Eftir 15 tíma viðburðalausa ferjuferð vorum við affermdir á stórskipahöfninni í Þessaloniku. Eftir hálftíma göngu á bryggjunni innan um varðhunda og ófrýnileg nagdýr eygðnum við loks menningu og 2 tímum síðar ráfuðum við inn á hótel Akrópól þar sem meðvitundin fjaraði út um leið og við gátum skellt í lás.
Við vöknuðum um kl 13:00, þyrstir í hefbundna neyslumenningu, og Þessulónika svíkur enga evruhlaða eyðsluklónna. Þetta er þéttofinn Laugarvefur þar sem innlendir marsera skipulega í takt við trommu Mammóns. Okkur var fljótlega ljóst að Þessalónika var engin Spikos og þyrstir í frekari mannfræðiverkefni tókum við til óspilltra málanna við næstu vettvangsrannsókn.
Boðberar eplaguðsins staupa sig i boði Mammons
Þessalónikubúa má grófflokka í tvennt. Annars vegar er venjulegt fólk sem samviskusamlega stundar grískan hversdagsleika. Hins vegar þrífst þarna þjóðflokkur, Homo Hypertrendius sem hangir öllum stundum á mínimalískum stál og leður börum og spáir í merkið sitt. “Stááál og leður er merkið mitt, merki kaffihúúsa uuupppa….” Dökkhærðir glansgæjar merktir í bak og fyrir af nýjustu merkjavöru stara með ísköldum Zoolandersvip á Paris Hilton wannabe-in, sem undarlegt nokk eru allar ljóshærðar. Þótt okkur vanti aðeins upp á erfðafræðidoktorinn ræddum við mikið hvernig þessi stofn viðhéldi sér. Þriðjudagsbarinn í Þesslóniku státar nefninlega af fleiri ljóskum en Jónsmessunótt í Jönköbing. Hvar eru ljóshærðu strákarnir? Ég meina það þýðir ekkert að treysta á að krakkinn erfi alltaf háralitinn hennar mömmu. Ljóst hár virðist vera inngönguskilyrði fyrir kvenkynsútgáfu þessa þjóðflokks en Tyrkir réðu þessu landi í fleiri hundruð ár, með viðeigandi pissi í genapollinn, og aldrei sáum við ljóshærðan Tyrkja. Hvernig er þetta hægt?!
Lamaði dansinn?
Næsti dagur var helgaður hámenningu. Af því tilefni fórum við á safn tileinkað Alexander Mikla og Makedónískri menningu. Grikkir virðast hafa verið lúsiðnir við að ræna grafir forfeðra sinna og eru jafnframt algjörlega skammlausir við að bera góssið á torg. Þarna bera að líta gullkórónur, herklæði, vopnabúnað og ýmiskonar hversdagsskran. Vissulega aðdáunarvert hvað þetta lið var duglegt við að punta sig fyrir 2500 árum. Skartgripir, krukkur og öskubakkar Makedóna til forna væru alveg samkeppnishæfir við Jón&Óskar í dag. Það sem hinsvegar stakk í augun var stærðin á herklæðum þessara herbröltstöffara 5. aldar fyrir Krist. Ég meina þessir kallar, undir forystu Alexanders Mikla, lögðu undir sig lungað af hinum þekkta heimi og satt að segja pínulítið af hinum óþekkta í viðbót. En í dag myndu þeir þurfa að kaupa föt í Polarn&Pyret. Þetta voru bara dvergar! Við sáum fyrir okkur Phalanx eftir Phalanx af pínulitlum reiðum bronsklæddum mönnum æpandi skrækróma heróp þegar þeir hjóluðu gallvaskir í ofurefli Persa. Já margur er knár þótt hann sé smár. Þessa hersingu leiddi svo sigurvegarinn Alexander sem sjálfssagt leit út eins og Bilbó Baggins á 5 vikna folaldi. Vitandi að Hollywood er með tvær myndir um Alexander í skólplögnunum viljum við stinga upp á að Danny Devito leiki Alexander til að gæta sagnfræðilegrar nákvæmni.
Sögufölsun?
Gáttaðir á grískri menningu ályktuðum við að núna væri kominn tími á eitthvað allt annað (And now for something completely different). Í morgunsárið á þriðja degi stukkum við því upp í lest sem lofaði að flytja okkur til heimsborgarinnar Skopje í Macedoniu.
Grikkir gerðu vissulega góða hluti í fornöld en hafa verið í dálítilli lægð síðustu 2500 árin. Við gefum Grikklandi senq pointe og það er ekki laust við að maður spái í hvort Sókrates hafi bara verið feitur kall að reyna að vera töff á einhverju torgi í merkjatókanum sínum til að ganga í augun á einhverjum ljóskum.
Hvíti turninn sem er ekki lengur hvítur…