að ganga í lögguna og leggja hönd á plóginn en hættum við. Önnur og mikilvægari verkefni en að halda aftur af annarra manna mussum. Eftir safnið vorum við aftur orðnir svangir og röltum okkur í japönsku fálmarageðveikina og fundum stað sem var bara veitingastaður. Áhugavert, þarna hafði klárlega aldrei hvítur maður stígið fæti. Við vorum svona hálftíma að ráða út úr matseðlinum en enduðum með bjór og sushi. Ljómandi fínt en alveg heví skrítinn staður og ljóst að japönsku kúnnarnir fíluðu ekki svona hvíta stórnefjaða aðskotahluti. Þeir flissuðu yfir því að Óli var mikill klaufi með prjónana og rumdu af vanþóknun yfir bjórþambi aríahyskisins. En hey, fengum mat og smá nippaboozt án verulegs sálræns tilkostnaðar. Ekki slæmt hér í borg. Á leiðinni heim duttum við niður að vestrænan bar sem hét Top Gun. Þetta reyndist frábær búlla þar sem coverband tók við óskalögum og hélt uppi miklu stuði. Þeir sungu smá Muse fyrir okkur og þegar svo einhver útlendingur bað um „something upbeat” í framhaldi tóku þeir bohemian rapsody með miklum tilþrifum, töktum og stælum. Við vorum helvíti ánægðir með þessa vin í eyðimörkinni þótt sumir af okkar snobbaðri löndum hefðu sjálfsagt kallað þetta ömmu sína. Við tókum í höndina á eigandanum á útleið og skjögruðum gegnum steinsteypufrumskóginn í átt að hótelinu. Heim að sofa eins og rottur í búri. Á morgun yrði síðasti dagurinn í þessu malbikaða helvíti. Illu er best af lokið.
Mussuuppeldi
Gas my ass!
Brynmarían
Baldi íhugar frama í lögregluskólanum.
Við vöknuðum glaðir eins og sólskinsdrengurinn Emil. Við erum kannski í Jakarta en við erum að minnsta kosti ekki Svíar. Ekki oft sem realismi iljar manni um hjartaræturnar. Í dag sleppum við næstum örugglega úr steinsteypufrumskóginum. Jai Hó ! Við borðuðum morgunmat með slæðunum á hótelinu og spáðum í hvað framtíðin bæri í skauti sér. Yfir morgunmatnum ákváðum við að taka saman stuttan orðalista yfir það helsta í indónesísku sem við höfðum lært svo að aðrir geti staðið á herðum okkar í sínum eigin leiðangrum.
Apa apa – Hvað! (Mikið notað og lýsir mikill furðu, td. eins og ef þú ert ekki að fara neitt sérstakt)
Apa – Bíddu/ha ? (Minniháttar undurn sem kallar á útskýringu. Viltu 2 bjóra? Vantar þig ekki borvél ?)
Jalan-Jalan – Labba (Sem sagt fótgangandi frá A til B)
Hati-Hati – Keyra (Með vélknúnu farartæki frá A til B. Sennilega gildir þetta líka fyrir ferðalög með asnakerru)
Tidak – Nei/Ekki (Virkar ef indi vill eitthvað frá þér, sem er mjög algengt)
Ya – Já (Virkar ef þú vilt eitthvað frá inda, sem kemur alveg fyrir. Er borið fram nákvæmlega eins og hollenskt JA)
Apa Kapir – Blessaður/Hæ (þýðir bókstaflega what´s up. Hversdagsleg kurteis og hress kveðja)
Ayam – Kjúklingur (Allur kjúklingur hér í indó er free range, lífrænn og rindilslegur. Mussuvæn fæða.)
Bebek – Önd (Óljóst hversu mussuvænt. Aðeins dýrara en Ayam-inn)
Kambin – Lamb (Hér má koma fram að inda-lamb er ekkert síðra íslensku lambi alveg sama hvað Guðni Sækó segir)
Burung Dara – Dúfa
Ulan – Slanga
Apa itu – Hvað er að ? (Eiginlega í þeim skilingi hvað má betur fara ? Viltu til dæmis mótorhjól, borvél eða sígó?)
Bintang – Stjarna (Líka vinsæl en andstyggileg bjórtegund)
Air – Vatn
Kopi – Kaffi
Orang – maður
Orang-orang – fólk
Organg islandia – íslendingur
Orang utan – appelsínugulur api
Bring on the búsáhölds!!!
Í dag var runninn upp dagur jákvæðra breytinga. Myndi Brútus ekki ljóma af gleði þótt hann yrði bara færður úr 9unda víti í það 8unda? Yessör, í dag losnum við úr þessari sturlun og förum til vina okkar harðlínumúslimana í Kúala Lúmpúr. Já, lengi getur vont versnað segir máltækið en sá sem það samdi hafði klárlega ekki komið til Jakarta. Þetta versnar ekki héðan í frá. Ónei, framtíðin er björt. Við vorum samt sáttir. Kominn botn í lífsreynsluna og núll á borgarmælikvarða okkar. Það verður aldrei verri borg en Jakarta. Hún er svo mikill viðbjóður að meira að segja Kópavogur virkar sem ljós í myrkrinu héðan í frá. Sáttir já og meðvitaðari en áður um að svartnætti getur verið dásamlegt ef maður getur sett það í skynsamlegt samhengi. Okkar linu ferðamannarassar iðuðu af hamingju í mjúku leigubílasætunum þar sem við rúlluðum eftir misstífluðum umferðaæðahnútum borgarinnar í átt að flugvellinum. Sloppnir úr frumskóginum, lifandi lífs og meira að segja með fullt af myndum. Djöfull erum við magnaðir landkönnuðir, og við sem féllum ekki einu sinni í mannfræði.
Brallmobile