Þegar komið var frá Hollandi sátu búttaðir hormottutyrkir og rukkuðu fyrir inngöngu í Tyrkland og það mismikið eftir þjóðerni. Þótt Ísland hafi ítrekað tekið þátt í Eurovision gapti okkar Tyrki undrandi yfir vegabréfunum okkar þar sem Ísland var ekki á listanum. Hann náði í vin sinn og kannski útaf þessum deux pointe um árið var bara ákveðið að hleypa okkur ókeypis inn með bros á vör á meðan Hollendingarnir mokuðu evrunum sínum í Tyrkina með fílusvip. Tónlistaleg víðsýni íslendinga verðlaunast því, meðan frændsemi Hollendinga Belga kostaði þá bjórkassa á kjaft!
Eftir að hafað tékkað inn á Bodrum Backpackers búlluna um kl 01 ákváðum við að best væri að bleyta aðeins upp í skraufþurru miðtaugakerfinu. Eftir 5-6 stykkprufur af barmenningu Bodrum röltum við áleiðis heim og undruðum okkur á að hárgreiðslustofur, dótabúðir og bílaleigur voru ennþá í fullu fjöri, Bodrum nebblega lokar aldrei! (fjögur um nótt) “Haircut for you my friend, no problem!” Verandi þreyttir eftir flugið skelltum við okkur í háttinn um fimm leytið en hrukkum upp korteri seinna þegar innlendir sáu sér ástæðu til að minna okkur á að Allah væri ansi mikill og fílaði ekki svefnpurkur. Málpípa Allah í þessum efnum var 500W gjallarhorn með voljúmtakkan stilltan á 11 sem tjóðrað var við þartilgerðan turn svona 50m frá hostelinu. Við heiðingjarnir vissum fyrst ekki hvað á okkur stóð veðrið, var verið að blása til orrustu gegn Grikkjum eða yfirvofandi loftáras? Óli hafði hins vegar verið í Túnis og kveikti fljótlega á perunni. Þar í landi létu menn sér samt nægja bara raddböndin en hér í Bodrum, þar sem trúleysingjar úða í sig brennivíni og beikoni er augljóslega nauðsynlegt að nota loftvarnarlúðra til að hamra ást Allah í hausinn á heiðingjunum. Ylvolgt um hjartaræturnar svifum við inn í draumalandið þar sem okkar biðu gellurnar 70 sem sanntrúuðum hefur verið lofað í framhaldlífinu.
Bodrum reyndist hin mesta verslunarborg, völundarhús þröngra stræta þar sem skælbrosandi innkastarar rembast við að pranga inn á ferðamenn bílförmum af falsaðri vestrænni merkjavöru. Allt fer þetta þó fram í mestu vinsemd þótt framtakssemin sé yfirþyrmandi. “Where are you from my friend?”, “Very special price for you my friend”, “This shirt, this t-shirt only 40 million lira for you my friend”, “Ah Islandah very cold my friend”, “Turkey very nice country!”.
Neyslutryllingurinn hentaði okkur ekki alveg, enda bakpokarnir nógu þungir nú þegar, ekkert pláss fyrir falsaða Pradaskyrtu.
Blammo íhugar klippingu í morgunsárið
Eftir dálítið plott með hostelkóngnum ákváðum við að stefna til Selcuk þar sem við höfðum haft upp á hippaparadísarhosteli rétt fyrir utan bæinn. Einhverskonar athvarf fyrir húðlatt bakpokafólk á flótta frá kapítalismanum. Við röltum því vongóðir á rútustöðina en í Tyrklandi eru þessháttar stofnarnir ólikar BSÍ. Þarna standa menn æpandi bæjanöfn og benda á básaþyrpinga þar sem óteljandi rútufyrirtæki rembast við að pranga miðum á mannskapinn. Rútur eru aðalfaratækið hér svo við létum vaða og keyptum miða. En Jésús Pétur það klikkaði! 2 tímum síðar sátum við á rútustöð í Söke þar sem greinilega hefur aldrei komið hvítur maður, hér stóð til að við skiptum um rútu en tímaáætlanir (eins og kannski tímakaupið) eru afstæðar í Tyrklandi. “Only 30 minute my friend”, “Only 10 minute my friend”. 3 klst síðar innan um vannærð skópússunarbörn, betlara og útigangshunda var farið að örla á örvæntinu hjá okkur. Við vöktum almenna athygli auk þess að rútustöðin var ekki heiðingjavæn (bjórlaus) og við þorðum ekki í matinn. Innfæddir voru mikið spenntir yfir hvítingjunum og ákaflega vinalegir þótt tungumálaþröskuldurinn hafi afmarkað umræðuefnið við nöfn á frægum fótboltamönnum með viðeigandi látbragði. Rétt um það bil þegar við vorum farnir að spá í leigubílum og öðrum örþrifaráðum rúllar rútan inn eins og ekkert væri sjálfsagðara og út hoppar vel klæddur hormottutyrki æpandi Selcuk, Selcuk! og hjartað tók gleðikipp.
Það verður þó að koma fram að þar til gerðir turnar boðandi fagnaðarerindi Allah hughreystu okkur titrandi taugahrúgurnar á raunarstund. Okkur var hugsað til Hallgrímskirkju sem ávallt böggar Reykvíkinga þegar síst skal en hér í landi eru allir vingjarnlega minntir á hvað Allah er meiriháttar og að Mummi karlinn sá til þess að við vitum það! Uppveðraðir af boðskap Mumma rúlluðum við því til Selcuk…
6 Comments
Leave a Reply
You must be logged in to post a comment.
Þrælskemmtileg lesning. Keep it coming.
Frábært hár ;)
ímelda er dáin og það kviknaði í íbúðini og það var rispaður hakakross á húddið á alfanum,
en annas er allt flott mendur.
og já meira skrif mæ frend
Snilldsstöff jó. Bið að heilsa Murat.
Glæsilegt blogg :) ég reyni að drepast ekki úr leiðindum og öfund hérna heima en er ekki sammála fyrsta blogginu þínu.. 2022 er full seint :) ég kem á næsta ári!!! *skalla haus í vegg*
farið varlega og bið að heilsa kellunum í lesbos ef þið eruð á leið þangað þeas…
og já mig vantar nýja tusku, endilega kaupa armani t shirts :)
Allah hu Acbar