Islömskun í Izmir
Islömskun í Izmir

Islömskun í Izmir

Á iðandi rútustöðinni í Selcuk hringdum við í Atla Hostelhertoga sem fékk einhvern vin sinn til að sækja okkur. Okkur var komið fyrir með tveim öðrum í herbergi og þreyttir eftir ferðalagið skelltum við okkur á barinn. Um klukkutíma síðar fóru svo samgestir okkar á stjá.
IMG_0094-2.jpg
Fótboltaumræður í Selcuk
Eyðimerkurathvarf Atla var allt í hippahimnaríkjastíl, skrúðgarður með sundlaug í miðjunni umkringdur viðarkofum. Fáklætt mussupakkið tók að líða draumkennt með frosið Klórprómazinglott um aldingarðinn og umlaði um yndislegan fábreytileika tilveru sinnar, það var nefninlega að koma matur.
Kokkurinn sá til þess að enginn þurfti að borða vini sína, þótt einstaka hardcore hippinn virtist í einhverskonar tilfinningalegu sambandi við paprikkurnar. Meðal þessa nýaldavofa rákumst við á nýsjálenskan snjóbrettakappa sem við þekktum frá Bodrum. Honum leiddist “Groovy man”, “Relax Dude!” viðhorfið á liðinu álíka mikið og okkur svo eftir matinn hlömmuðum við okkur saman á púðahrúgu og ræddum fótbolta og aðra yfirborðskennda hluti yfir bjór. Seinna um kvöldið urðu blómabörnin forvitin að skoða nýliðana og 7 eða 8 þeirra settust hjá okkur og tóku að ræða hin og þessi háfleygu andans mál. Meðal hippana var Bandaríkjamaður nokkur og fljótlega kom í ljós að honum og okkur samdi álíka vel og tveim rottum í kaffikönnu. Þegar farið var í háttinn kom í ljós að Kaninn var herbergisfélagi okkar. Fljótlega var allt komið í háaloft og þessi uppstökki svefnfriðsspillir rauk ókvæða út, klagaði okkur ísmennina í Atla og neitaði að sofa í sama herbergi. Þessi uppákoma raskaði Jing Jang jafnvægi staðarins og úr varð flokkadráttur meðal gestanna. Um morguninn gekk illa að miðla málum enda dramadrottningin óhuggandi yfir skoðunum okkar á
Bandarískri utanríkisstefnu og einhverjum ósmekklegum Osama brandara. Við buðumst því bara til að fara einum degi fyrr frekar en að standa í langvarandi leiðindum. Með enn lægra álit á Bandaríkjamönnum utan landssteina sinna var stefnan tekin á Izmir frekar en hinn sögufræga nágrannabæ Ephesos sem er bara gamalt granít. Atli skutlaði okkur því á rútustöðina og hið tryllingslega miðasöluferli hófst enn eina ferðina.
IMG_0100-2.jpg
Eftir að hafað keypt miða fengum við okkur tyrkneskan morgunmat og hlýddum hugfangnir um stund á hjartnæman boðskap Mumma sem ómaði úr turnunum – og leiðindi gærkvöldsins hurfu eins og dögg fyrir sólu. Óli brá sér því næst á lúðurinn og rakst á leið sinni á gólandi miðaprangara sem fór að forvitnast um þjóðerni hans, “Where are you from my friend?” Þegar Óli útskýrði að hann væri íslenskur, í nokkru hasti því náttúran kallaði, ljómaðist Tyrkinn upp faðmaði Óla og kyrjaði æstur: “Fltrý, Fltrý!”. Óli stóð stjarfur af undrun um stund og spurði svo hikandi… “Flateyri?” Tyrkinn lýstist þá enn frekar upp, faðmaði enn þéttar og útskýrði “My friend lives in Fltrý and is very happy! He works in fish factory and is very happy, Iceland very cold but very warmheart people!” Eftir að hafað óskað Óla allrar hugsanlegrar lukku á ferðalagi sínu um Tyrkland gerði þessi Íslandsvinur eina lokatilraun til að selja honum rútumiða áður en vinskapurinn varð að víkja fyrir frumþörfunum.
Rútan til Izmir var sorglegt ígildi farartækis; algjörlega kraftlaus dolla sem náði kannski 50km hraða með meðvindi niður í mót. Við höfðum því drjúgann tíma til að skoða úthverfi Izmir þar sem tvennt stakk sérstaklega í augu. Annarsvegar var gríðarlega mikið málmskran á öllum þökum. Til að stytta stundir milli bænakalla prýddu 4-5 gervihnattadiskar jafnvel aumustu hreysin. Svo voru allstaðar furðulegir tankar með áföstum sólspeglum. Við gátum okkur til að þetta væri vistvænt framtak innfæddra til að forðast ofríki ríkisrekinnar hitaveitu. Í öðru lagi var ótrúlegt magn ókláraðra bygginga, breiður tröllvaxinna háhýsa stóðu hvarvetna eins þarna hefði sprungið grísk nifteindasprengja nýlega. Síðar komumst við að að enginn hafði verið bombaður heldur Allah séð sér þóknanlegt að undirstrika mikilfengleika sinn árið 1999 (skv. heiðingjadagatölum). Þetta hafði hann gert með því að bauna einum jarðskjálfta upp á 7.4 á Izmir og með því lógað 40000 af slöppustu múhammeðstrúarmönnunum á svæðinu. Hjálparfé og styrkjum ringdi til Izmir í kjölfarið og úr urðu breiður ónotaðra glæsibygginga. Jarðskjálftinn grisjaði því ekki aðeins svörtu sauðina úr hjörðinni heldur bjó til meira pláss fyrir sanntrúaða. Já Hann er Mikill!
Allar fyrri rútustöðvar fölnuðu í samanburði við langferðabílamustrið í Izmir. Með rúmlega 200 rútupalla í fullu fjöri og óteljandi iðandi miðasölur virtust fyrri rútustöðvar eins og rúnturinn á Flateyri. Við skelltum bakpokunum í geymslu og sömdum við leigubílstjóra um að ferja okkur niður í bæ fyrir litlar 15 milljónir. Izmir er nefninlega stór. Alveg risastór! Næststærst í Tyrklandi satt að segja. Þarna troðast 7-8 milljónir Tyrkja í það sem lítur út sem akrar af litlum kofum og hver fersentimeter er nýttur. Upp úr hreysabreiðunni standa svo málpíputurnar Mumma svo liðið missi ekki móðinn þótt kæfandi hitinn og skítafýlan liggi eins og þéttofið persateppi yfir borginni. Leigubílstjórinn okkar dobblaði líka sem þýskumælandi fararstjóri og ljómaði allur þegar hann frétti þjóðerni okkar, kyrjandi “Sigurvinsson, Sigurvinsson” glaður í bragði. Hann vildi í kjölfarið endilega sína okkur tröllvaxinn leikvang Fenebache (KR Izmirbúa) og bauðst jafnvel til að redda okkur miðum á Fenebache – Juventus daginn eftir. Vitandi að Bretar þorðu ekki að styðja eigið landslið þegar þeir kepptu við Tyrki í undankeppni EM, ákváðum við að afþakka pent. Fararstjórinn var jafnframt ákaflega spenntur yfir evruforða okkar og sagðist tilbúinn að keyra okkur HVERT SEM ER ef viðundandi evruþóknun kæmi í staðinn. Með nafnspjald, gemsanúmer og hafsjó óþarfa upplýsinga um einkahagi þessa framtakssama Tyrkja héldum við fótgangandi inn í mengunarmistrið.
IMG_0111-2.jpg
Ataturk leiðir hjörð sína
Izmir er eins og platónsk frummynd arabískra stórborga. Þröngar skítugar götur hlykkjast óreglulega um það sem virðist vera risavaxinn skranmarkaður og háværir innkastarar rembast við að pranga mat og annarri neysluvöru inn á vegfarendur. Eftir dágott labb völsuðum við inn á mjög local útlítandi kaffihús þar sem innfæddir þömbuðu tyrkneskt te og spiluðu bakgammon, rummikubb við mikla hárreysti. Við báðum um bjór og þá bara hlegið af okkur. Við gerðum þá aðra tilraun og pöntuðum kaffi með ýmisskonar látbragði og bendingum en þótt þjónninn okkar hafi litið út fyrir að hafa kveikt á perunni varð lokaniðurstaðan kirsuberjadjús og spínatbrauð.
Yfir kaffiígildinu gall enn á ný í boðberum Mumma og japlandi á spínatbrauðinu upphófst guðfræði umræða milli okkar um ágæti Islam. Niðurstaðan var að gamli guðinn okkar, sem alltaf er að pirra sig á eplaþjófnaði Evu í frumbernsku mannkyns er bara ekki jafn mikill og Sá Mikli. Svona leiðindalangrækni og undarleg sáttatilþrif (þar sem þessi guð fékk Rómverja til að buffa son sinn og að lokum negla angann upp svo mannkynið ætti aftur séns eftir ávaxtauppákomuna) þolir illa samanburð við hinn frábæra Allah og hans possie. Allah lofar okkur fullt af gellum og gleði ef við bara látum vera að borða beikon. Það fannst okkur ekki slæmur díll. Auðvitað eru einhver fleiri smáatriði sem þarf að taka til athugunar, en við gúdderum bara ekki að svona stuð-guð sé á móti bjór fyrr en við höfum haft tíma og tækifæri til að rýna í frumtextann hans Mumma. Við snérumst því til Islam, afneituðum eplaguðinum og tókum okkur Múslímsk nöfn eins og venja er. Harðánægðir með nýja guðinn okkar héldum við aftur á rútustöðina.
Á rútustöðinni í Izmir sveif á okkur nokkur trúarofsi og Grikkjahatur, við stóðum augljóslega gagnvart tveimur valkostum. Annars vegar að snúa í suður, taka rútu til Hakkari eða Batman við sýrlensku landamærin og fara þaðan beina leið til Mekka að ljúka skyldunni. Hins vegar er það líka skylda hvers sanntrúaðst múslima að halda gleðiboðskapnum á lofti og heiðingjarnir í Grikklandi ekki nema rútu – og bátsferð í burtu. Eftir dálitlar vangaveldur ákváðum við að leggja örlög okkar í hendur Allah og köstuðum 100000 líru pening þar sem upp kom Ataturk svo trúboð varð niðurstaðan. Við biðum ekki boðanna heldur rukum til og keyptum miða til ferjuborgarinnar Cesme.
Klukkan var rétt um miðnætti þegar við komum á áfangastað, þar fundum við okkur sláandi spartanskt hótel og eftir að hafa sent risavaxinn kakkalakka til pöddupardísar sváfum við svefn hinna réttlátu eftir stutta kvöldbæn.
IMG_0110-2.jpg
Stórfenglegt útsýni af kakkalakkahótelinu
Cesme er svona Harlem útgáfa af Bodrum þar sem búðir hafa þann ósið að loka, strandir eru vandfundnar. Við sáum því enga ástæðu til að ílengjast þarna þar sem sólbað gat beðið en báturinn ekki. Uppfullir af sjálfsöryggi hins sanntrúaða og réttláta manns stigum við því upp í Erturk dallinn sem skyldi ferja okkur til Grikklands og horfðum tregafullir á bænaturnana fjarlægjast.´
Í heildina á Tyrkland 12 stigin skilið, þjóðin er með eindæmum vingjarnleg og þjónustulundin langt umfram það sem tíðkast á vesturlöndum. Samgöngur standa og falla með langferðabílum en innfæddir hafa náð að hefja þennan ferðamáta upp á æðra plan. Í rútum bera sérþjálfaðir rútuþjónar sælgæti, vatn og vellyktandi handþvottamysu í ferðalanganna til að hámarka ferðahamingju þeirra. Luxus Pamalukke rúturnar í Tyrklandi taka íslenskum Sagaklössum auðveldlega fram fyrir þreyttan ferðamannarass.
Það verður að sjást sem sögulegt feilspor að Evrópubúar skuli hafað með ofbeldi hindrað útbreiðslu Ottomanna hér á árum áður og við öfundum þessa 40 Vestmannaeyinga sem fengu free ride til þessarar paradísar á sínum tíma.
IMG_0113.jpg
Á leið til frekari útþenslu Ottomannaveldis

2 Comments

Leave a Reply