Eftir óskaplegt ferðalag frá Api-api, gegnum Kuala Lumpur, lentum við dauðuppgefnir á Densaparflugvelli á Bali. Við tók skelfilegt bjúrókratafárviðri en að lokum stóðum við í lobbíinu á dos mille sjette hótelinu okkar þrettán klukkutímum eldri en þegar við lögðum af stað. Nú þurfti Tigah powah meira en oft áður en fljótlega kom í ljós að hér í Indó er engin svoleiðis galdrameðöl leyfð. Bara innlendur bjór sem hefur takmarkaðan heilunarmátt. Við átum indópizzur og sötruðum eitthvað innlent bjórsull með. Þeir verða nú að laga þetta. Búnir að vera hér í nokkra tíma og strax komnir með tillögur að samfélagsumbótum sem myndu færa þessu fólki meiri gleði. Já,meiri tigah fyrir alla! Við fundum þó ekkert fjör svo við lölluðum bugaðir af ferðaþreytu heim á hótel og steinrotuðumst. Það er þangað til klukkan 7 um morguninn þegar Óli hrökk upp við loftbor. Í ljós kom að það voru miklar byggingaframkvæmdir svona 10 metra frá herberginu okkar og þrátt fyrir dos mille lúkkið á hótelinu hafði verið sparað alveg að splæsa í hjóðeinangrun. Baldi er hinsvegar með power off stillingu og drómaði makindalega í ærandi hávaðanum með friðsældarglott afslappaður eins og indversk kú. Eftir að hafa kannað málið óð Óli, pirraður eins og Indefence hópurinn, niður í lobbí og heimtaði nýtt og rólegt herbergi. Indastaffinu brá nokkuð og lofuðu öllu fögru þar til Óli samþykkti aðgerðaráætlun eftir hádegi og strunsaði aftur upp á iðnaðarsvæðið þar sem Þyrnirós lá enn steinrotuð.
Skálað fyrir Steve Irwin
Þegar Lazarus reis núðluðum við okkur á hótelinu og meðan hótelstjórinn græjaði flutning. Niðurstaðan var afsakanir og nýtt herbergi eins og þessar framkvæmdir hefðu komið eins og þruma úr heiðskýru. Nýtt herbergi en með hjónarúmi – nó hómó. Eftir núðl var svo tekið til óspillra málanna að kanna eyjuna. Bali er dálítið úrkynjað fyrirbæri. Óteljandi fullir ástralar ráfa um göturnar bjórsósaðir og gólandi óskiljanlega ensku í bland við innfædda sem gera sitt besta til að selja þeim falsaða merkjavöru nudd eða far á mótorhjóli. Já og talandi um mótorhjól þá hjálpar ekki að ástralarnir eru alveg óhræddir við að leigja sér svona stál-morðtól og rúlla svo um níðþröngar göturnar hálfberir og í vínmóðunni hika þeir ekki við að láta tryllitækið vaða upp á gangstétt öllum öðrum til armæðu og óláns. Þeir hafa klárlega ekki skorið naflastrenginn við sinn tjallauppruna enda upprunalega úr genapolli afbrotatjalla sem bretarnir sjálfir sáu ástæðu til að geyma hinu meginn á hnettinum. Og meira um ástralana því það versta við þá er sennilega að þeir eru upp til hópa mussur! Já, skaðræðismussur sem liggja eins og drómasjúkar blóðsugur á samfélögunum sem þær sníklast á. Við réðumst í greiningarvinnu og skoðuðum mussuna við sína daglegu iðju um nokkra stund. Greining okkar er að best sé að horfa á mussuna gegnum kynjagleraugu til að aðgreina atferli hennar. Karlmussan er íklædd engu nema stuttbuxum, með kuðungahálsfesti um hálsinn og hangir bólufreðin á ströndinni þar sem hann vælir um að hann lofi að klára mannfræði og hvernig hann ætlar að gera heiminn að betri stað þegar hann er orðinn stór. Svo er það kvennmussan, ómáluð með hárið í tagli, íklædd einhverri innlendri hörtusku og í flipp flopp skóm sem gera það að verkum að göngulagið verður kjagkennt eins og hjá orang utan. Hún hangir líka freðin á ströndinni, lofar að klára mannfræði, gefur betlandi börnum sælgæti og talar um hvernig hún ætlar að gera heiminn að betri stað þegar hún er orðin stór. Mussan skapar ekki, hún skemmir. Við mussugreininguna sátum við fálátir á einhverjum free-range organic mussu reggíbar, þar sem berfættar mussurnar snérust um sjálfa sig í dansi sem minnti helst á kött að elta á sér skottið. Skyndilega kom vinkona okkar skáldagyðjan óvænt í heimsókn og útkoman varð mussupirringslag:
Mussulagið (syngist við Buffalo soldier með Bob Marley)
Skaðræðis mussa, pabbi borgar,
ég er gagnslaus mussa,
reyki stuð á ströndinni,
ég féll í mannfræði,
ég kaus vinstri græna,
er þetta free range hæna ?
Ég meina,
ég hef verið að pæla,
við verðum jörðina að kæla,
en pabbi þarf að borga,
ég er heiladauð mussa,
ég þrái heiminum að bjarga,
ég féll í mannfræði,
ég kaus vinstri græna,
er þetta free range hæna ?
Engin hætta á helvíti
Eftir mussugreininguna vorum við komnir með gult spjald frá Bakkus. Við pöntuðum okkur þó einn svartan rússa á bráðskemmtilegum kareokibar þar sem raddlaus inda frontaði coverband og tók hverja Celen Dion lummuna á fætur annarri með miklu kappi en lítilli getu. Baldi varð svo hress við rússann að hann fékk lagamöppuna og hefði sjálfsagt tekið lagið ef ekki hefði komið í ljós að staðurinn bauð eiginlega bara upp á Celen, Whittney og þeirra líka. ” Do you know steel and knife ?” spurði Baldi induna sem kom að sækja lagamöppuna. “You know, with Búbbi ?”. Indan muldraði eitthvað óskiljanlegt í afsöknunartón áður en hún tók til fótanna. “How about, I never went south?” kallaði Baldi á eftir henni. Við mátum stöðuna og hún kallaði á að fara heim að sofa.
Minnisvarði um sprengdar beikonætur
Næsti dagur var nokkuð erfiður enda við með Byr-skammt af gleðiskuldavafningum. Við tókum okkur taki og fórum í rannsóknarferð eftir ströndinni og fengum staðfestingu þess að hér væri fátt annað en mjög staðlað strandstuð. Við höfum verið ansi kvikir í þessu ferðalagi svo frekar en að fara að græja brottför daginn eftir ræddum við við hótelfólkið um að framlengja um tvær nætur svona til að gefa okkur ráðrúm til að plana næsta múf. Hótelfólkið var elskan uppmáluð og eftir græj fundum við okkur lounge barinn Nero og sátum þar við ritstörf og ferðaplönun í rúma fimm klukkutíma. Þá var kominn tími á fótbolta svo ákváðum að skipta úr lounge mode yfir í eitthvað aðeins víraðra. Ekkert mál og stuttu síðar sátum við á þungarokkssportbarnum Heaven og glápum á boltan við undirleik Alice in chains, Rage og Metalikku sem yfirgæfði meira að segja helvítis afrísku fótboltalúðrana. Eftir leikinn voru við orðnir pínu svangir aftur og kíktum í götugrill og núðluðum okkur Halal með innfæddum. Helvíti fínt en þar sem við sátum yfir matnum byrjaði að rigna. Rigna er kannski ekki alveg rétta orðið. Þetta var meira eins og guð hefði hent í okkur sundlaug. Niagra, syndaflóð og tsunami. Þetta var algjör bilun og á 10 mín breyttust götunar í fljót og það leit út fyrir að vera raunhæfur möguleiki á að drukkna við að hlaupa milli húsa. Við biðum á útibúllunni í svona klukkutíma en þá fannst okkur sem aðeins hefði dregið út flauminum svo það var núna annað hvort að reyna að hlaupa heim eða hefjast handa við að byggja örk. Við skutumst eins og vatnsskelfdar rottur milli skjóla og urðum holdvotir á nótæm. Þegar við loksins komumst heim á hótel var ekki þurr þráður á okkur enda rigningin kraftmeiri en meðal heimilissturta á íslandi. Við sátum agndofa á svölunum um stund og ræddum hvort komið væri að gjalddaga fyrir beikonétandi heiðingjana eða hvort Mummi myndi miskuna sér yfir þeim aðeins lengur. Að lokum liðum við inn í draumalandið þar sem við sungum Umbrella með poppprinsessunni Ríönnu og Bubba í kareoki.
Umbrella Ella Ella Ei!!!
Næsta dag var hætt að rigna en helvíti á sér mörg birtingarform. Hótelsíminn hringdi um morguninn og okkur var tilkynnt að fjarveru okkar væri óskað og eigi síðar en klukkan 12. Bjánarnir á hótelinu höfðu ekki skráð niður framlenginguna okkar og herbergið hafði verið selt á netinu. Þvílíkir aular. Það vinna svona 10 manns í lobbíinu en það er til lítils að hafa marga meðvitundarlitla í vinnu þar sem fattarinn skiptir máli. Þau voru svo sem ægilega leið yfir þessu en það hjálpaði okkur lítið. Við græjuðum annað hótel með snari en heildarferlið á þessu klúðri tók lungað af deginum. Mikið mikið pirrandi og ekki það chill sem við stefndum á hér. Við lágum í tölvum þennan daginn og ákváðum þegar stússinu slotaði að þetta væri lítil paradís og það hálfgerðir fals-asíubúar sem hana byggja. Því var ákveðið að fara á frumstæðari Indóeyjuna Lombok, þar sem Mummi ræður ríkjum. Já skítblönk frumskógarparadís með sanntrúuðum. Hljómar betur en mussumanían hér á Balí. Eftir núðlun var farið snemma í háttinn til að vera sprækir fyrir komandi flug. Við snérum okkur í austur og fórum með stutta ferðabæn fyrir svefninn. Þetta er svo sem búið að vera ágætt stuð hér á Balí en maður má ekki láta gleðigyðjuna teyma sig af þröngu einstigi hins dygga landkönnuðar. Á morgun er annar dagur og önnur og betri asía til að bralla sig í innan seilingar. Já, hann er mikill !!!