La det svinge
La det svinge

La det svinge

IMG_0371%20%28Resized%29.jpg
Flaggstang
Við vorum hálf fámálir meðan við brunuðum í Norður og burt frá Tucson. Ekki bætti úr skák að við neyddumst til að keyra gegnum Phoenix. Ömuleiki þess að keyra malbiksbornar spikfellingar þessarar hundleiðinlegu borgar jók enn á ástarsorgina og kristallaði í raun Tucson missinn mikla. En við bitum á sólbrunninn jaxlinn og brunuðum áfram. Ferðinni var heitið til Flagstaff, ferðamannavæddan smábæ við Route 66 lengst uppí fjöllum.
Eftir því sem við nálguðumst Flagstaff og fjarlægðumst sjávarmál tók Arizona að skipta um ham. Flagstaff stendur í 2400 metra hæð og uppúr 2000 metrunum var kaktusprýdda desperadósléttan okkar orðin óþekkjanleg og komin í nýjan og ógnvænlegan búning. Þetta leit bara út eins og Noregur. Óli bjó rúm 3 ár í Noregi og sver og sárt við leggur að hálendur Arizona séu norskari en Morten Harket.
IMG_0329%20%28Resized%29.jpg
Hyttekultur
Þegar loks var komið til Flagstaff verðlaunuðust skipulagshæfileikar okkar duglega. Við höfðum vitrað Lonely Planet véfréttarinnar sem mælti sterklega með gistingu á Hotel Monte Cristo, sem við og framkvæmdum. Þetta var stórglæsilegt hótel á besta stað í bænum og bjó einnig yfir skemmtilegri sögu. Þetta er nefninlega fjallahreiður kanastjarnanna og státar af því að hluti Casablanca var víst tekinn upp þarna. Þetta hljóta þó að hafa verið innisenur þar sem meira að segja draumavélin í Hollywood getur ekki töfrað norska fríluftsfílinginn upp í afrískt drama. Að auki fengum við óvænt forsetasvítuna (Gro Harlem Bruntland suite) og forviða á hvað allt var að gang vel hérna í Flaggstang, Arizona, fórum við að skoða bæinn.
IMG_0330%20%28Resized%29.jpg
Merkilegt nokk eru höfuðstöðvar Demókrataflokksins í Flaggstaff? Árangurinn er eftir því…
Flaggstang er eins og Blöndós. Nokkrar sjoppur standa kringum hinn sögufræga Route 66 veg en þá er allt upp talið og allt annað mannlíf einkennist af stuðandi óáhugaverðleika. Hótelið okkar var eiginlega nafli þessa skandinavíska menningarafkima og í svona 150m radíus var vissulega krúttleg menning en svo bara úthverfagrafreitur eins langt og augað eygði. Við ákváðum því að eyða ekki miklum tíma hérna. Við vorum jú staddir í hálfgerðir Bergen Arizona, í 2400 metra hæð var loftið orðið ansi þunnt og erfitt að taka flóknar ákvarðanir. Við létum því bara hjartað ráða og ákváðum að fara strax í fyrramálið.
Eftir að hafa skolað mesta ferðarykið skelltum við okkur á japanskan veitingastað með hippaþema til að nærast. Við fórum svo að skoða mannlífið en það reyndist þrautinni þyngra að reyna að njóta lífsins bara pínulítið þarna í Flaggstang. Allir menningarreitir borgarinnar voru mannaðir norðmönnum með bandarískar reglubækur – eitraðir blöndu fyrir lífgleði allra nema hinna hörðustu Pollyanna. Fjör í Flaggstang er eins og fyllerí í Folsom. Ef það er ekki sérstaklega leyft þá er það bannað. Við sátum eins og dæmdir menn yfir bjórnum okkar eftir að hafa þurft að sækja vegabréfin okkar þar sem engir innfæddir keyptu það að við værum fæddir fyrir 1985. Kannski búa þessi Nossaraígildi Arizona við einhver Sherpaskilyrði sem hrukka þá skelfilega um aldur fram?. Vissulega kitlaði aldursmunurinn egóið til að byrja með en fljótlega leið okkur eins og Kjartani Galdrakalli í strumpabókunum – óvinsælum og öðruvísi. Og ekki voru strympurnar strumpaðar heldur. Í örvæntingu strumpuðumst við á Hótelstrumpinn í von um aðra samstrumpa með svipaðan menningarsturmp og við.
IMG_0332%20%28Resized%29.jpg
Euro Trash hittir White Trash.
Okkur til mikillar ánægju var White Trash kvöld á Hanastélsbar Hótelsins okkar. Við voru þar að auki svo heppnir að ná pool borði og hugðumst endurtaka hetjudáðirnar frá Tucson. En þessháttar kúlugaldrar stóðu á sér þetta kvöldið enda svoleiðis hamingjukarma útlægt frá Noregsströndum. Við náðum þó sambandi við innfædda sem voru í kveðjupartýi þar sem einn þeirra var að flytja til Idaho en þrátt yfir brennandi áhuga okkar á fjallafólki reyndust þetta vera frekar óáhugaverðir karakterar – hlédrægir, bældir og feimnir, eins og margir Norskir frændur þeirra hafa líka tilhneygingu til.
En neyðin kennir naktri konu að dansa og fljótlega vorum við komnir í slagtog við annan aðkomumann. Sá var fornleifafræðingur að mennt og vann við að dusta rykið af indjánabeinum. Hann var álíka hrifinn og við af staðarháttum og gaf lítið fyrir ósveigjanleika og íhaldsregluverk innfæddra. Þegar svo barþjónninn tilkynnti okkur að við hefðum 7 mínútur til að klára út glösunum var okkur þremenningunum nóg boðið og strunsuðum út. Það hafði reyndar verið talið niður úr 10 mínútum (klukkan var 11:50) en við höfðum bara ekki tekið það alvarlega. Meira að segja Norðmenn eru liðlegri en þetta. Við kvöddum því bara eldhressa fornleifafræðinginn og snérum uppí forsetasvítu harðákveðnir að yfirgefa þennan Tromsökennda fjallabæ hið snarasta. Við biðum svo ekki boðanna um morguninn og flúðum þetta skelfilega háfjallaregluríki eins hratt og dekk Sævars drifu. Svona ómenningu höfum við ekki áhuga á og ef við viljum skoða Norge þá förum við bara í beint í orginalið, og hananú.
Eftir sem við fjarlægðumst Flaggstang kom æ skírar í ljós að við vorum búnir að skoða allt sem máli skptir á leiðinni vestur til Vegas. Kurt mótorhjólahnakki hafði hinsvegar á sínum tíma bent okkur á Laughlin, lítinn spilavítasmábæ á landamærum Nevada og Arizona, sem væri séð sem fátækramanna Vegas. Við vildum alls ekki of snemma til Vegas svo Laughlin ákveðið sem áfangastaður. Þetta Gettóvegas reyndist hinsvegar ákaflega skrýtinn staður þegar áfangastað var loks náð. Nevada meginn stóðu spílavítisklettarnir í röðum en ekrurnar af þrælahúsum vantaði alveg. En auðvitað var það ekki þannig. Það var bara búið að koma bandingjahýbílinum fyrir Arizona meginn. Þetta var ansi skrýtinn sýn með björt ljós og fullorðinsskemmtigarð öðru megin Colarado árinnar en einhvernskona gettó Gaza-fíling þarna hinu meginn.
IMG_0363%20%28Resized%29.jpg
Hertoginn.
Uppfullir af lágmenningargambleráhuga skelltum við okkur útí göngutúr til að taka út Laughlin. Planið var upphaflega að kíkja í sund og slappa af en þeir í Laughlin aðhyllast Reno skólann í fjárhættuspilun svo sundlaugin var höfð milli þriggja turna svo þar væri örugglega ekki sól nema bara í morgunbítið. Menn veðja jú ekki í sundi. En við ætluðum sko ekki að láta slá okkur út af laginu og í fúll-á-móti kasti var ákveðið að rölta gegnum bæinn, svona smá kúltúrtékk, og svo niður að Colorado ánni þar sem við höfðum séð strandling Arizona meginn. Við sem heimskautsbúar áttuðum okkur engan veginn á hverskonar glæfraför þetta var og lögðum uppí leiðangurinn með bara 1 líter af vatni og berir að ofan til að ná meiri O.C gljáa. Klukkutíma síðar fannst okkur við sjá ströndina, eftir að hafa labbað yfir fylkismörk og inni nýtt tímabelti, en ekki var allt sem sýndist. Þessi strönd var sennilega bara tálsýn, svona eins Andres Önd sér oft þegar hann á leið um eyðimerkur. Þarna sem við stóðum í miðri eyðimörkinni sýndist okkur hrægammager vera farið flögra yfir ofan okkur og vatnið var búið. Kósveittir og með hjartað í 4rða gír var því loksins tekin skynsemisákvörðun og stefnan tekin beint á næsta fjárhættuhótel í von um kælingu og bleytu í sólstunguna. Þar sem við komum gangandi útúr eyðimörkinni tókst okkur að valda árekstri þegar einhver ökumanninum varð svo starsýnt á hálfber Ishtar ungmennin kjagandi útúr sandauðninni að hann keyrði gapandi aftaná bílinn fyrir framan. Okkur tókst við illan leik að komast í brynningarholu en eftirleikurinn var nokkuð óblíður. Við vorum með snert af sólsting og deginum var eytti í hálfgerðu móki undir trommuslætti hjartsláttaróreglu. Við fórum því bara snemma í draumalandið þar sem Arabíu Lárens bauð uppá ís.
Dagurinn eftir eyðimerkurmarsinn mikla var nokkuð viðburðarlítill svona framan af. Við þrufum því miður að fara aftur til Vegas og illu er best af lokið….

Leave a Reply