Hvar er draumurinn, hvar ertu Lviv-in sem ég þráði ?
Hvar er draumurinn, hvar ertu Lviv-in sem ég þráði ?

Hvar er draumurinn, hvar ertu Lviv-in sem ég þráði ?

IMG_1627.jpg
Lestartjill

Á lestarstöðinni í Lviv dundu hermarsar til að stappa stálinu í ferðamennina.  Við véluðum leigubílstjóra sem ferjaði okkur á hótelið. Bara allt eins og í sögu.  Við sáum þó strax að Lviv er sko alls ekki eins og Kiev.  Allt svona minna og fátækara hér.  Hótelið okkar vildi svo ekki tékka okkur inn klukkan 9 um morgun svo við tókum bara nokkra klukkutíma labbitúr um borgina og fengum og morgunmat.  Eftir tékk-inn sofnuðum við óvart í nokkra tíma enda hafði svefninn í lestinni verið frekar óstöðugur, mikið brak og ískur enda lestin mikið antík.   En að síðdegisblundi loknum risum við eins og Tumi við hanagal og tókum til óspilltra málann að kanna Lviv.

Lviv er mjög rík af gömlu grjóti.  Allt er þó hér aðeins minna og meira lummó en í Kiev og allan stórfengleika vantar á borgina.  Hér í Úkraínu er svo enginn dreifbýlisstyrkur og innfæddir eru líka sjáanlega mun blankari en liðið í höfuðborginni.  Lviv er eiginlega svona Akureyri þeirra Úkraínumanna.  Hér virðist líka engir útlendingar koma og þeir fáu sem við sáum virtust vera aldraðir Kanar, væntanlega í pílagrímsför að skoða ræturnar.  Innfæddir hjálpa svo ekki ferðamennskuuppbyggingu í borginni því þeim er meinilla við aðkomufólk, alveg eins og Akureyringum.  Þjónusta er mjög torsótt og þótt iðulega standi skarar af þjónum á öllum veitingastöðum er það eins og maður sé að snúa upp á hendina á þeim þegar maður biður þá um eitthvað.  Úkraína hefur jú verið hersetin meira og minna síðan Scytar voru þarna í fornöld svo það er kannski ekki skrítið að þeir séu svona ömurlega xenofóbískir.  Brennt barn forðast jú eldinn, nema í Azerbaijan.

IMG_1630.jpg
Hótelið okkar

Við borðuðum ramm-úkraínskan sveitamat og kíktum svo að bar í kaffi og kokteil.  Hér í Lviv er götufylleríið ennþá vinsælla en í höfuðborginni og fólk fer jafnvel með börnin sín á bekkjafyllerí.  Við ákváðum að fara í pool og náðum með harðfylgni að fá afgreiðslu.  Á slaginu 12 slökkti svo bara staffið ljósin og geim óver.  Allt var stopp nema auðvitað bekkjamótin úti á götunni sem stóðu í miklum blóma.  Við vorum í gríðarlegu poolstuði svo að við í valdi hins almáttuga Úkrs (gjaldmiðillinn hér í landi) réðum okkur leigubílstjóra til að skutla okkur á hótelbar þar sem mætti spila ballskák.  Barinn reyndist risavaxið hanastélsmustri sem gæti hýst nokkrar fermingaveislur samtímis en á þessu föstudagskvöldi stóð það bara autt. Nei, frekar detta í það á bekk í faðmi fjölskyldunnar er mottóið hér.  VIð spiluðum pool þar til kominn var klár sigurvegari og svo heim á hótel.

IMG_1629.jpg
Blaðberi frá Sovíettímum

Við tókum næsta dag í frekari skoðun en hér er fátt að sjá annað en kirkjur, gosbrunna og styttur.  Búnir að sjá fullt af svoleiðis áður.  Við tókum þó eftir að hitt kynið var engan veginn jafn skvísað og í Kiev.  Sætu stelpurnar allar farnar austur til höfuðborgarinnar, alveg eins og þær fóru suður frá Akureyri.  Við settumst um eftirmiðdaginn á bjórknæpu og ræddum daginn og veginn.  Skyndilega kom skáldagyðjan í heimsókn og til varð tregafull dreifbýlisballaða.

Aldrei fór ég austur (syngist við Aldrei fór ég suður eftir Bubba Morteins).

Þegar ég var rétt orðin 17,
var ég ljóshærð með vel-sköpuð hné,
og strákarnir snérust í kringum mig,
eins og vel skreytt jólatré

Á akrinum vinn ég alltaf,
kartabblan er lífið hér,
en í þessu er engin framtíð,
því Bentley og Prada fer mér

Margar falskar töskur,
Hrundu sundur út um allt,
Kannski áttu allir ekta,
En ég átti aldrei neitt svo svalt,
Grönnu stelpurnar fóru í lestina,
En ég þoldi ekki að vera svöng,
Traktorinn keyrði mig aftur á akur,
Ég döpur þjóðlög söng,

Olga hringdi í morgun,
Bauð mér í heimsókn til Kiev,
En uppskerubrestur og rifinn kjóll,
Því verð ég að vera í Lviv

Aldrei fór ég austur,
Alltaf mig skorti fé,
Í Lviv ég var aðal merkjaskvísan,
En Kievskinkum náði bara í hné,

(viðlag)

Dagarnir urðu margir,
Ég nú kroppinbakur er,
Fæturnir orðnir sem hófar,
Ei í Pradaskó aftur fer.

(viðlag)

Við gerðum veika atlögu að Lviv-sku tjútti en bekkjadrykkja henntar ekki aðkomumönnum hér auk þess sem við áttum stefnumót við rútu daginn eftir svo við fórum í háttin um miðnætti.  En næsti dagur var dagur þrautseigju, harðræðis og viljastyrks.  Við vorum búnir að rannsaka hvernig væri best að komast til Krakow, sem er næsti áfangastaður, 350 km í burtu.  Svona eins og Blöndós frá Reykjavík.  En, VÁ!!, þvílíkt vesen.  Lestirnar taka 9-20 klukkutím því sporin eru misbreið milli Póllands og Úkraínu.  Við nenntum því ekki.  Hin leiðin er að taka rútu en ekki fékkst upp gefið hvað það tæki langan tíman.  Við ákváðum að taka sjensinn á rútunni Lviv-Pryzlna og þaðan lesti til Krakow.

IMG_1632.jpg
Verkamannahvíldarstöð

Fyrst fórum við á vitlausa rútustöð.  Örugglega algengt vandamál hjá lesblindum.  Svo leigubíll þvert yfir allan bæinn og með nokkru láni fundum við rútugarminn, sem sjálfsagt var herfang Rauða hersins úr seinna stríði.  Það voru svona 10 manns í rútunni.  Við vorum ógeðslega glaðir.  10 manns að fara 80 km, hvað getur það tekið langan tíman?  Rútan lagði vissulega sitt af mörkum til að tefja ferðina en kemst þótt hægt fari.  En 100 metra frá landamærunum dundi ógæfan yfir.  Rútan stoppaði óvænt og inn óðu 20-25 sauðdrukknir sígaunar hlaðir af sígarettum og búsi sem þeir ætluðu væntanlega að selja í Póllandi.  Landamærasígarettusígaunasmyglsklíka mætt til að gera landamæri Úkrainu og Schengen óbærileg fyrir okkur.  Okkar menn voru líka ákaflega grunsamlegri og taugaveiklaðir og hefðu væntalega allir farið í lax ef þetta hefði verið Keflavíkurflugvöllur. Einnig var sérkennilegt að rútunni var ýtt af úkraínskum hermönnum yfir landamærin frekar en hún keyrð eins og vinsælt er með rútur annarsstaðar.  Við vorum sammála um að þetta væri væntanlega einhver evrópureglugerð og rútan teldist kannski ekki rúta innan Schengen ef hún væri ekki gangi þegar hún færi yfir landamærin.  Við löbbuðum samhliða rútunni með okkar fríða föruneyti yfir Úkraínsku landamærin, yfir eitt tímabelti og því svona back to the future beint í fangið á pólska tollinum.  Þremur tímum síðar, eftir að búið var að bókstaflega skrúfa sundur rútuna og leita í öllum f
arangri ferðamannanna stóðum við í Póllandi og sígaunaklíkan hoppaði gólandi úr rútunni, núna ennþá fyllri og miklu stuði. Við vorum sammála að Schengen væri sko engan veginn að virka ef þetta hyski sleppur hér í gegn og það kannski oft á dag.  Hann þarna Ramses hefði kannski átt að koma í gegnum Úkraínu frekar en Ítalíu.  En ferðalaginu var sko ekki lokið ennþá.  Næst tók við lestarferð en þar sem við bara rétt náðum lestinni var ekkert nesti.  “245 km, iss, hvað getur það tekið langan tíma í svona flottri pólskri lest?”  Um 5 klukkutímum og hálfri geðheilsunni síðar fórum við að eygja úthverfi Krakow.  Við vorum ekki búnir að borða í 24 tíma og farnir að líta flugurnar á rúðunni hýru auga.  En í Krakow er örugglega nógur matur, mjúk rúm og næði til að endurheimta hugarrónna eftir þetta djöfullega ferðalag.  Lestin rann mjúklega inn á vestræna lestarstöðina.  Nú er kominn tími á smá lúxus, bjór og kartabbla.

IMG_1633.jpg
Smyglrútugarmurinn

One comment

  1. Snorrissimo

    Skemmtilegar ferðasögur. Þið eruð góðir ef þið sleppið heim án einhverra sjúkdóma miðað við klósettsýnishornið í annarri færslu. Sakna þess að sjá ekkert skiltadjók. Þið kannski hafið opin augu fyrir svoleiðis. Stay out of Georgia
    Kveðjur, Snorri

Leave a Reply