Það var tekið að rökkva þegar við runnum inn í Lake Havasu City. Bærinn var nokkuð sérstakur í sniðum og virtist byggður kringum Ensk-þemaðan gleðireit sem okkur fannst merkilegt stílbrot hér í miðri Mojave eyðimörkinni. Við bókuðum herbergi á Windsor-Inn og með Sævar í pössun fórum við á stúfana að kanna þennan leikvang snoppufríðra ung-kana.
Lake Havasu er nefninlega stórmerkilegur staður og ekki bara útaf glæsikroppum aðkomumanna. Ónei. Kringum 1960 ákvað London (já, höfuðborg Englands) að endurnýja hina einu sönnu London bridge. Útúr myrkviðum Arizona kom þá óvænt Bandarískur auðkýfingur og bauð þeim 2.5 milljónir dollara fyrir gamla eintakið. Þetta kom Bretunum skemmtilega á óvart og brúnni var bara pakkað niður, öllum 10.000 hleðslusteinunum, og hún send til …. Lake Havasu City í Arizona. Og þarna stendur hún í dag í hróplegu ósamræmi við allt annað. Ekki nóg með það heldur tók ríki kaninn sig til og bjó til gervilón með að stífla Coloradó ánna til að brúin fengi nú að njóta sín sem best. Nú, innfæddir sáu sér leik á borði og London-þemuðu strandgleði reitinn sinn og þarna stendur núna bandaríska útgáfan af því hvernig Kanar halda að London sé og svo auðvitað alvöru London brúin. Þarna ríkir því ákaflega mótsagnakennt og togstreituhlaðið andrúmsloft – með þá fágun sem innfæddir vilja eigna enskri stereotýpumenningu og svo hinu hráa spring-break mentaliteti gestanna.
London Bridge.
Fyrsta kvöldið var eiginlega bara vetvangskönnun. Við vorum búnir að keyra gríðarlega vegalengdir og öll ensku kennileitin minntu okkur á dúnmjúku rúmin okkar á Windsornum. Við tókum því bara lítilega púlsinn á pleisinu áður enn við hurfum heim á leið og í draumlandið þar sem Elízabet bretadrolla slóg okkur til Riddara Götunnar.
City of London USA
Morgunstund gefur gull í mund. Við spruttum upp með morgunglaðværð kristilegra ungra manna á Jónsmessumorgni. Hér var nóg að gera við menningarmælingar. Við gerðum út leiðangur niður Colorado ánna í leit að hinni frægu Havasu strönd þar sem spring-break gleðin ræður alltaf ríkjum. Við töldum okkur líka sprengmenntaða í spring-break fræðum eftir duglega skólun bandarískra unglingamynda á borð við Porky´s 1,2 og 3. Við gengum því gallvaskir eftir hvítum sandinum þar til endalaus bátabreiðan blasti við. Hér var gleðin.
Lake Havasu er hinsvegar ekki öll sem hún er séð. Þúsundir báta liggja í flæðamálinu og út frá breiðunni dynja ærandi díseldrunur í bland við taktvísa hip-hop tónlist. Milli bátanna og hálf-sokkin í ánna, lónar svo partí-crewið þambandi léttbjór og hnykklandi vöðva og sílíkonbrjóst. Þetta eru nefninlega bara HNAKKAR! Lake Havasu var snarlega endurskírt Lake Hnakkasu enda þarna varla eitt eintak af mannkyninu sem ekki fellur undir þessa stereotýpu buslandi þarna í flæðamálinu. Billjón tímar í ræktinni, 10.000 lítrar af sílikoni og 100 lítrar af húðflúrbleki störðu hrokafullt framan í okkur. Og aumingja innfæddir. Þeir reyndu að byggja London í miðri Mojave eyðimörkinni en byggðu bara Selfoss.
Svona væri Ölfusáin ef hlýrra væri á Íslandi.
En við létum ekki hendur fallast heldur skelltum okkur beint í sólbað við laugina á Windsornum. Ef botn á að fást í hamingjulíferni Los Angeles ungmenna þurfum við að fara í vetvangsrannsókn og þá eins tanaðir og mögulegt er. Fimm tímum síðar, með vægan sólsting og vott af O.C gljáa, bónuðum við okkur og smurðum efir bestu getu og lyktandi eins og Gilzenegger á rakspírasýningu snérum við aftur til Hnakkasu.
Þegar aftur var komið í bátagleðina virtist rúnturinn farinn að róast og okkur fannst sem við værum staddir í logninu fyrir storminn. Við fengum okkur því bara að borða og fundum svo ákaflega metro bar með útiverönd. Þegar klukkan fór að nálgast 10 snarbreyttist skyndilega umhverfi okkar. Það sem glansgæjar og baywatch gellur kæmu útúr veggjunum. Við tókum þessum með stóískri ró en innan skamms spurði hel-massaður hnakki og föruneyti hans hvort þau mættu setjast hjá okkur. Hverjir vorum við til að segja nei.
Yfirhnakkinn hét Kurt og var af þýskum ættum en hafði rekið Harley verkstæði í Orange County síðustu 10 árin (fyrir áhugasama: www.eightballrodsandchoppers.com ). Hugur hans og áhugamál voru þó ekki á sviði brauðstrits heldur vildi Kurt í raun bara tala um stelpur. Hann hafði mikinn áhuga á okkur og auðvitað aðallega íslensku kvennfólki. Við vorum ekkert að taka neinan Svanhildar í Opru pól og lofuðum siðprýði íslenskra kvenna í hástert. Áhugi Kurt snérist þá að Amsterdam dvöl Óla og þá sérlega að eðli portkvennaþjónustuhverfa sem sú borg er fræg fyrir.
Við vorum hinsvegar forvitnir um hvað við værum komnir útí og spurðum súperhnakkann. Kurt útskýrði stöðuna ýtarlega og af miklu kappi . Við vorum staddir á leikvangi sæmilega ríkra miðstéttar ungmenna frá L.A. Leikreglurnar voru eftirfarandi. Þú mætir með hraðbát. Báturinn er beitan þín og deginum er varið í að tjatta upp stelpur og sýna bátinn. Því flottari bátur, því fleiri og betri stelpur. Þegar beitingu er lokið að kvöldi dags tekur veiði við og við vorum staddir á því stigi núna. Verið var að veiða og ef vel gekk yrði þörf á að verka aflann. Við sögðumst hafa áhyggjur af því að enginn væri báturinn en Kurt fullvissaði okkur um að hann væri búinn að beita vel og byggist við miklum afla. Þar sem Kurt átti bátinn/beituna fylgdi honum veglegt fylgdarlið – rauðhærð biker skvísa, skjaldsveinn hans og einkaþjónn og svo fylking aðdáenda.
Við, Kurt ofurhnakki og rauðhærða bikerskvísan. Skjaldsveinninn tók myndina.
Þegar hér var komið þurfti Baldi að fara að kaupa sígarettur. Í röðinni hitti hann annan ungan bátahnakka sem var líka forvitinn um uppruna þessa illa tanaða útlendings. Baldi útskýrði stuttlega að hann væri frá Íslandi og hnakkinn varð hugsi á svip. „Bjork is from Iceland? Right dude?“ Baldi játti því og hnakkinn var enn meira íhugull áður en hann tók gleði sína á ný og lísti brosandi yfir „hey dude, I´d f*ck her“. Stoltur af landi og þjóð snéri Baldi aftur til Harley-hnakkans sem var í óða önn að ræða enn og aftur ágæti hollenskra portkvenna við þreytulegan Óla.
Óli er svo heppinn að hafa stuttu fyrir brottför fengið crash-course í O.C og One Tree Hill fræðum. Hann vill því gjarnan koma efirfarandi túlkun á Kurt og föruneyti hans á framfæri. Kurt er það sem í OC/OTH flokkunarfræðum kallst vond-góður. Hann var sjálfsagt góður en líklegast hefur vond klappstýra sveigt hann af leið og núna ber hann nákvæmlega enga virðingu fyrir konum. Hann spilar sig því eiginlega verri en hann er enda Rauðhærða biker skvísan með ógnvænlegt tak á hjarta hans þótt alvara sambands þeirra sé ekki veruleg. Framtíðarspá Óla er eftirfarandi. Kurt mun ná saman við góða klappstýru og þar með endurheimta trúnna á fegurra kyninu og líklega fara að feta menntaveginn. Vonda Rauðhærða biker skvísan mun í reiði taka saman við Skjaldsveinin (sem mjög líklega er bróðir eða amk hálfbróðir góðu klappstýrunnar) og egna honum gegn sínum fyrri lærimeistara Kurt. Þeir munu svo há mótorhjólaeinvígi þar sem Skjaldsveinninn mun láta lífið – og þar með eyðileggja samband Kurt og góðu klappstýrunnar eða amk gera það að ónáanlegri ást. Rauðhærða vonda biker skvísan mun svo ná stuttlega tökum á Kurt áður en hann nær áttum og finnur sjálfan sig í einrúmi á Malibúströndinni, hugsanlega fyrir óeigingjarna sjálfsfórn góðu klappstýrunnar.
Það fór að líða að verkun hjá hnökkunum og af kurteisissökum fórum við með á hnakkadiskó. Það var nokkuð skuggalegur staður fyrir vinnusálfræðing og tölvunörd. Hnakkarnir sperrtu sig og góluðu eins og hanar á haug og testósterónfnykurinn var nær óbærilegur. Þeir voru jú allir búnir að vera að beita fyrir sömu stelpunum og núna var að duga eða drepast í hnökkun. Þetta var enginn staður fyrir okkur og að kom að Kurt bjargaði okkur með að út-hnakka ágengan ung-hnakka sem hugðist þenja sig á okkar kostnað. Við ákváðum því að kveðja Kurt, Rauðhærðu biker skvísuna og skjaldsveininn með virtum og snérum aftur á Windsorinn. Þetta var búið að vera erfitt kvöld og við liðum snarlega útaf og inní draumalandið þar sem við skáluðum í kampavíni við O.C gengið við varðeld á rólegri hvítri strönd.
Morguninn eftir ræddum við fengna reynslu síðustu nætur. Það var sammæli okkar að O.C/ One tree hill og allir þessir Californiu unglingaþættir færu bara með rétt mál. Þeir ættu eiginleg heima á Discovery eða National Geographic enda heimildaþættir í eðli sínu. Já hver hefði trúað að þetta væri bara allt satt. Við vorum líka sammála að við þyrftu ekki frekari sönnur á ungmennahamingju L.A og að nú væri kominn tími á einhvað allt öðruvísi. Áttavitinn var því stilltur í austur, hoppað uppí Sævar og brunað burt. Eftir svona svakalegan óverdós af lágmenningu þarf mótvægi og það finnst bara í austur Arizona – fjarri rónum og dónum á unglingafyllerís gervi-lónum.
7 Comments
Leave a Reply
You must be logged in to post a comment.
Frábær lesning!! Mér sýnist þið vera komnir með handrit af nýjum þætti um Kurt og klappstýrurnar sem myndi án efa slá í gegn!
Já Óli ég sé að þú hefur lært mikið af litlu OC-OTH námskeiðunum, þetta litla handrit þitt gæti eins verið OC-þáttur sponsered by bólukrem :)
Víst að þú ert nú á þessu svæði, þá ætturðu að hafa uppá Josh Schwartz sem framleiðir þættina og leggja inn handrit að einum þætti. Þeir vilja alltaf fá einhverja góða gestapenna til að lífga uppá þáttinn.
Mér sýnist að engin sé hæfari en þú til að koma með nýtt twist. Ég legg til að þátturinn heiti “Rebel Yell” og Kurt verði uppistaðan í þínum þætti.
http://en.wikipedia.org/wiki/Josh_Schwartz
Já Ása – OC námskeiðin borguðu sig sko heldur betur. Við hefðum líka ekkert skilið upp né niður í neinu þarna.
Looks like a fresh trip!
Hehe! skemmtilegasta bloggið so far.
OC trash / Euro trash
Gríðargott.
Ben