Svefndrukknir og með galtómt augnaráð stóðum við í flugvallarmóttökunni í Kiev. Gargandi fuglabjarg leigubílstjóra, leiguíbúðamiðlara, betlara og annarra háværra Úkraínumanna tók á móti okkur. Við börðumst vasklega gegnum mannskarann og út í rútu sem við vissum um. VIð erum komnir þetta langt órændir svo við förum ekki að byrja á því núna. Rútan skilaði okkur á aðallestarstöðina og við tók leigubílahark. Að okkur vitandi er engin skipulögð leigubílastarfsemi í Úkraínu, bara frístundaharkarar með taxaskilti á frönskum rennilás. Við sömdum við feitlaginn harkara sem vissi reyndar ekki alveg hvert hann var að fara auk þess sem af honum var nokkuð megn áfengislykt, en hann var ódýrari en hinir gaurarnir. Loksins komumst við á hótelið þar sem við tékkuðum okkur inn í snatri. Klukkan var orðin fimm og við vorum glorsoltnir og svo það var bara strax út aftur í leit að mat. Við ráfuðum í klukkutíma um risavaxin breiðstræti Kiev. Að lokum fundum við ákaflega þjóðlegan úkraínskan veitingastað þar sem Baldi snæddi kalda agúrkusúpu og nautatungusalat meðan Óli hámaði í sig borsht og sveita-dömplinga. Til að létta okkar lund yfir matnum var svo boðið uppá úkraínska söngva og dansmynd, keimlíka þeirri sem hafði verið í flugvélinni en aðeins meira fyllerí og hamagangur. Önnur óskiljanlega söngvamyndin á einum sólahring. Eftir matinn var slokknað á radarnum svo við villtumst heiftarlega. Allt er jú hér á kýrilísku svo þetta er sjálfsagt eins og að vera lesblindur. Já, öryrkjar í framandi landi. Eftir svona 2,5 tíma labb var komin dálítil örvænting í okkur en þá dró Baldi skyndilega upp Nokia E51 símann sinn, líkt og Artúr konungur Excalibur úr steininum forðum, og spurði Merlin maps um hvar við værum. Véfréttin veit alltaf og við náðum áttum og fundum aftur hótelið. En eftir hrakfarir dagsins var ákveðið að leita sálfræðimeðferðar hjá Bakkus svo við skelltum í okkur nokkrum bjórum til að slá á mestu sálarangistina fyrir svefninn. Þegar lemstraðir líkamar okkar komust loksins uppí rúm hvarf meðvitundin eins og Habib yfir blindhæð og við liðum inni í draumalandið þar sem við skipulögðum næstu 5 ára áætlun með Stalla og Lenna.
Hálfvilltir í úthverfi
Fyrsta verkefni næsta dags var að skúra okkur. Við höfðum ekki þorað í bað síðan í klaustrinu góða í Riga þar sem sóðaskapur Azera einskorðast ekki bara við klósettklúður og náttúrumisþyrmingar heldur er neysluvatnið gróðrarstýja lifrarbólgu A-Ö, taugaveiki, lömunarveiki, stífkrampa og óskemmtilegra einfrumunga svo eitthvað sé talið. Við litum því út eins og tvö íslensk eintök af Róbinson Krúsó, og þá sko ekkert svona sápaðar survivor útgáfur. Stífbónaðir og lyktandi eins og ítalskir tískuhommar segja okkur að lykta héldum við út að kanna Kiev.
Kiev er algjör steypugeðveiki. Hún er svona eins og London og faxafeninu væri skellt saman í eitt. Tröllvaxinn arkítektúr en skipulagslaust eins og kosningar í Zimbabwe. Vissulega er borgin hin glæsilegasta og ljóst að Stálmennið hafði hér hönd á bagga. Allir búa í vel-sovéskri blokk í úthverfunum en í miðbænum eru götunar hannaðar fyrir hersýningar. Það mætti leikandi létt láta Rauða herinn marsera þarna í gegn án þess að veruleg truflun hlytist af. Kiev er því bæði gríðarlega víðfem og um leið sérstaklega torrötuð.
Við enduðum upp í einhverskonar Breiðholti eftir amk 20 km labb en grísuðum þar á gríðarfínan veitingastað þar sem við tróðum okkur út af innlendri kúsinu og georgísku víni. Lappalausir en sælir ákváðum við að taka neðanjarðarlestina aftur í bæinn. En hér erum við jú lesblindir 60% aumingjar svo hvernig áttum við að vita hvert ætti að fara? Að ganga heim var úr mynd og allir leigubílstjórar glæpamenn. Þá fékk Baldi snilldarhugmynd. Þar við stóðum á lestarpallinum tipplaði fáránlega mikið uppstríluð partýskinka inn á pallinn og tók sér ákveðin stöðu hjá einni línunni og kveikti sér í Vogue sígarettu. “Óli, þessi stelpa er sko ekki á leiðinni heim”. Við eltum skvísuna og viti menn, 10 mínútum síðar gengum við uppúr metróinu beint fyrir framan Bentley umboðið.
Kiev-verjar eru sérkennilegur þjóðflokkur. Þjóðaríþróttin er að sýna sig og sjá aðra og þá helst umvafinn falsaðri merkjavöru. Kvennþjóðin er alveg með ólíkindum lagleg og vinnur sjáanlega mjög mikið í því og spéhræðsla tíðkast ekki. París Hilton er hér fyrirmyndin frekar en hin sóvetska verkamanna babúska. Við vorum sammála um að hvergi höfum við séð annan eins búkfríðleika fegurra kynsins. Íslendingar fara oft hátt með fegurð sinna fljóða en þær eru sem hópur eins og holdsveikrarskrúðganga miðað vð prada-puntaðar partískínkur Kiev. Kallarnir eru kannski ekki ljótir en þeir sleppa sér sjáanlega oft í mati og víni og eyða heldur ekki peningunum sínum í föt. Þeir eyða sínu í bíla og oft sáum við sofandi kartöbblustrák í lúxusbílnum sínum sem þeir keyptu væntanlega frekar en íbúð. Það sem skemmir svolítið lúkkið á þessari fegurðar- og bílavelferð er að meðalmánaðarlaun í úkraínu eru víst um 50$ svo að “Þykkvabæjar-parísar og Þykkvabæja-hnakkar” drekka bara sjoppubjór á útibekkjum eins og útigangsmenn fram á nótt. Já, “kartöbblur úr kænugarð, eru bekkja-rónar”. Við tókum ótal stikkprufur á mannlífinu en vegalengdir héldu aftur af okkur svo bara heim á hótel að hvíla lúin bein. Þetta var ekki minna en 30 km dagur.
Hótellobbíið okkar.
Næsti dagur var hálf ræfilslegur. Í okkar íslensku tilveru ýtum við engu þyngra en mús svo að 50 km labb á tveimur dögum særir og slítur okkar linu hvítu líkömum. Plástrar og bólgueyðandi í dag. Við litum á internetkaffi og spurðum véfréttina hvar væri gaman að fara í Kiev og hún gaf okkur svar og við gerðum plan. Fyrst samt á georgískan veitingastað, nautarifbein með kartabbla, kryddsúpa og meiri dömplingar. Þeir kunna þetta þarna í Georgiu þótt þeir kunni kannski ekki margt annað. Eftir mat og leigubílahark fórum við að ráði véfréttarinnar og fórum á Shooters bar. Þar var víst girls night svo okkur var vísað á annan bar á efri hæðinni. Ljómandi fínn staður. Á miðnætti brustu allar flóðgáttir en þátt máttu augljóslega stelpurnar fara milli hæða. Þvílíkt Cavalli-skinkusalat. Þegar friðurinn var alveg brostinn á efri barnum kíktum við niður. Þar var allt vitlaust og óteljandi villtar úrkaínskar partýskinkur stigu fáklæddar dans við undirleik DJ Lada. Á milli skvísanna liðu svo einstaka miðaldra útlendingar og káfuðu á stelpunum og reyndu að fá þær til lags við sig með klaufaskap sem minnti á skólaball í 8.bekk. Það voru engir kartöbblustrá
kar hér og okkur hafið bara verið hleypt inn því við vorum útlendingar. Þetta var ekki okkar sena svo við tókum einn drykk á efri barnum og ræddum misskiptingu auðs og samskipti kynjanna. Á leiðinni út hittum við dapra, uppstrílaða kartöbblustráka sem fengu ekki inn en redduðu hjálpfúslega okkur skinkulausum útlendingunum leigara. Mjög spes kvöld.
Blammo ferðafær
Við vöknuðum frekar snemma til að græja brottför. Orðið gott af Kiev. Við ætlum til Lviv í leita að minna búrgesaðri austantjaldstilveru. Dagurinn fór satt að segja allur í endalaust labb. Við löbbuðum á lestarstöðina, lentum í hraðbankahremmingum og höfðum svo góða 8 tíma sem auðvitað endaði í labbi eins og allt annað hér í Kiev. Að lokum stóðum við fyrir framan lestina sem ferjar okkur í paradís verkamannsins, fyrrum höfðuborg Póllands og vetvang óteljandi miðaldarvopnaskaks. 12 tíma lest og mjúk koja. Schlafwagenmeisterínan bauð okkur góða nótt og undir rússneskt dubbuðum áróðri Al Gore svifum við inn í draumalandið þar sem við ásamt Leonídasi og hans 300 spartverjum vörðum pradaskóbúð frá hjörðum útsölutrylltra partískínkna.
Það gleður mig að fá loksins fréttir úr Gúlaginu.
Gott að þið hafið komist hjá árásum, ránum og alvarlegum sjúkdómum. Áfram góða ferð!