Frelsisstyttan
Skjálfandi eins og hórur í kirkju stóðum við á rútustöðinni. Dimitri nokkur hafði skutlað okkur þangað eftir að við vöktum hann af værum blundi fyrir utan lestarstöðina í Tallinn. Dimitri var klárlega reyndur maður og hafði ýmsa fjöruna sopið en við fúlsuðum við gylliboðum um að skutla okkur á hjara veraldar fyrir allar heimsins evrur. Þarna stóðum við eins og dæmdir menn á leiðinni í fallöxina. Ríga, graftarkýli austur Evrópu, en þangað þurfum því öðruvísi kemst maður ekki til Baku. Við ætluðum með lest eins og siðvandir menn en Evrópusambandið vill klárlega grafa gjá milli Eista og Letta svo rúta var það heillin. En vá! Þetta var sko enginn Sæmundur. Hansa Businessclass rútan var með þjóni, bókasafni og þráðlausu interneti. Dekrað var við okkar ferðamannarassa. Þetta rifjaði upp minningar um tyrkneska rútumenningu, handmysu og hvernig Allah hafði snúið sanntrúuðum í átt að rútunni. Í þessum leðurlúxus svifum við í átt að gyllinæðarhnúð Eystrasaltsins.
Riga er sögð ógeð en við ætlum í klaustur. Við fylgdum okkar þaulskipulögðu lendingaráætlunum til hins ítrasta og Allah þóknandi stóðum við árekstrarlaust í lobbíinu og nunnan tékkaði okkur inn. Vissulega er þetta musteri eplaguðsins en sanntrúa þurfa siðferðislegt skjól og hér Ekes Konvent erum við öryggir gagnvart siðsjúkum Lettum.
Domini cristi padreeee……
Lettinn snýst í kvöld (syngist við lagið Lion sleeps tonight)
Á sóðabarnum
Á súlustaðnum
Snýst lettnesk kartabbla
Í rauðu hverfi
í löggugervi
Snýst lettnesk kartabbla
Vúúhúúúúúúúú úhúúúúhú Lettinn snýst í kvöld….
Vúúhúúúúúúúú úhúúúúhú Lettinn snýst í kvöld….
A vimmavei A vimmavei A vimmavei…….
Við kíktum út og tékkuðum á menningunni, hittum afvegaleidda Norðmenn og Finna og reyndum að snúa þeim til rétts vegar en án árangurs. Riga er kannski ekki alveg eins klikkuð og google sagði, þetta bara svona meira eins og Oslo. Hér er alveg hægt að vera til fyrirmyndar ef maður er til dæmis bara í klaustri. Skírlífi, kvöldbænir og góðtemplaralegur hugsunarháttur gerir sanntrúaða réttsýna hér eins og annarstaðar. Þótt einhverstaðar þjóri tjallar í giftingarhugleiðingum endalaust brennivín eru það ekki sovíetvinir enda koma innfæddir fram við þá eins og þeir séu með fuglaflensu. En estónískar frelsishetjur frá Íslandi? Gemmér Lat! Aldrei hefur verið svo hár múr að asni klifjaður gulli komist ekki yfir hann, hvort sem sá múr er siðferðislegur, félagslegur eða bara raunverulegur. Í valdi Latsins þaulkönnuðum við bæinn. Með lattið í hendinni skoða ég bæinn minn!
Riga ætti eiginlega að heita Nýríga. Bílaflotinn gefur það til kynna að hér flæði allt í peningum og á milli glerhúsamallana valsa uppstrílaðar skrautljóskur og byrgja sig upp af lúxusvarningi. Ótal spilavíti prýða götumyndina og ljóst er að enginn ræður sko enginn gamli góði Villi, frekar þá svona villti tryllti Villi. Kannski eru Lettar bara svona heppnir í spilakassa? Nú, þegar allir eiga svona mikið af peningum verður allt svo dýrt. Það er keisið hér í Nýríga og ljóst að verkastéttavinir eins og við eigum ekki heima hér meðal siðspillts auðvaldsins. Við viljum í suðaustur eins og sannir Sovíetvinir. Lettar voru aldrei almennilega memm í Sovíetpælingunni og notuðu fyrsta tækifæri til að hlaupast undan merkjum.
Eftir stutt menningarsmakk með skynsemiskeim var næsti dagur tekinn í lettneskan ratleik. Eftir lágmark 20km ráp um Nýríga sögðum við stopp, fengum okkur steik, og sóttum svo allt okkar hafurtask í klaustrið. Riga reyndist engan veginn sú menningarrotþró sem hún er sögð, að minnsta kosti ekki ef maður er í klaustri. Meira að segja Lonely Planet virðist vinna í því að leggja Letta í einelti. En þetta er prýðilegt fólk svo framarlega sem enginn er Bretinn. Með strangheiðarlegum og Pollíönnuglöðum leigubílstjóra brunuðum við á flugvöllinn. Nýríga hafði reynst mikil prófraun á félagsnæmni okkar. Hvað vakir fyrir mönnum að rægja svona útrásarþjóð sem remdist við að skaffa sér Levi’s og Pepsi eftir Sovíetdrauminn. Er það kannski þannig að fólk fer til saklausra landa, hegðar sér eins og Breti í bjórbúð til þess eins að skilja eftir sig sviðna jörð svo að það geti trúað eigin lífslygum um að heima sé best. Við erum hvorki nýríkir né xenofóbískir svo héðan skal burt burt burt, langt í burt því “Burte er bra men hjemme er best, selfom du reiser fra öst og til vest”