Ferðalagið til Borneo var talsvert fyrirtæki. Við flugum gegnum Manila frá Cebu, skiptum um flugvöll og aftur upp í Cebu Pacific flugvél (með flugbingói og öllu) og yfir sundin blá til Kota Kinabalu sem heitir á frummannætísku Api-Api. Ahh, komnir til Mannátssíu að hitta alvöru asíubúa. Við iðuðum í skinninu þar sem við marseruðum inn í spartanska flugvallarbygginguna og eftir vegabréfstékk bar æsingurinn okkur ofurliði og við valhoppuðum í átt að leigubílaröðinni raulandi nýja mannætulagið sem við höfðum samið í flugvélinn á leiðinni.
Mannætulagið (syngist við Bad Romance með Lafði Ga-Ga)
Oh-oh-oh-oh-oooh!
Oh-oh-oh-oooh-oh-oh-oh!
ég er mannæta,
Oh-oh-oh-oh-oooh!
Oh-oh-oh-oooh-oh-oh-oh!
ég er mannæta
Bo bo Borneo,
ma ma mannæta,
Tigah. oo-la-la,
ég er mannæta,
Ég vil á þér lærið,
ég vil augun þín,
ég vil að þú sért máltíðin mín,
ég vil borða þig,
namm namm namm
ég borða þig
Ég vil grilla
þitt fagra skinn,
og setja hausinn á arininn,
Oh-oh-oh-oh-oooh!
Og þú veist
ég borða ekki svín,
En ég mun sakna þín
Oh-oh-oh-oh-oooh!
Oh-oh-oh-oooh-oh-oh-oh!
ég er mannæta,
Oh-oh-oh-oh-oooh!
Oh-oh-oh-oooh-oh-oh-oh!
ég er mannæta
Hótelið okkar reyndist prýðilegt en við höfðum valið mjög ódýra lausn í þetta skiptið til að vega á móti misheppaða lúxusinum í Cebu. Eftir tékk-inn var farið í fóðurleit og fljótlega kom í ljós að í Kota Kinabalu er mikil og blómleg veitingastaðamenning sem var kærkomin breyting frá Cebu. Já þeir eiga klárlega fína matarmenningu þessar mannætur. Við völdum okkur indverskan stað við ströndina og pöntuðum matarpakka sem hefði dugað til að fóðra Gangesdalinn og skoluðum herligheitunum niður með Tigahbjór. Það urðu mikil fagnaðarfundir við að hitta vin okkar Tigah aftur og við gleymdum okkur í alsælu um stund. En spennan að skoða mannæturnar í sínu náttúrulega umhverfi varð brátt nægjuseminni yfirsterkari og við tókum skoðunarrölt um miðbæinn þótt klukkan væri orðin frekar margt. Óli tók sér nafnið Óló Pólo og Baldi nafnið Blam Blammstrong. Betra að vera með svona landkönnuðarnöfn hér á Borneo til að styggja ekki innfædda með flóknum ókunnuglegum nöfnum. Borgin reyndist óttarlega tamin. Mannæturnar voru yfirleitt snyrtilegar og vel upp aldar. Ekki bara það heldur sátu þær flestar límdar fyrir framan imbann að horfa á HM í fótbolta. Að vísu ekki drukknar að enskum sið heldur þambandi te og gólandi einhverja mannætusöngva. Talsvert var líka um að þeir væru að borða eitthvað þarna um miðja nótt úti á götu og við ályktuðum að sennilega væri þetta bara meinlaust kjúklingaát. Ljóst var amk að þetta var ekki grís því hér ræður Mummi ferðinni og því landið laust við beikon og flestir veitingastaðirnir hafa hangandi uppi vottorð þess efnis að kjötið sé rækilega halal-myrt og ekkert kindabyssu/rafmagnsrugl í gangi. Við sáum amk ekkert mannakjöt á matseðlinum en við erum ekki sleipir í mannætísku svo ætli við verðum ekki skrifa kannski á mannakjötið. Niðurstaða þessarar vetvangsrannsóknar okkar var að mannæturnar eru klárlega orðnar harla sívíliseraðar sem hefur auðvitað líka sínar björtu hliðar eins og fyrirmyndar framboð á Tigah bjór er merki um. Það væri þó spælandi ef þeir hefði misst asíuna í sér fyrir góðan bjór, ekki satt ? Við fórum heim á hótel að sofa en vissulega gætti dálítillar óeiraðar svefninum vegna áhyggja um að vinir okkar mannæturnar hafi fallið fyrir gjöfum hlöðnum grikkjum.
Við vöknuðum með morgungleði hins káta skáta. Út að skoða mannæturnar í dagsljósi. Við tókum gríðarlanga skoðunarferð um miðbæinn í brennandi miðbaugssólinni. Niðurstaðan var að steinsteypumannætan er frekar óspennandi karakter. Sívíliseruð eins og eitthvað útúr Jane Austin bók og hugsandi um það eitt að þéna Mýrdal (gjaldmiðillinn hér) og þá helst af hvítingja. Mjög afbrigðilegt er hinsvegar að steinsteypumannætan hlustar BARA á 80´s tónlist. Ekkert nema Rick Ashley og rugl útúr öllum hátölurum. Okkar kenning er að þetta sé því Brittney og svoleiðis nýmóðins skinnkutónlist sé stútfull af nekt og holdlegum lýsingum sem gætu virkað svona eins og óbeinar reykingar á mannætu sem er að reyna að hætta og skipta yfir í kjúkling. Borgin er líka stútfull af áströlum og musslendingum (svíjum) svo mannfræðilega er hún álíka áhugaverð og Garðabær. Í vísindaferðinni fundum við hinsvegar ferðaskrifstofu sem seldi ferðir að skoða frumskógamannætur – sem eru jú þeir frum-asíubúar sem við höfum raunverulegan áhuga á svo við splæstum í svona ferð og gengum iðandi af tilhlökkun út í miðbaugsólarlagið. Eftir smá tigahboozt og kvöldmat gláptum við á tjalla keppa í fótbolta við slóvena. Við héldum gríðarlega á móti tjöllunum enda þeirra glitrandi perlur búnar að valda vosbúð flestra vina okkar hér í asíu. En Mummi sá miskun á tjallanum og vondi vann. Hverjir erum við svo sem til að draga í efa hið stóra plan Allah svo við fengum okkur bara smá meiri Tigah og svo heima að sofa. Við liðum inn í draumalandið þar sem við í strápilsum stigum sigurdans kring um Rooney í mannætupotti með vinum okkar frumskógarmannætunum.
Við vöknuðum hressir eins og Indriði á skattanefndarfundi. Ahhh, frumskógarmannætudagur. Við stóðum iðandi í skinninu í hálftíma í eldheitri mannætusólinni áður en sjúskaður sendiferðabíll pikkaði okkur upp. Mannætur jú, en fyrst að pikka upp nokkra ástrala til að fylla í hópinn. Frumskógarmannæturnar reyndust alveg æði. Ef við væru ekki tölvunörd og sáli þá myndum við vilja vera frumskógarmannætur. Maður spókar sig í frumskóginum, bruggar hrísgrjónaboozt, vefur sér mannætusígó, grillar fólk og mangó í bambusstautum og chillar svo með hinum mannætunum í svona frumskógabaðstofum. Ef þetta er ekki nóg þá getur maður leikið sér á bambustrambólíni eða látið flúra sig pínu. Nú eða maður tekur daginn í að búa til vopn og mjólka snáka ef maður er í þannig stuði. Fjölbreytt og spennandi líf ekki satt ? Sjálft mannætudjobbið er svo bara að hanga úti í skógi og leita að vitlausum hvítingja til að ná af honum hausnum sem maður getur svo skipt á og mannætustelpu. Já, þetta virkar ekki amarlegt líf. Eftir mannætuferðina vorum við svo uppveðraðir að við fórum og keyptum okkur fötu af sérstakri afmælisútgáfu af Tigah sem nefnist Tigah crystal. Yfir súpertigahinum ræddum við upplifun dagsins. Mikið værum við til í að vera frumskógarmannætur en að sama skapi langar okkur lítið að vera steinsteypumannæta. Við sátum við crystal drykkju fram að miðnætti en röltum þá heim á hótel. Á morgun er förinni heitið til Indónesiu í smá strand chill. Api-api á Borneo hefur verið ljómandi þannig séð en við höldum að það sé meira hardcore asiu að finna hinu megin við miðbaug. Þar iða 240 milljónir asískra trúbræðra okkar í stanslausu asíustuði. Við viljum helst hitta þá alla þótt þeir borði hvort svín né menn.
Óló Póló æfir sig á mannætuvopni
Hvítur kjáni
Mannætustelpur mannætudansa